Fundur FFJ um atvinnuleysi FÉLAG frjálslyndra jafnaðarmanna heldur fund á Kornhlöðuloftinu við Bankastræti þriðjudagskvöldið 22. febrúar kl. 20.30. Fundarefnið er: Atvinnuleysi og skipulag á vinnumarkaði.

Fundur FFJ um atvinnuleysi

FÉLAG frjálslyndra jafnaðarmanna heldur fund á Kornhlöðuloftinu við Bankastræti þriðjudagskvöldið 22. febrúar kl. 20.30. Fundarefnið er: Atvinnuleysi og skipulag á vinnumarkaði. Er samband þar á milli?

Atvinnuleysi orsakir þess og afleiðingar hafa verið mjög í sviðsljósinu undanfarin misseri. Frumorsakir vandans eru óumdeilanlega minnkandi þorskafli og lítill hagvöxtur, en eru afleiðingarnar ef til vill meiri en þær þyrftu að vera? Vextir hafa farið lækkandi, verðlag er stöðugt og viðskiptajöfnuður hagstæðari en oftast áður. Hamlar ósveigjanlegur vinnumarkaður á Íslandi aðlögun í átt til nýrra sóknarfæra?

Sumir telja að þegar kreppir að knýi allsherjarkjarasamningar fyrirtæki til uppsagna í meira mæli en nauðsynlegt væri. Af tvennu illu er þá ef til vill skárra að lækka launin en segja upp fólki. Einnig er gagnrýnt að meðan fyrirtæki og fólk draga saman seglin og herði sultarólar er ekki hróflað við dýrri yfirbyggingu vinnumarkaðarins með ótal sjóðum og gjöldum. Nýtast verkalýðsfélög og atvinnurekendasamtök fólki og atvinnulífi sem skyldi þegar á reynir? Eru þau í takt við tímann?

Umræða um skipulag og hagkvæmni vinnumarkaðarins á Íslandi er löngu tímabær og nauðsynleg. Til að hrinda henni af stað efnir Félag frjálslyndra jafnaðarmanna til opins fundar um þetta mikilvæga málefni.

Frummælendur á fundinum verða sem hér segir:

Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófsessor mun ræða um tengsl atvinnuleysis og ósveigjanleika á vinnumarkaði. Þorvaldur mun brjóta til mergjar ýmsa eiginleika núverandi skipulags og benda á afleiðingar þeirra, ekki síst þær sem koma í ljós þegar kreppir að. Þorvaldur mun einnig ræða um atvinnulýðræði og hugmyndir Vilmundar Gylfasonar um breytt fyrirkomulag á vinnumarkaði, þar á meðal vinnustaðasamninga.

Jóhannes Nordal fyrrverandi Seðlabankastjóri mun fjalla um tengsl launamála við almenna efnahagsstjórnun. Hann mun draga ályktanir af víðtækri reynslu sinni við stjórn efnahagsmála um það hvar vel hefur tekist um skipulag þessara mála og hvað mætti fara betur.

Óskar Magnússon forstjóri Hagkaupa mun ræða skilvirkni hins íslenska vinnumarkaðar. Er kerfið of dýrt? Skilar það launafólki og atvinnurekendum hagsbótum í hlutfalli við það hvað það kostar? Er "skattlanging" fyrirtækja og fólks af hálfu sjóða verkalýðs- og vinnuveitendasamtaka gengin út í öfgar? Þyrfti samkeppni að aukast á þessu sviði eins og öðrum? Er skylduaðild að verkalýðsfélögum nauðsyn eða tímaskekkja?

Christian Roth forstjóri ÍSAL mun bera skipulag íslenska vinnumarkaðarins saman við það sem hann þekkir frá Þýskalandi og geta nokkurra skipulagsbreytinga sem hugsanlega eru til að draga úr atvinnuleysi.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þingkona ræðir um það hvort "aðilar vinnumarkaðarins" hafi of mikil áhrif á íslenska hagstjórn eða hvort getuleysi stjórnmálaflokka á þessu sviði hafi af nauðsyn leitt til þess að völdin færist frá þeim. Hún mun varpa ljósi á missterka stöðu launafólks á vinnumarkaði og þá spurningu, hvort hefðir og hagsmunir kerfisins sjálfs séu orðnir of rótgrónir til þess að nokkru verði um breytt, þótt ástæða þætti til.

Fundarstjóri verður Margrét S. Björnsdóttir formaður FFJ. Að lokinni framsögu svarar frummælendur fyrirspurnum. Fundurinn er öllum opinn. Kaffigjald er kr. 500.

Þorvaldur

Gylfason

Jóhannes

Nordal

Óskar

Magnússon

Christian Roth

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir