Lorcastemningar og leikhúsmyndir ELÍN EDDA ÁRNADÓTTIR LEIKMYNDATEIKNARI SÝNIR Í STÖÐLAKOTI ELÍN Edda Árnadóttir leikmyndateiknari opnar í dag sýningu í Stöðlakoti við Bókhlöðustíg.

Lorcastemningar og leikhúsmyndir ELÍN EDDA ÁRNADÓTTIR LEIKMYNDATEIKNARI SÝNIR Í STÖÐLAKOTI

ELÍN Edda Árnadóttir leikmyndateiknari opnar í dag sýningu í Stöðlakoti við Bókhlöðustíg. Sýninguna nefnir Elín Edda Lorcastemningar og leikhúsmyndir en þar sýnir hún búningateikningar og sviðsmódel sem tengjast sýningu Þjóðleikhússins á Blóðbrullaupi eftir Lorca en þar hannaði hún leikmynd og búninga. Á sýningunni eru 13 búningateikningar, unnar með bleki og akrýllitum, einnig sviðsmódel sem tengjast sýningunni á Blóðbrullaupi, svo og blekteikningar; "þær eru skyndimyndir úr sýningunni," segir Elín Edda.

að er ekki daglegur atburður hér á landi að leikmyndateiknarar sýni verk sín annars staðar en á leiksviði. Hvers vegna heldur Elín Edda þessa sýningu?

"Ég er að sýna fram á að leikhúsvinna er myndlistarleg útrás fyrir þann sem hannar sviðið. Ég er með 7-8 ára myndlistarnám að baki og fólk er stundum að spyrja mig: "Ertu bara hætt að teikna?" eða "Ertu ekkert að mála?" en ég er alltaf að teikna. Leikmyndagerð snýst mikið um áferð, línur og form allt frá því að það sem er skissa í byrjun stækkar í þrívítt form. Það er þessi yfirfærsla sem mér finnst spennandi; að sjá eitthvað vaxa frá blaði yfir í þrívídd.

Mér fannst skipta máli að sýna þetta meðan verkið er enn á sviði. Það var frumsýnt í janúar og þetta er líka mín aðferð til að losa mig frá vinnunni; mér finnst alltaf svolítið erfitt að hætta. Eftir frumsýningu heldur leikarinn áfram að vinna með verkið en bæði leikstjóri og leikmyndateiknari og aðrir sem hafa verið í forvinnu í kringum sýninguna sitja svolítið eftir með sárt ennið. Þannig að mér finnst gott að vinna mig niður og frá verkinu með þessu. Vinnan við Blóðbrullaup hefur gefið mér mikið, þetta er með hjartfólgnari verkefnum sem ég hef tekið að mér."

"Ég tók Blóðbrullaup sem inntökuprófsverkefni inn í skólann í London," segir Elín Edda sem er sérmenntuð í leikmyndahönnun fyrir svið og búninga frá The Wimbledon School of Arts í London. "Ég vann það svo aftur á öðru ári í skólanum og þá með annað rými og aðrar forsendur. Þannig að þetta er í þriðja skipti sem ég vinn við Blóðbrullaup og ég hef alltaf byrjað frá grunni."

Áttu von á að losa þig frá þínum verkefnum með þessum hætti framvegis?

"Ef ég finn ástæðu til þess og - sérstaklega ef verkið hefur reynst mér inspírasjón eins og til dæmis Blóðbrullaup hefur gert - það er svo frábært leikverk - en hins vegar hefur þetta líka stutt mig í þeirri skoðun að ég vilji halda áfram sem sjálfstæðari myndlistarmaður."

En sem leikmyndateiknari lítur þú á þig sem leikhúsmanneskju fyrst og fremst, ekki satt?

"Jú, og minn bakgrunnur er í alfarið í leikhúsi. Ég var í Listdansskóla þjóðleikhússins um 12 ára skeið og dansaði þar í alls konar sýningum. Sá bakgrunnur hefur nýst mér vel, því ég veit hvernig það er að vera hinum megin. Síðan fór ég í Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1978 og kláraði þar fjögurra ára grafíknám og vann svo við alls konar útlitshönnun en byrjaði aftur í leikhúsi sem dansari í Land míns föður 1986. Þá fór ég að taka aftur stefnuna inn í leikhúsið og ákvað að taka þriggja ára viðbótarnám til BA-gráðu í Bretlandi. Það hafa ekki allir farið þá leið og ég er ekki að segja að það sé nauðsynlegt en mér fannst það nauðsynlegt fyrir mig. Það var gott að geta byrjað á núllpunkti og geta verið þennan tíma í Lundúnaborg sem er hjarta leikhússheimsins."

Hvað finnst þér um umfjöllun um verk leikmyndateiknara. Hvernig viðbrögð fáið þið fyrir utan eina, tvær setningar í leikdómum?

"Eftirtektin er mun betri en áður og það viðurkenna allir að umgjörðin skiptir máli. Það eru líka gerðar aðrar og sjónrænni kröfur núna. Leikhúsið er list augnabliksins og lifir í minningunni og þótt eftirminnilegustu augnablikin fyrir áhorfendur taki 2-3 sekúndur þá hefur fjöldi fólks lagt á sig gríðarlega vinnu við að útfæra þessar 2-3 sekúndur. Þess vegna er það svolítið atriði fyrir mig að sýna núna áþreifanlega í eitt skipti í einu rými þessa vinnu í samhengi við sýningu sem er í gangi.

Mig langaði til halda svona sýningu strax eftir að ég útskrifaðist til að sýna fagið - ég vil líka gera þetta fyrir mína kollega, þetta er fag sem skiptir máli í leikhúsi. En mér fannst sú vinna sem ég hafði unnið þá ekki tengjast íslensku leikhúsi. Aftur á móti sá ég mér leik á borði þegar mér bauðst að sýna í Stöðlakoti að þetta gæti verið ágætis tækifæri til að sýna vinnubrögðin í leikhúsi, hvað teiknari gerir. Umhverfið í Stöðlakoti hentar mjög vel því andrúmslofti sem er í sýningunni, þessir þykku hvítu steinveggir minna óneitanlega á hvíta kalkveggi á Spáni þótt rammíslenskir séu. Ég vona að í þær myndir sem eru þarna hafi náðst eitthvert andrúmsloft sem er í leikhúsinu.

Morgunblaðið/Kristinn