"Smugubann" í Beringshafi New York. Frá Huga Ólafssyni, fréttaritara Morgunblaðsins. SEX þjóðir hafa samið um bann við veiðum í svokölluðu "Kleinuhringsgati" á alþjóðlegu hafsvæði í Beringshafi utan 200 mílna lögsögu Bandaríkjamanna og Rússa.

"Smugubann" í Beringshafi New York. Frá Huga Ólafssyni, fréttaritara Morgunblaðsins.

SEX þjóðir hafa samið um bann við veiðum í svokölluðu "Kleinuhringsgati" á alþjóðlegu hafsvæði í Beringshafi utan 200 mílna lögsögu Bandaríkjamanna og Rússa. Með veiðibanninu á að reyna að rétta við Alaska-ufsastofninn, sem hrundi fyrir nokkrum árum.

"Kleinuhringsgatinu" svipar að mörgu leyti til "Smugunnar" í Barentshafi og Rússar og Bandaríkjamenn hafa kennt veiðum erlendra þjóða þar um hrun ufsastofnsins. Árið 1989 veiddust 1,4 milljón tonn af ufsa í gatinu en 1992 var aflinn aðeins um 10.000 tonn.

Samkomulag um veiðibannið náðist í fyrri viku eftir þriggja ára samningaviðræður. Það kveður meðal annars á um eftirlit til að stöðva meintar ólöglega veiðar á svæðinu.

Ufsahrunið hefur leikið sjávarútveginn í Alaska grátt en hann á ekki aðeins undir högg að sækja þar og við Kyrrahafsströndina því í ársbyrjun gekk í gildi reglugerð sem kveður á um allt að helmings samdrátt í fiskveiðum í Nýja-Englandi á norðausturströndinni næstu fimm til sjö árin. Ástæðan fyrir aðgerðunum er sögð vera ofveiði á þorski, ýsu, lúðu og fleiri fisktegundum.

Ron Brown, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, hefur lagt til að fiskiþorp á Nýja-Englandi fái efnahagsaðstoð sem svarar til um 180 milljóna íslenskra króna til að milda áhrif kvótaskerðingarinnar.