14. desember 2008 | Innlent - greinar | 3228 orð | 11 myndir

Viðtal

Stríð og friður í lífi Maríu

Prinsessa María Björg Tamimi á snyrtistofunni sinni Amiru, sem þýðir prinsessa á arabísku.
Prinsessa María Björg Tamimi á snyrtistofunni sinni Amiru, sem þýðir prinsessa á arabísku. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Flestir kannast við að hafa séð myndir af herskáum palestínskum unglingum kasta grjóti og þvíumlíku að ísraelskum hermönnum. María Björg Tamimi hefur ekki hampað því sérstaklega að 1990, þegar hún var sextán ára, var hún ein þeirra, fyrst í Ramallah, síðan Jerúsalem.
Eftir Valgerði Þ. Jónsdóttur

vjon@mbl.is

Arabíska, hebreska, enska, danska, sænska og íslenska stóð á spjaldinu, sem hengt var um hálsinn á Maríu Björgu Tamimi, þegar hún, aðeins níu ára, var send ein síns liðs heim til Íslands frá Jerúsalem, síðla sumars 1983. Samferðafólk hennar skemmti sér við að láta þessa kotrosknu stelpu segja nokkur orð á öllum tungumálunum og hún naut sín ljómandi vel. Henni hafði þó ekkert litist á blikuna þegar hún, nokkrum mánuðum áður, lenti á flugvellinum í borginni helgu, ásamt föður sínum, Salmann Tamimi.

„Vopnaðir hermenn otuðu að honum byssustingjum og skipuðu honum ruddalega að koma afsíðis. Ég var ekki virt viðlits, heldur mátti dúsa dauðskelkuð frammi þar til pabbi losnaði úr prísundinni,“ segir María, sem síðar átti eftir að reyna áþekka framkomu af hálfu ísraelskra hermanna á eigin skinni. „Enda hálfur Palestínuarabi í ríki, sem ráðstafað var til „hinnar guðs útvöldu þjóðar 1948“,“ bætir hún við.

Ísland, Svíþjóð, Palestína

Núna er María gift og þriggja barna móðir og rekur snyrtistofuna Amiru í Fákafeni. Ég kynntist henni ekki alls fyrir löngu og eins og gengur hafði hún sagt mér undan og ofan af sjálfri sér og fjölskyldu sinni. Forvitnin var vakin, ég vildi fá meira að heyra – sem hún samþykkti ef ég liti inn á Amiru, á rólegum degi. Ég kom í þrígang og hlýddi á sögu hennar milli þess sem hún andlitsbaðaði viðskiptavini, lagaði brotnar neglur og þess háttar. Lét þá gott heita, meiningin var að skrifa blaðagrein, ekki bók. Auk þess mátti ekki skrifa allt, allar fjölskyldur eiga sér sín leyndarmál, eins og María sagði.

En byrjum hér heima. Árið 1973 kynntist Þórstína Þorsteinsdóttir, 17 ára, Salmann Tamimi, 18 ára, frá Palestínu, sem hingað kom til að vinna fyrir háskólanámi sínu. Brauðstritið og fæðing Maríu settu strik í reikninginn, hann frestaði náminu, fjölskyldan hélt til Svíþjóðar, þar sem hún bjó í fjögur ánægjuleg en tiltölulega tíðindalítil ár fyrir Maríu utan þess að systir hennar fæddist 1979.

„Ég fór fyrst til Jerúsalem þegar ég var tveggja ára, en man ekkert frá þeirri dvöl. Ég var hjá ömmu, afi var dáinn, en hann var mikill uppreisnarmaður og sat oft í fangelsi, bæði fyrir og eftir sex daga stríðið 1967. Fyrir stríð voru þau vel efnuð og höfðu komið sex börnum sínum til manns og mennta. Mér er sagt að amma hafi verið hreykin af þessu ljóshærða barnabarni sínu, sem hún sagði hafa verið fljótt að læra arabísku,“ segir María. Að vísu dregur hún í efa að hafa haft vald á málinu svona ung. Aftur á móti lærði hún nóg til að bjarga sér í síðari heimsóknum sínum – og líka nokkur orð í hebresku.

