AÐVENTA GUNNARS GUNNARSSONAR GEFIN ÚT Í FRAKKLANDI Einkar vel tekið AÐVENTA eftir Gunnar Gunnarsson, í franskri þýðingu Maríu Gunnarsdóttur og Gerard Lemarquis, hefur fengið góðar viðtökur gagnrýnenda og kaupenda í Frakklandi.

AÐVENTA GUNNARS GUNNARSSONAR GEFIN ÚT Í FRAKKLANDI Einkar vel tekið

AÐVENTA eftir Gunnar Gunnarsson, í franskri þýðingu Maríu Gunnarsdóttur og Gerard Lemarquis, hefur fengið góðar viðtökur gagnrýnenda og kaupenda í Frakklandi. Að sögn Gerard Lemarquis hafa undanfarið selst um 50 eintök af bókinni á dag sem og er ekki lát á. Gerard hefur eftir talsmönnum útgefandans, sem er franska fyrirtækið Arlea, að sala í 3.000 eintökum þyki gott á þessum markaði en ljóst virðist að Aðventa muni rjúfa þann múr auðveldlega og gott betur. Gerard endurskoðaði einnig þýðingu á Svartfugli sem kom út fyrir tveimur árum og hlaut góðar viðtökur. Hann segir tildrög útgáfunnar á Aðventu hafa verið þau að útgáfustjórinn hafi hrifist mjög af bókinni, hafnað tveimur þýðingum og ekki fallist á að gefa hana út fyrr en ítrustu kröfum til þýðingarinnar hefði verið fullnægt. "Hann var hrifinn af bókinni sem bók en ekki af því að hún er íslensk. Það er bókmenntaverkið sem skiptir máli," segir Gerard Lemarquis og kveðst ekki vita til þess að íslensk bók hafi áður hlotið jafngóðar viðtökur kaupenda í Frakklandi. Hér fara á eftir brot úr umsögnum ýmissa franskra blaða um bókina sem út kom ytra síðasta haust.

kært og skammvinnt, þannig er ljósið sem einfaldasta líf á dapurlegri jörð laðar fram og vísar lesanda sögunnar spjaldanna á milli. Með hinu einfalda heiti í frumútgáfu, Aðventu, er aðeins brugðið upp útlínum kristnu helgisögunnar, ramma sem hæfir frásögninni. Ef andblærinn í bókinni minnir á helgisöguna er betra að stilla væntingum í hóf. Því þetta ævintýri á aðventu leiðir ekki til endurfæðingar frelsarans, heldur mannsins, fyrir sára, knýjandi og ofurþunga ábyrgð hans. Þessar fjórar vikur fyrir jól eru launin takmörkuð fyrir mikið erfiði, en aðalpersónan hraðar sér að ljúka öðru erindi í öðrum tilgangi - og öðlast sjálfstæði."

Á þessa leið segir í lauslegri þýðingu í umsögn Le Monde, víðlesnasta dagblaðs Frakklands, á aðfangadag jóla. Þar er að auki lýst baráttu söguhetjunnar Fjalla-Bensa við hið illa, "hún harðnar með hverju skrefi í hríðinni á snævi þakinni auðn í norðri. Franskur orðaforði getur aðeins gefið fátæklega mynd, en íslenskan á margvísleg orð yfir snjó og vind . . . Baráttan nær hámarki þegar Benedikt stendur augliti til auglitis við dauðann. Hann fór með guði en virtist koma aftur í heim lifenda af eigin rammleik. Laun hans fólust ekki í snertingu við himininn, heldur endurheimt jarðarinnar. Og því sem var enn betra, hann hafði fundið eftirmann. Hann var meðal þeirra fáu sem berjast einir til þrautar án þess að velta því fyrir sér að þeir gera það fyrir aðra. Boðskapurinn felst í að gera gagn - og lifa."

Mörg önnur frönsk blöð og tímarit fóru í lok síðasta árs lofsamlegum orðum um Gunnar Gunnarsson og Aðventu. Nokkur þeirra minntu á að bókin væri talin kveikjan að sögu Hemingways, Gamli maðurinn og hafið.

