Fyrsti sendiherra Króatíu á Íslandi afhendir trúnaðarbréf Bosníudeiluna verður að leysa með viðræðum GJURO Dezelic afhenti s.l. miðvikudag Vigdísi Finnbogadóttur, forseta Íslands, trúnaðarbréf sitt, sem fyrsti sendiherra Króatíu á Íslandi.

Fyrsti sendiherra Króatíu á Íslandi afhendir trúnaðarbréf Bosníudeiluna verður að leysa með viðræðum

GJURO Dezelic afhenti s.l. miðvikudag Vigdísi Finnbogadóttur, forseta Íslands, trúnaðarbréf sitt, sem fyrsti sendiherra Króatíu á Íslandi. Hann hefur aðsetur í Kaupmannahöfn. Hann sagðist í samtali við Morgunblaðið telja þetta vera sögulega stund. Ísland hefði verið fyrsta ríkið til að viðurkenna sjálfstæði Króatíu í árslok 1991 og væri hann mjög stoltur af því að vera fyrsti sendiherra Króatíu á Íslandi.

"Nafn Íslands er ritað gylltum stöfum í sögu Króatíu. Skilningur Íslendinga á sjálfstæðisþrá okkar hjálpaði okkar að þola þá erfiðleika, sem við urðum að ganga í gegnum. Þá vorum við mjög þakklát fyrir þá neyðaraðstoð, sem Íslendingar veittu, meðan á stríðinu stóð, sem kom sér mjög vel í hrikalegri stöðu. Ég vona að skipan mín sem sendiherra verði upphafið á auknum samskiptum ríkjanna og einnig fyrst og fremst mjög innilegum samskiptum," sagði Dezelic.

Áhugi á handbolta

Hann sagði að því miður hefðu samskipti ríkjanna til þessa ekki verið mjög mikil. Það væri helst á íþróttasviðinu, sem þau hefðu verið töluverð en báðar þjóðirnar hefðu mikinn áhuga á handbolta. Þá hefðu menningarsamskipti einnig verið einhver en viðskipti því miður óveruleg. Sendiherrann vonaðist þó til að viðskipti ríkjanna myndu aukast á næstu árum.

Dezelic sagði ástandið í Króatíu enn vera erfitt þó að vopnahlé hafi verið gert við Serba í ársbyrjun 1992, skömmu eftir að Króatía var viðurkennd á alþjóðavettvangi. Þriðjungur landsins væri enn hernuminn af serbneskum skæruliðum og þeir hefðu reynt að reka á brott alla þá, sem ekki væru af serbneskum uppruna. Væri nú í Króatíu að finna 250 þúsund manns, sem hefðu verið hraknir á brott. "Serbarnir eru enn að reka í burtu önnur þjóðarbrot. Þeir stefna að "hreinum" svæðum." Nefnir sendiherrann króatísku borgina Vukovar, í austurhluta landsins, sem dæmi um svæði, sem hafi farið illa út úr stríðinu. Hún hafi verið eyðilögð í árásum Serba og þeir reyni nú að innlima hana inn í Stór-Serbíu.

Flókin saga

Hvað átökin í Bosníu-Hersegóvinu varðar segir Dezelic að menn verði að hafa hugfast hversu flókin saga þessa lands sé og hversu margar þjóðir búi þar. Króatar hafi hins vegar verið fyrsta ríkið sem viðurkenndi sjálfstæði Bosníu og sendi þangað sendiherra. Á alþjóðavettvangi hafi hins vegar gætt grunsemda um að þeir ættu beina aðild að átökunum í landinu. Af þeirri ástæðu hafi króatísk stjórnvöld beðið SÞ og EB um að hafa eftirlit við landamæri Króatíu og Bosníu til að komast að hinu sanna. "Fyrir skömmu var það í fréttum að sveitir króatíska hersins hafi barist í Bosníu. Hið rétta er aftur á móti að þetta voru króatískir sjálfboðaliðar. Er Serbar réðust inn í Króatíu á sínum tíma snerust Króatar til varnar og fjölmargir bosnískir Króatar komu til Króatíu til að taka þátt í þeirri baráttu. Flestir þeirra hafa nú snúið aftur til heimkynna sinna í Bosníu. En þó að króatísk stjórnvöld hafi ekki blandað sér í átökin í Bosníu látum við okkur auðvitað hag bosnískra Króata varða. Þetta er okkar þjóð. Markmið okkar er hins vegar að finna friðsamlega lausn á þessari flóknu deilu og það er það sem menn eru að gera í friðarviðræðunum í Genf."

Loks vopnahlé

Sendiherrann sagði, varðandi hótun Atlantshafsbandalagsins um árásir á fallbyssuhreiður Serba í kringum Sarajevo, að eftir tveggja ára linnulausar stórskotaliðsárásir á borgina hefði nú loks tekist að koma á vopnahléi. "Hótun NATO hefur því greinilega verið tekin alvarlega. Þær þrjár þjóðir sem berjast í Bosníu verða að komast að samkomulagi. Það samkomulag verður að nást í gegnum viðræður en ekki stríð. Serbar eða "Júgóslavía", þ.e. Serbía og Svartfjallaland, hafa enn ekki viðurkennt sjálfstæði Króatíu og Bosníu. Serbar hafa haldið árásum sínum áfram þó að hótun NATO virðist nú hafa orðið til að stöðva þá. Það hefur verið tekið skref í átt að lausn deilunnar," sagði sendiherra Króatíu.

Morgunblaðið/Emilía

KRÓATÍSKU sendiherrahjónin Gjuro og Nada Dezelic.