Hún kveðst þó ekki hafa fengið mörg tækifæri til að viðhalda kunnáttunni undanfarin ár, auk þess sem hún sé rög að tala arabísku ef svo beri undir. „Orð, ólíkrar merkingar, geta verið svo lík, ég man til dæmis ekki hvort hamman er dúfa og hammam klósett eða öfugt,“ útskýrir hún hlæjandi. Og það er oftast stutt í hláturinn hjá Maríu, þótt hún hafi upplifað meiri harmleiki en margur.

Ævintýri líkast

Dvölin í Jerúsalem þegar hún var níu ára var að hennar sögn ævintýri líkust. Pabbi hennar fór fljótlega heim aftur eins og til stóð og skildi Maríu eftir í umsjón fjögurra systra sinna, sem allar dekruðu við hana. „Besti tími æsku minnar,“ segir María dreymin og rifjar upp: „Systurnar voru einstaklega góðar við mig. Þær eru allar miklar kvenfrelsiskonur, vel menntaðar og útivinnandi. Aðeins ein systranna gekk stundum með slæðu, ekkja með fjóra syni, sem ég var mest hjá. Ein systranna, Amal, fluttist til Íslands mörgum árum seinna. Ég undi mér mikið ein úti í náttúrunni, borðaði plómur og vínber, sem uxu í garðinum, tíndi maura og froska og lék mér við dýr, sem ég hafði beðið um og fengið umyrðalaust eins og flest annað; kisur, hunda og hænur.

Fjölskylduhefðin var mjög sterk, stjórfjölskyldan kom oft saman og krakkar og unglingar tóku þátt í samræðum fullorðna fólksins um pólitík og hvaðeina. Svo fóru allir í leiki, spiluðu, sungu og dönsuðu saman. Allir voru svo glaðir,“ rifjar María upp.

Hún hreifst af lífsháttum föðurfólks síns. Það nánasta hafði það fjárhagslega býsna gott, en hún minnist þess líka að hafa heimsótt fjarskyldari ættingja í Hebron, sem bjuggu í gömlu húsi með gati á gólfinu fyrir klósett. „Samt voru þau hamingjusamasta fjölskylda, sem ég hef séð. En kannski voru þau bara svona glöð að fá gesti.“

Að öðru leyti segist María ekki hafa orðið vör við áberandi mikla fátækt í þessari heimsókn sinni, einstaka betlara að vísu, sem hún gaf stundum nammipeningana sína, þótt pabbi hennar hefði bannað henni það. Hermenn út um allt voru eins og hluti af lífinu og trufluðu Maríu lítið, þótt henni þætti óréttlátt að fólkið hennar þurfti alltaf að sýna vegabréf þegar það fór á milli borga eða að strandsvæðunum. „Reyndar voru móðuramma mín og -afi alveg í sjokki þegar ég skrifaði þeim og lýsti þeirri ósanngirni, sem landnámið væri. Eitthvað hlýt ég því að hafa verið farin að velta fyrir mér óréttlæti heimsins á þessum tíma,“ segir hún hugsi.

Djöflar í mannsmynd

Hún var send í skóla, en eftir nokkra daga neitaði hún að fara þangað og fékk einkakennara í arabísku, ensku og stærðfræði. „Mér var strítt í skólanum, krakkarnir héldu að ég væri gyðingur af því ég var svona ljós. Einkakennslan gekk vel, nema stærðfræðin, ég botnaði ekkert í þessum arabísku tölum. Einu sinni lenti ég í veseni í sælgætisbúð af því ég vissi ekki að tölustafurinn fimm er eins og núll og ætlaði að labba út með fullt af nammi, sem ég hélt að væri ókeypis.“

María hlær að minningunni. Af allt öðrum toga er minning, sem henni stendur ennþá ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. „Ég hafði farið með frænku minni í heilsugæslustöð, sem hún vann á, og var að dunda mér inni í einu herberginu þegar mér varð litið út um gluggann og sé ljóshærða stelpu hlaupa yfir götu og inn í bakarí. Ég ætlaði að fara út og biðja hana að leika við mig, þegar ég sé hana hlaupa yfir götuna með brauð undir hendinni. Í sömu andrá kom herbíll á fullri ferð og keyrði yfir hana. Hún dó samstundis, en hermennirnir stigu í rólegheitum út úr bílnum, fengu sér sígarettu, hlógu og gerðu að gamni sínu á meðan vegfarendur báru líkið í burtu. Þeir héldu líkinu uppi eins og í mótmælaskyni og gerðu hróp að hermönnunum, sem kipptu sér ekkert upp við það. Ég man að ég hugsaði að það hlyti að vera djöfull í þessum mönnum.“

