Læknar við Sahlgrenska-sjúkrahúsið í Gautaborg Gangráður græddur í parkinsonssjúklinga Dregur verulega úr skjálfta sjúklinganna án þess að valda skaða Gautaborg. Reuter.

Læknar við Sahlgrenska-sjúkrahúsið í Gautaborg Gangráður græddur í parkinsonssjúklinga Dregur verulega úr skjálfta sjúklinganna án þess að valda skaða Gautaborg. Reuter.

LÆKNAR við Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg hafa þróað aðferð til að draga verulega úr skjálfta parkinsonssjúklinga með gangræði án þess að valda heilaskaða. Lítið gat er borað á höfuðkúpu sjúklingsins, rafskautum komið fyrir í heila hans og þau tengd með vír undir húðinni við gangráð sem komið er fyrir við viðbeinið. Segja læknarnir aðgerðina einfalda og gefa vonir um að hún komi að gagni við að draga úr miklum sársauka, með því að hafa áhrif á viðeigandi hluta heilans.

Bo Jonnels, taugasérfræðingur og Lars-Erik Augustinsson, skurðlæknir hafa framkvæmt aðgerðirnar á um fjörtíu manns og segja þær lofa mjög góðu. Segja þeir aðgerðina einfalda, þar sem sjúklingurinn er vakandi, og að þráðurinn, sem komið er fyrir undir húðinni, erti ekki. Hægt er að stjórna gangræðinum með því útvarpsbylgjum og vilji sjúklingurinn slökkva á honum, t.d. þegar hann legst til svefns, nægir að snerta húðina með segli. Skipta þarf um rafhlöður á 4-5 ára fresti. Gangráður var upphaflega hannaður fyrir hjartasjúklinga.

Parkinsonsveiki er taugasjúkdómur sem stafar af skemmdum í djúphnoðum heilans og skorti á boðefninu dópamíni. Hann veldur m.a. skjálfta og vöðvastirðleika. Dregið er úr einkennum með því að gefa sjúklingum dópamín. Gunnar Guðjónsson, prófessor á taugadeild Landsspítalans segir suma sjúklinga einnig gangast undir skurðaðgerð sem nefnist thalamotomía og er ekki framkvæmd hér á landi. Hún sé hins vegar þeim annmörkum háð að skemma hluta heilans og er sjaldnar notuð en áður. Nýja aðferðin kunni að byggjast á svipuðum áhrifum, án þess að valda heilaskemmdum. "Ég hef hins vegar ekki kynnt mér aðferð Svíana og get því ekki tjáð mig um hana. Sé hún eins góð og af er látið, fagna ég henni. Svíar eru mjög framarlega í heilaskurð- og taugalækningum, ekki síst læknar við Sahlgrenska, sem hafa á síðustu áratugum verið í fremstu röð í meðferð parkinsonssjúklinga og margir þeirra átt þátt í að leggja grunninn að henni."

Á Sahlgrenska-sjúkrahúsinu og í Colorado í Bandaríkjunum er nú einnig unnið að rannsóknum á dópamíngjöf fyrir parkisonssjúklinga, sem felst í lyfjagjöf beint í heilann.