Fyrrum vinnuveitendur Hillary Clinton Brutu ekki reglur Washignton. Reuter.

Fyrrum vinnuveitendur Hillary Clinton Brutu ekki reglur Washignton. Reuter.

BANDARÍSKA bankaeftirlitið sagði í gær að Rose-lögfræðistofan í Arkansas hefði ekki brotið neinar reglur er það tók að sér að reka mál fyrir hendur ríkisstjórnina í Arkansas á hendur Madison-fjármálafyrirtækinu árið 1989 en Hillary Rodham Clinton forsetafrú starfaði hjá lögfræðistofunni og Clinton-hjónin fjárfestu á sínum tíma í Whitewater-byggingafyrirtækinu ásamt aðaleiganda Madisons-fyrirtækisins.

Að sögn bankaeftirlitsins beindist rannsókn þess að því hvort Rose-lögfræðistofan hefði skýrt nægilega vel frá fyrri tengslum sínum við Madison-fyrirtækið er stofan tók boði ríkisstjórnarinnar í Little Rock um að annast lögsókn á hendur fyrirtækinu. Leggur eftirlitið ekki til að neinum refsiaðgerðum verði beitt.

Með ákvörðuninni fær lögfræðistofan uppreisn æru að vissu marki en hún hefur engin áhrif á víðtækari rannsókn á Whitewater-málinu og hvernig fjármál forsetahjónanna tengdust því. Það mál tók á sig nýjar víddir í gær er nýjar ásakanir voru birtar á hendur einum höfuðpaurnum, David Hale, góðvini Bill Clintons Bandaríkjaforseta um langt árabil. Ákæra var gefin út á hendur Hale í gær og er hann sakaður um að hafa komist yfir opinber lán með skjalafölsun og notað hluta fjárins til þess að borga kosningaskuldir Clintons.