Á heilsugæslunni sá María ýmislegt, sem henni var ekki ætlað að sjá, til að mynda börn og unglinga, sem höfðu slasast eftir fikt við gashylki á glámbekk, eins og alvanalegt var, eða höfðu orðið fyrir táragasi og sinnepssprengjum í óeirðum. Sjálf kynntist hún slíku þegar hún tók þátt í unglingaóeirðum nokkrum árum síðar.

En þá hafði líka ýmislegt breyst rétt eins og í millitíðinni hérna heima. Fyrst eftir heimkomuna gekk lífið sinn vanagang, jólaboðin heima hjá móðurömmu hennar og -afa voru á sínum stað, að vísu svolítið öðruvísi en tíðkaðist hjá öðrum íslenskum fjölskyldum, enda tengdasonurinn múslimi og sonurinn leiðtogi kristins sértrúarsafnaðar, Gunnar Þorsteinsson í Krossinum, sem ekki hefur farið dult með stuðning sinn við síonista.

„Þeir forðuðust þetta eldheita umræðuefni, eflaust með tilliti til ömmu, sem stóð í ströngu við að gera öllum til hæfis í matreiðslunni, með svínahrygg handa sumum og eitthvað annað handa hinum. Það var engin óvild á milli þeirra mága, kannski smástríðni því báðir eru miklir húmoristar.“

Sundruð fjölskylda

Maríu gekk þokkalega í skólanum, hún lagði mikið á sig því hún fann að það skipti pabba hennar miklu máli. Hana rekur ekki minni til að hafa verið strítt fyrir að vera af erlendu bergi brotin, utan einu sinni, en þá misskildi hún aðdróttunina hrapallega. „Ég var svona tíu ára þegar einhver sagði að ég væri helvítis kynblendingur og svaraði fullum hálsi að ég væri sko engin lessa!“

Foreldrar Maríu skildu 1985, alveg óvænt frá hennar bæjardyrum séð, enda hafði hún ekki merkt annað en að allt væri í himnalagi á milli þeirra, engin rifrildi, ekkert vesen. Hún segist hafa tekið skilnaðinn mjög nærri sér. Þær systur voru hjá móður sinni og nýjum manni hennar, sem seinna kom inn á heimilið, en faðir þeirra fluttist út og leigði sér herbergi. „Ég hætti að brosa að sögn kennaranna, sem höfðu töluverðar áhyggjur af mér. Pabbi, sem alltaf var svo léttur í skapi, varð dapur og svo fór að hann krafðist forræðis yfir okkur. Ég var mikið hjá honum og stundum systir mín líka og man vel eftir sjónarspilinu, sem ég setti á svið þegar félagsmálayfirvöld boðuðu komu sína, eins og þeim bar skylda til. Við systurnar fórum þá, stilltar og prúðar, að leika með Barbídúkkur, sem við annars gerðum aldrei.“

Þótt María minnist á aðkomu félagsmálayfirvalda tekur hún fram að engin óregla hafi verið á foreldrum hennar. Hún segir að þótt sér hafi þótt jafnvænt um báða hafi sér runnið til rifja einstæðingsskapur föður síns og ákveðið að flytjast til hans. „Mér fannst líka jafnréttismál að þau hefðu hvort sína dótturina. Okkur pabba kom mjög vel saman, hann vildi allt fyrir mig gera, leyfði mér til dæmis að velja litinn á bíl, sem hann festi kaup á, og svo þegar hann keypti íbúð fékk ég sérherbergi,“ segir hún og bætir við að þegar fram liðu stundir hafi foreldrar hennar náð sáttum, meira að segja orðið góðir vinir og um skeið rekið fyrirtæki saman. Sjálf áttaði hún sig um síðar á að sjaldan veldur einn þá tveir deila.

