Verulegar skipulagsbreytingar gerðar hjá AFS á Íslandi AÐALFUNDUR AFS á Íslandi var haldinn 12. febrúar sl. Í skýrslu stjórnar, sem flutt var af fráfarandi formanni, Evu H. Ólafsdóttur, kom m.a. fram að á síðasta ári fóru 116 íslenskir skiptinemar á vegum...

Verulegar skipulagsbreytingar gerðar hjá AFS á Íslandi

AÐALFUNDUR AFS á Íslandi var haldinn 12. febrúar sl. Í skýrslu stjórnar, sem flutt var af fráfarandi formanni, Evu H. Ólafsdóttur, kom m.a. fram að á síðasta ári fóru 116 íslenskir skiptinemar á vegum samtakanna til 20 landa í öllum heimsálfum og að hingað koma um 35 erlendir skiptinemar ár hvert. Þá kom fram að mikil skipulagsbreyting hefur orðið á starfsemi félagsins í kjölfar fjáhagslegs sjálfstæðis frá alþjóðasamtökunum og eykst ábyrgð stjórnar félagsins til muna.

AFS eru alþjóðleg samtök sem starfa í 55 löndum og er starfið borið uppi af sjálfboðaliðum. Markmið samtakanna eru m.a. að efla vitund fólks um það sem er sameiginlegt öllum mönnum, auka skilning á margbreytileika hinna ólíku menningarsamfélaga og stuðla þannig að friði í heiminum, eins og segir í ársskýrslu. Þessum markmiðum hyggjast samtökin m.a. ná með alþjóðlegum nemendaskiptum. Á aðalfundinum kom m.a. fram að frá því að samtökin hófu starfsemi sína eftir fyrri heimsstyrjöld hefðu þau sjaldan átt meira erindi við heimsbyggðina.

Tveir erlendir gestir héldu erindi á aðalfundinum. Hal Denton, lögfræðingur alþjóðasamtakanna, talaði um hlutverk hvers einstaks félagsmanns í uppbyggingu heildarinnar og Eirik Moen, stjórnarmaður AFS í Noregi og borgarfulltrúi í borgarstjórn Oslóar, talaði um breytingar á innra skipulagi félags og stjórnar í Noregi.

Félagsmenn AFS á Íslandi eru um 1.700 og fer starfsemin fram um allt land í deildum. Starfsmenn skrifstofu eru fjórir í þremur og hálfu stöðugildi. Framkvæmdastjóri er Hans Henttinen. Í nýja stjórn félagsins voru kjörin Eiríkur Þorláksson, framkvæmdastjóri Fulbright-stofunarinnar, formaður, Kristinn Guðjónsson, framkvæmdastjóri efnalaugarinnar Bjargar, Martha Eiríksdóttir, markaðsstjóri Kreditkorta hf., Kristín Pétursdóttir, nemi í KHÍ, Linda Björk Bentsdóttir, lögfræðingur hjá embætti sýslumanns í Reykjavík, Jóhann Áki Björnsson, markaðsfulltrúi hjá Tæknivali hf., og Erlendur Magnússon, framkvæmdastjóri hjá Nomura Bank í London. Til vara voru kjörin Ágúst Harðarson nemi og Eva Ólafsdóttir Háskólanemi.