Frásögn í L'Express ber yfirskriftina "Íslensk þrenning" og vísar til Benedikts, hundsins Leós sem var "sannur páfi" og hrútsins Eitils sem villtir sauðir báru virðingu fyrir. "Á minna en hundrað síðum leiðir Gunnar Gunnarsson okkur til endimarka heimsins. Frásögn hans gaf Hemingway hugmyndina að Gamla manninum og hafinu. En hér vottar ekki fyrir bardaga eða keppnisanda. Söguhetja hvorrar bókar fer sína leið yfir hvíta víðáttu sannfærð um að ekki sé um annað að ræða, friðurinn sem fylgi góðum vilja manna fáist þá að lokum."

Vikublaðið L'Evenment du Jeudi segir þann 9. desember að íslenski rithöfundurinn hvíli áreiðanlega í paradís því verk hans sé til dýrðar guði. "Þetta er lítil sveitasaga með helgiblæ, um góðan Samverja sem býður náttúrunni byrginn til að bjarga týndum sauðum af fjalli. Gunnar segir okkur án minnstu tilgerðar frá leiðangri Fjalla-Bensa með hundinn og hrútinn gegnum stórhríðina. Frásögnin virðist kveikjan að sögu Hemingways . . . Í báðum er sami krafturinn og sama einlægnin."

Sud Oust Dimanche segir á annan í jólum að bók Gunnars laði fram hugleiðingar sem sérstaklega eigi við á þeim árstíma "þegar friður og gleði fylli hjörtu góðviljaðra." Síðan segir að Benedikt telji einsemdina grundvöll lífs síns. Hræddur um að gleymast guði og mönnum takist hann á við ofurefli íslensks vetrar. Snilld höfundarins geri einsemd hans að einsemd allra manna.

Vikuritið Vieouvrieré getur þess í upphafi umsagnar um Aðventu að hún hafi verið innblástur fyrir Hemingway. Síðan segir að Aðventa virðist barnsleg eins og jólasaga en einföld frásögn feli í raun í sér áleitna hugsun um brothætt líf mannsins. Benedikt, hundurinn Leó og hrúturinn Eitill myndi þrenningu þar sem vinátta, virðing fyrir öðrum og eindrægni sameinist í djúpri ást á náttúrunni þótt óblíð sé. Hin skýri stíll Gunnars lýsi af þessari sögu, sem hafi þann meginkost að vera frá upphafi til endis um það sem máli skiptir.

Tímaritið Telerama birtir umsögn undir heitinu Stysti dagurinn. Ritið leggur aðaláherslu á kristið inntak sögunnar og segir höfundinn ekki draga dul á djúpa trú. Það sé ekki tilviljun að sagan gerist á "árstíma hinnar miklu vonar". Samt gangi sagan fram hjá sjálfri trúnni en höfundur láti persónur hennar flytja siðaboðskap með mannlegum kostum sínum.

"Aðventa höfðar svo rækilega og umbúðalaust til grundvallarviðhorfa að okkur bregður," segir blaðið, "við erum vön kryddi. En Benedikt er einn með víðáttunni og hluti hennar. Hann hugsar hvorki um konu né reyk frá bæjum. Hann horfir á fæturna á sér, varast sprungur og passar húfuna sína."

Dagblaðið Liberation birti 11. nóvember umsögn um Gunnar og Aðventu. Þar segir í hugleiðingu um nytsemi leiðangurs Fjalla-Bensa að ferð hans á fjöllin hafi verið árlegur helgisiður. Vissulega hafi hann viljað vera að gagni en ekki síður bjóða náttúruöflunum birginn. Blaðið ber saman Aðventu og Gamla manninn og hafið og segir að gagnstætt gamla manni Hemingways hafi Benedikt aldrei þurft að sanna sig, enginn hafi efast um hæfni hans.

Um Gunnar segir blaðið að hann, sem hafi varið miklum hluta ævi sinnar í Danmörku, bregði með bókinni ljósi á eigin heimkomu til ættlandsins. Á sama hátt og söguhetjan segi til að afsaka erfiði sitt "sá sem lifir í skjóli fer á mis við hið sanna líf" sé hinn raunverulegi tilgangur að sameinast á vissan hátt vetrinum á Íslandi.

Forsíða Aðventu sem út kom hjá Arlea í Frakklandi í fyrra

Gunnar Gunnarsson