Ári eftir skilnaðinn, þegar María var tólf ára, var a.m.k. gróið svo um heilt milli foreldra hennar að þær systur fengu að fara í þriggja mánaða sumarfrí með föður sínum til Jerúsalem.

„Þótt dvölin hafi verið mjög ánægjuleg tók ég eftir að umhverfið hafði drabbast niður, mikið um skotgöt á húsunum, sorphirða í lágmarki og rusl út um allt. Fólkið var orðið þjóðernissinnaðra og ég skynjaði heift og hatur gagnvart gyðingunum. Sjálf horfði ég upp á þá tuska arabana til við landamæri, stoppa fólk að óþörfu og leita á því. Forréttindi gyðinganna birtust og birtast enn, að því er ég best veit, með margvíslegum hætti, bæði í stóru og smáu. Til dæmis loga rauð götuljós miklu lengur þar sem hverfi araba liggja að borgarkjörnum en við gyðingahverfin.“

María bæði sá og skynjaði vaxandi ólgu, en vissi á þessum tíma lítið um þær hremmingar sem fólkið hennar hafði gengið í gegnum allt frá sex daga stríðinu þegar upp úr sauð, eða jafnvel löngu áður. „Pabbi, sem var bara krakki þegar þetta var, hefur sagt mér að það hafi verið blóð út um allt. Hann missti fimm úr sinni nánustu fjölskyldu í stríðinu og það hafði líka djúpstæð áhrif á hann þegar hann horfði upp á nágranna sinn skotinn í höfuðið og síðan jarðaðan í næsta garði. Eftir að ég varð fullorðin sagði hann mér hvernig hann og leikfélagar hans gerðu í því að stríða gyðingunum og fundu upp á ýmsu í því skyni,“ segir María. „Hins vegar lagði hann alltaf ríka áherslu á að ég tæki ekki þátt í slíku. Og þurfti svosem ekki að hafa áhyggjur af því þegar við systurnar dvöldum með honum í góðu yfirlæti hjá ættingjunum þarna um sumarið 1986.“

Litli skæruliðinn

Fljótlega eftir heimkomuna til Íslands breyttust enn fjölskylduhagir Maríu. Hún fluttist aftur til móður sinnar og systur. Faðir hennar hafði kvænst konu, sem átti dóttur af fyrra hjónabandi, og saman höfðu þau eignast son; hálfbróður Maríu. Enn á ný fóru systurnar til Palestínu í ársbyrjun 1990 með föður sínum auk hinnar nýju fölskyldu hans og var meiningin að dvelja í eitt ár í Ramallah, þar sem faðir hennar hafði fengið vinnu.

„Ég hafði komið áður til Ramallah og minntist hennar sem fallegrar, friðsællar og blómlegrar borgar, þar sem hermenn voru fáséðir. Landnemabyggðir liggja að borginni og gegnum hana var nú orðið stöðugt gegnumstreymi herbíla. Við bjuggum í ágætis hverfi, en allt var samt gerbreytt, niðurnítt og mengað af stríði. Þegar krakkahópar grýttu herbíla, eins og þeir gerðu oft, settu hermennirnir upp gaddavírsvegatálma og útgöngubann og reyndu að góma grjótkastarana. Mér er minnisstætt þegar þeir náðu einum, líklega höfuðpaurnum, sem var svona 17-18 ára, bundu hann á fótum og svo við herbíl, óku um borgina og hrópuðu í gjallarhorn: „Látið ykkur þetta að kenningu verða.““

Myndir af herskáum og æstum palestínskum ungmennum sjást stundum í blöðum og sjónvarpi. María hefur ekkert sérstaklega hampað því að þetta ár var hún ein þeirra, fyrst í Ramallah, síðan í Jerúsalem. Aðeins sextán ára. Og hún sér ekki eftir neinu.

