Egill Jónsson um ummæli fjármálaráðherra vegna búvörufrumvarpsins Er sýnilega að reyna að skapa tortryggni meðal neytenda Getgátur um ósanngirni í sambandi við verðlagningu ástæðulausar, segir Halldór Blöndal "Í BREYTINGARTILLÖGUNUM við frumvarpið eru...

Egill Jónsson um ummæli fjármálaráðherra vegna búvörufrumvarpsins Er sýnilega að reyna að skapa tortryggni meðal neytenda Getgátur um ósanngirni í sambandi við verðlagningu ástæðulausar, segir Halldór Blöndal "Í BREYTINGARTILLÖGUNUM við frumvarpið eru settar þrengri skorður í þessum efnum, heldur en voru ákveðnar í desember, þannig að fjármálaráðherra skilur ekki málið, enda er alveg greinilegt að hann er þarna að fiska í gruggugu vatni sá drengur. Hann er sýnilega að reyna að skapa tortryggni meðal neytenda gagnvart þessum ákvörðunum. Það er ljótur leikur," segir Egill Jónsson, formaður landbúnaðarnefndar Alþingis um þau ummæli Friðriks Sophussonar fjármálaráðherra í Morgunblaðinu í gær að koma verði í veg fyrir að með álögum sé gengið á hlut neytenda og annarra atvinnugreina en landbúnaðar með því að færa of mikið vald í hendur landbúnaðarráðuneytisins við álagningu gjalda á innfluttar vörur.

"Samkomulagið í desember fól það í sér, að jöfnunargjöldin yrðu flutt yfir í landbúnaðarráðuneytið. Það er í samræmi við vinnu þingnefndar og samþykktir Alþingis á samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði," segir Halldór Blöndal landbúnaðarráðherra.

"Fyrir okkur í landbúnaðarráðuneytinu og í landbúnaðarnefnd vakti eingöngu að skapa traust á framkvæmdinni eftir því sem opnast fyrir innflutning á landbúnaðarvörum, fyrst með þeim fríverslunarsamningum sem við höfum gert og síðar með GATT-samkomulaginu. Það er óhjákvæmilegt að heimildir landbúnaðarráðuneytisins séu ótvíræðar og traustar og vinna lögfræðinganna hefur eingöngu lotið að því. Ég tel alveg ástæðulaust að vera með getgátur um að fyrir landbúnaðarráðuneytinu vaki ósanngirni í sambandi við verðlagningu, sem neytendur þurfi að óttast, enda er frá því gengið í frumvarpinu að fulltrúar landbúnaðarráðuneytis, fjármálaráðuneytis og viðskiptaráðuneytis komi að undirbúningi jöfnunargjalda og ef ágreiningur verður uppi, þá ber mér að leggja málið fyrir ríkisstjórn, þannig að það er tryggilega frá öllu slíku gengið. Ég legg áherslu á að lögin séu ótvíræð og ég legg líka áherslu á að það skiptir miklu um verðlagningu landbúnaðarvara, líka fyrir annan iðnað en þann sem er beinlínis mjólkuriðnaður eða kjötiðnaður, að við högum okkur í samræmi við aðrar þjóðir og að íslenskir framleiðendur, hverjir sem þeir eru, geti notið jafnstöðu, að minnsta kosti gagnvart innflutningi. Ég vil líka leggja áherslu á að í samvinnu við fjármálaráðuneytið er nú í undirbúningi löggjöf um að lækka aðflutningsgjöld á aðföngum til garðyrkjunnar. Ég álít líka í ljósi þeirra umræðna sem nú eru uppi, að það komi til álita að lækka álögur á íslenska landbúnaðarframleiðslu sem fjárlög gera nú ráð fyrir," sagði Halldór.

Stýribúnaður

Í frétt Morgunblaðsins í gær lagði fjármálaráðherra áherslu á að gjöld sem væru umfram verðjöfnun væru í eðli sínu verndartollar og ættu ekki að vera á forræði einstakra atvinnuvegaráðuneyta. "Það sem verið er að tala um í þessum efnum er, að hér er hinn raunverulegi stýribúnaður sem verður eftir að við leggjum af innflutningsbönn," sagði Egill. "Þá hafa þær þjóðir sem ganga til þessara breyttu skipanar mála þann rétt, að hafa sérstakt álag á innfluttar vörur tímabundið, sem á að lækka ár frá ári út þennan sex ára aðlögunartíma. Þeir sem eru að tala svona eru bara að segja að íslenskur landbúnaður eigi að búa við aðra skipan þessara mála heldur er grundvöllur að því samkomulagi sem þjóðirnar eru að gera sín á milli," sagði Egill.

Í "Það er mjög sérstætt að embættismenn í ráðuneytum sem eiga að vera trúverðugir setji fram skoðanir sínar með þessum hætti," segir Egill um það álit sérfræðinga sem unnið hafa á vegum utanríkis- og viðskiptaráðuneytanna að með breyingum landbúnaðarnefndar séu landbúnaðarráðherra fengnar heimildir til að leggja margfalt hærri verðjöfnunargjöld á fjölmargar vörur en núverandi skipan geri ráð fyrir. "Í lögum segir núna að landbúnaðarráðherra hafi heimild til að leggja á verðjöfnunargjöld og ákveða upphæð þeirra. Það er skýrt þannig að honum sé heimilt að fara upp í topp á okkar viðskiptasamingum. Það verður ekki túlkað öðruvísi. Vilja menn ekki reikna út hverjar þær heimildir eru?" sagði Egill.

"Þegar menn eru að stilla upp þessum tölum þá eru menn með áróður. Það er talað um að þessar heimildir byggist á heimsmarkaðsverði, sem er eins og menn vita niðurgreitt með ýmsum hætti. Þetta eru viðbrögð við þessum samningum, ekki bara á Íslandi, heldur í allri Evrópu og víðar þegar er verið að þróa þennan atvinnuveg til nýrra og breyttra tíma. Þetta sýnir bara að þessir menn hafa ætlað og ætla sér að koma inn landbúnaðarvörum á niðursettum verði, eins og þeir voru að vinna að í sumar með innflutningi á skinku og kalkúnalærum. Þessir menn eru bara að upplýsa sínar skoðanir í þessum efnum og það verður þess vegna að bregðast miklu harðar við heldur en ella væri. Þetta upplýsir þann grundvallarágreining sem er í málinu," sagði Egill.

Blanda sér í pólitískar umræður

"Ég átta mig ekki alveg á hvað þessir nafnlausu sérfræðingar viðskipta- og utanríkisráðuneytis eru að fara. Ef þeir eru að vinna trúnaðarvinnu fyrir sína ráðherra eiga þeir ekki að blanda sér í pólitískar umræður, heldur gæta að embættisskyldu sinni. Ég hef athugasemdir að gera við það sem þeir hafa sagt en ég ætla ekki að rífast við þá í blöðunum," sagði Halldór Blöndal.