Kakadu, Dumky og Nuigen TRÍÓ REYKJAVÍKUR LEIKUR KLASSÍK, RÓMANTÍK OG NÝKLASSÍK Á LOKATÓNLEIKUM STARFSÁRSINS Í HAFNARBORG Fjórðu og síðustu tónleikar Tríós Reykjavíkur og Hafnarborgar á þessu starfsári verða haldnir á morgun, sunnudaginn 20. febrúar.

Kakadu, Dumky og Nuigen

TRÍÓ REYKJAVÍKUR LEIKUR KLASSÍK, RÓMANTÍK OG NÝKLASSÍK Á LOKATÓNLEIKUM STARFSÁRSINS Í HAFNARBORG

Fjórðu og síðustu tónleikar Tríós Reykjavíkur og Hafnarborgar á þessu starfsári verða haldnir á morgun, sunnudaginn 20. febrúar. Tónleikarnir verða í Hafnarborg í Hafnarfirði og hefjast klukkan 20.

tónleikunum koma meðlimir Tríós Reykjavíkur fram, en það er í fyrsta sinn á þessum vetri sem tríóið kemur fram án gesta. Meðlimir Tríósins eru þau Halldór Haraldsson píanóleikari, Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari og Gunnar Kvaran sellóleikari.

Það er óhætt að segja að efnisskrá tónleikanna sé spennandi, því byrjað verður á "Kakadú" tilbrigðunum op. 121A eftir Beethoven. Síðan leikur tríóið "Nuigen" op. 129 eftir danska tónskáldið Vagn Holmboe og að lokum verður á efnisskránni hið fræga "Dumky-tríó" op. 90 eftir Dvorák en skemmst er þess að minnast að þetta sérstæða og ægifagra tríó var eitt af þeim verkum sem spurt var um í "Kontrapunkti," tónlistarkeppni norrænna sjónvarpsstöðva í þættinum síðastliðinn sunnudag, þar sem Íslendingar og Danir kepptu.

Tilurð "Kakadu" tilbrigðanna er dálítið sérkennileg; þau eru samin árið 1803 við aríuna Ég er skraddarinn Kakadú úr óperunni "Systurnar frá Prag". Óperan sú er skrifuð árið 1794 af Wenzel M"uller, sem lítið hefur farð fyrir á óperusviðinu - en alls samdi hann 250 óperur. En þótt Beethoven hafi samið tilbrigðin árið 1803, endurskoðaði hann þau þrettán árum seinna og voru þau síðan gefin út í endanlegri mynd árið 1824.

"Tilbrigðin eru mjög óvenjuleg," segir Gunnar. "Þau byrja á óvenjulega löngum inngangi, sem er mjög alvarlegur. Síðan kemur glaðværðin og sprellið, þar sem hvert hljóðfæri fær sitt tilbrigði. Þar reynir mjög á nákvæmni hljóðfæraleikaranna, því þótt glettnin sé í fyrirrúmi eru þetta viðkvæm verk og má segja að tilbrigðin séu tæknileg þolraun. Beethoven leikur sér mikið með hraða og tilbrigðin hafa mjög ólíka karaktera."

Vagn Holmboe. Hver er hann?

"Hann er eitt þekktasta núlifandi tónskáld Dana," svarar Halldór. "Hann er kominn á níræðisaldur og hefur samið fjöldan allan af verkum. Þekktastur er hann fyrir sinfóníur sínar og kammerverk, en allar sinfóníur hans hafa verið hljóðritaðar og fengið mjög góða dóma í breskum fagtímaritum. Verk hans eru mikið leikin á tónleikum í Bretlandi og hann er einnig kominn á efnisskrár tónleika í Bandaríkjunum.

Tríóið sem við leikum er samið 1976. Í því eru þrír meginkaflar með tveimur millispilum. Þetta er eiginlega neoklassískt verk."

Hvað er það?

"Það er formfast og agað. Holmboe sækir formin í klassíkina sem hefur fastari form en til dæmis rómantíkin. Þeir sem sömdu á rómantíska tímabilinu voru á móti klassísku formunum - og í neoklassíkinni er mikil formfesta.

Við fluttum þetta verk fyrir um það bil fimm árum í Norræna húsinu til að minnast 80 ára afmælis Holmboe. Þetta er verk sem mjög gaman er að vinna með, því það hefur vissar hugmyndir sem koma fram strax í byrjun, sem Holmboe ítrekar aftur og aftur - og af því er nafn verksins dregið, "Nuigen". Holmboe er mjög heimspekilega sinnaður og ekki mjög nútímalegur. Hann hefur orðið fyrir miklum áhrifum frá Nilsen og er mjög óvenjulegur sem Dani."

Hvers vegna?

"Það ert allt svo stórt í verkunum hans að maður gæti ímyndað sér að það væru stór og mikil fjöll í kringum hann."

Og að lokum er það Dumky-tríóið.

"Já. Þetta er eitt allra frægasta píanótríó sem skrifað hefur verið í rómantíska stílnum. Dumky er fleirtalan af Dumka, sem er rússneskt heiti og þýðir yfirleitt tónlist sem er einhvers konar harmljóð, en með léttum dönsum inn á milli. Tríóið er sex þættir og er samið þegar segja má að Dvorák sé á hátindi frægðar sinnar þegar hann semur það. Þá er nýbúið að gera hann að heiðursdoktor við Háskólann í Prag, auk þess sem hann var valinn í lista- og vísindaakademíuna í Tékkóslóvakíu. Hann hafði einnig verið heiðraður við háskólann í Cambridge og stuttu seinna var hann ráðinn við Tónlistarháskólann í New York. Hann hafði fengið feiknamikla viðurkenningu fyrir tónlist sína og þá sérstaklega fyrir "Slavnesku dansana". Brahms hafði hjálpað honum til að gefa verk sín út, en það voru einmitt tengsl Dvoráks við Brahms sem voru mikil lyftistöng fyrir hann. Dumky-tríóið var fjórða og síðasta tríó Dvoráks og í því sameinar hann á snilldarlegan hátt þessa slavnesku þætti; samspil gleði og sorgar."

Síðan eruð þið á leið til Danmerkur í tónleikaferð.

"Já, við erum að fara í stóra tónleikaferð. Þetta verður viðamesta tónleikaferð okkar til þessa og við leikum á fimm stöðum; í Kaupmannahöfn, á Sjálandi og Jótlandi. Á efnisskránni verða þau verk sem við leikum á tónleikunum á morgun, auk þess sem við leikum "Kvartett um endalok tímans" eftir Messiaen. Þá fáum við til liðs við okkur danskan klarinettuleikara frá Álaborgarsinfóníunni."

Þið hafið áður farið í tónleikaferð til Danmerkur, ekki satt?

"Jú, nokkrum sinnum. Seinast fyrir tveimur árum," segir Guðný. "Það er mjög ánægjulegt að vera beðin um að koma aftur og aftur - því framboð af tónlistarmönnum er mjög mikið alls staðar og ekkert auðvelt að hasla sér völl erlendis. Núna förum við aftur á staði þar sem við höfum leikið áður, auk þess sem okkur hefur verið boðið að leika á nýjum stöðum. Við höfum fengið mjög góða gagnrýni í stórum blöðum í Danmörku og það hefur hjálpað okkur í því að fá fleiri tilboð. Við erum því mjög ánægð og hlökkum verulega til ferðarinnar."

Morgunblaðið/Júlíus