Smám saman varð hún vitni að mörgum atvikum þar sem hermenn fóru illa með og sættu lagi að niðurlægja arabana. Réttlætiskennd hennar var misboðið, hatrið náði tökum á henni og fyrir það fékk hún útrás í hópi þessara palestínsku unglinga, sem vöfðu slæður um höfuð sitt og andlit áður en þeir fóru út með mótmælaspjöld, krotuðu slagorð á húsveggi, kveiktu í ruslatunnum og grýttu herbíla úr launsátri eða gerðu hermönnunum annan miska. „Pabbi verður ábyggilega hissa að lesa þetta, ég hef aldrei sagt honum frá þessu,“ segir hún skyndilega. En heldur samt áfram, einstaka atburðir rifjast upp fyrir henni, raunar alltof margir til að rúmast hér.

Átti oft fótum sínum fjör að launa

„Frændur mínir og vinir hafa setið í fangelsi, sumir sitja þar enn. Stundum var eins og fólk bara hyrfi um leið og hermenn tóku það í sína vörslu eftir andspyrnu,“ segir María og tekur dæmi af nágranna sínum, svakalega sætum strák, sem hún sá aldrei aftur eftir að hafa horft á hann af svölunum heima hjá sér henda steinum í herbíl og vera í kjölfarið eltur uppi af hermönnum. „Ég heyrði bara barsmíðarnar og öskrin og frétti síðar að mamma hans hafði engar spurnir af honum.“

Sögusagnir um sýrugáma þar sem hermennirnir eyddu líkum dugðu ekki til að María hefði hægt um sig. Hún vildi ekki trúa að slíkt gæti gerst, þótt hún vissi að það var dagsatt að tólf ára strákur í næsta hverfi, sem var með leikfangabyssu, hefði verið skotinn til bana og vinir hennar; litlu skæruliðarnir, voru barðir til óbóta ef í þá náðist. Sjálf segist hún hafa skákað svolítið í skjóli þess að hún leit ekki út eins og dæmigerður palestínuarabi.

„Þegar ég mætti hermönnum sýndi ég fyrirlitningu mína með því að hrækja og hnussa. Ég þóttist vita að þeir væru smeykir við illt umtal og þyrðu þar af leiðandi ekki að abbast upp á útlendinga.“

Hernaðarbragð krakkanna var að tvístra sér. María segir að oft hafi hún átt fótum sínum fjör að launa á flótta undan vopnuðum hermönnum. „Ég fékk alvöru tilfinningu fyrir kúgun og því hvað heimurinn getur verið vondur, en kynntist líka einstöku fólki, sumu mjög fátæku en ótrúlega gestrisnu,“ segir María.

Ástandið í landinu var óvenjulega eldfimt um þessar mundir, enda svokallað Intifada (arabískt orð yfir að hrista eitthvað af sér) í algleymingi, en 1987 gerðu Palestínuarabar uppreisn gegn Ísraelum, sem stóð til 1993. „Sem þýddi,“ segir María, „að á þessum tíma var engin alþjóðleg löggæsla, fáir eða engir útlendingar í hjálparstarfi og mannréttindi fótum troðin.“

En þótt óeirðirnar og mótmælin séu henni minnisstæðust segir hún að því hafi farið fjarri að þannig hafi það verið alla daga. „Við systurnar, stjúpsystir okkar og vinkonur áttum oft rólegar og góðar stundir saman, þar sem við vorum bara einhvers staðar að kjafta saman,“ segir hún.

Í borginni helgu

Tíð útgöngubönn í Ramallah, sem gátu staðið í marga daga, með tilheyrandi vegatálmum og frelsisskerðingu, urðu til þess að fjölskyldan tók sig upp og fluttist til Jerúsalem. Þar bjó hún nálægt ættingjum, þær systur fengu einkakennara heim og tóku þátt í hefðbundnu arabísku fjölskyldulífi, þar sem fasta, eða Ramadan, varð hluti af tilverunni. „Mig minnir að ég hafi svindlað svolítið og fengið mér að drekka, þótt það mætti ekki frá sólarupprás til sólarlags. Fyrir mér var þetta eins og að snúa sólarhringnum við, mikil stemning skapaðist þegar fólk sat kannski að snæðingi klukkan fimm eða sex á morgnana,“ rifjar María upp. Hún kveðst ekki vera íslamstrúar, þótt hún hafi upplifað trúna mjög sterkt einu sinni þegar hún fór í mosku í borginni helgu. Hátíðleikinn spilaði þar inn í, segir hún, „ég reyni að tileinka mér það besta úr öllum trúarbrögðum og finnst mikilvægt að fólk beri virðingu fyrir því, sem því er gefið“, bætir hún við.

