Major og Reynolds funda um ástandið á Norður-Írlandi Auka þrýsting á IRA að samþykkja friðaráætlun London. Reuter.

Major og Reynolds funda um ástandið á Norður-Írlandi Auka þrýsting á IRA að samþykkja friðaráætlun London. Reuter.

JOHN Major forsætisráðherra Bretlands og Albert Reynolds forsætisráðherra Írlands koma saman til formlegs fundar í London í dag til þess að reyna blása nýju lífi í friðaráætlun þeirra fyrir Norður-Írland. Megintilgangur fundarins er sagður vera að kanna með hvaða hætti hægt er að stilla írska lýðveldishernum betur upp að vegg og knýja hann til að fallast á friðaráætlunina.

Ekki er bundnar miklar vonir við að írski lýðveldisherinn eða stjórnmálaarmur hans, Sinn Fein, bregðist skjótt við þeim áskorunum sem í áætluninni felast og ekki hefur dregið úr ofbeldi í Norður-Írlandi.

Upphaflega var ráð fyrir því gert að Major og Reynolds hittust stuttlega á Twickenham-leikvanginum í London í dag er þar fer fram landsleikur Íra og Breta en nú hefur verið því verið breytt í formlegan fund sem fram fer í embættisbústað Majors í Downingstræti 10.

Í framhaldi af samkomulagi Majors og Reynolds um friðaráætlunina gerðu ýmsir sér háar vonir um að takast myndi að semja um frið fyrir sl. jól. Friðaráætlunin gerði ráð fyrir því að Sinn Fein fengi aðild að viðræðum um framtíð Norður-Írlands þremur mánuðum eftir að IRA hefði lagt niður vopn og sagt skilið við ofbeldisverk. Við þeirri áskorun varð IRA ekki. Þess vegna er ekki búist við neinum þátttaskilum í framhaldi af fundi forsætisráðherranna í dag. "Þeir munu fyrst og fremst bera saman bækur sínar, meta stöðuna. Búist ekki við neinum stökkbreytingum," sagði háttsettur breskur embættismaður. "En tilboðið til IRA stendur. Fundarsalurinn bíður ónotaður, dyrnar standa læstar en þeir hafa lykil. Hann passar í skrána og það stendur bara upp á þá að stinga honum í og snúa honum," bætti embættismaðurinn við.

Reuter

Sýnikennsla

JOHN Major forsætisráðherra er á ferðalagi um Bretland og er hann hafði viðdvöl í Skotlandi í gær fékk hann sýnikennslu í sekkjapípuleik.