Þótt ekki væri allt með kyrrum kjörum í Jerúsalem var þar ívið rólegra en í Ramallah. María eignaðist marga vini á sínu reki og – eins og í Ramallah – voru þeir ekki sáttir við hlutskipti þjóðar sinnar og sýndu andúð sína með svipuðum hætti. María var með í því. Og sá margt ljótt. „Einu sinni þegar við krakkarnir efndum til mótmæla með spjöld og þvíumlíkt var skotið á okkur táragasi út um herbíl og einn tólf ára skotinn með gúmmíkúlu í fótinn, slíkar kúlur eru yfirleitt ekki banvænar, en geta valdið gríðarlegum skemmdum á vöðvum,“ segir María sem eitt dæmi af mörgum.

Og aftur heim til Íslands

Eins og lög gera ráð fyrir settist María á skólabekk þegar hún kom til Íslands frá Palestínu árið 1991. Takturinn var ekki alveg sá sami í Réttarholtsskólanum þannig að henni fannst hún svolítið utangátta og litla samleið eiga með skólafélögum sínum, utan einnar mjög góðrar vinkonu. Eftir Réttó fór hún á tungumálabraut í FB því hana langaði að vinna í ferðabransanum, síðan skipti hún yfir á sálfræðibraut, en lenti að eigin sögn á réttri hillu þegar hún ákvað að læra nudd, förðun og snyrtingu.

Ljósið kom inn í líf hennar 1994 í líki Halls Ingólfssonar tónlistarmanns. Þau hófu búskap í kjallaranum heima hjá foreldrum hans, giftust nokkrum árum síðar og fluttust í eigið húsnæði – eins og gengur. „Og ég var alltaf ólétt,“ segir María, sem var búin að eignast börnin sín þrjú þegar hún útskrifaðist sem snyrtifræðingur 2002.

Á litla, friðsæla Íslandi var með ólíkindum að María skyldi kynnast meira ofbeldi en hún hafði upplifað í öllum sínum ferðum til Palestínu. Ofbeldi, sem henni og þjóðinni allri var með öllu óskiljanlegt. Árið 1999 var móðuramma hennar, hátt á áttræðisaldri, myrt á hrottafenginn hátt í sinni eigin íbúð um hábjartan virkan dag þegar hún átti sér einskis ills von. Morðinginn var henni með öllu ókunnugur.

„Við amma vorum mjög nánar og hún var mér afar kær. Á þessum tíma bjuggum við í nágrenni við hana, ég hringdi annað slagið í hana og bað hana að sækja elstu dóttur okkar í leikskólann og leyfa henni að vera hjá sér þangað til ég eða pabbi hennar kæmum að sækja hana. Þennan dag var ég byrjuð að hringja þegar ég mundi allt í einu eftir að hún horfði alltaf á ákveðinn sjónvarpsþátt á þessum tíma og skellti á því ég vildi ekki trufla hana. Hún reyndist ekki hafa verið að horfa klukkan hálffimm 3. desember 1999,“ segir María.

Henni líða örlög ömmu sinnar aldrei úr minni og sömuleiðis verður henni oft hugsað til vina og vandamanna í Palestínu, þar sem hver dagur getur verið barátta fyrir eigin tilveru.

Þegar ég kveð Maríu á Amiru, snyrtistofunni hennar, velti ég fyrir mér hvað skyldi stundum vera að brjótast um í kollinum á henni þegar hún lagar neglur, andlitsbaðar og þvíumlíkt. Kannski fortíðin? Vonandi þó framtíðin.

Í hnotskurn
» María Björg fæddist í Reykjavík 10. október 1974.
» Foreldrar hennar eru Þórstína Björg Þorsteinsdóttir kaupmaður og Salmann Tamimi tölvunarfræðingur. Hún á alsystur og hálfbróður samfeðra.
» Hún er gift Halli Ingólfssyni tónlistarmanni og eiga þau þrjú börn, 14, 12 og 9 ára.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.