SÓLVEIG EGGERTSDÓTTIR SÝNIR LÁGMYNDIR Í GALLERÍ SÓLON ÍSLANDUS Brot MINNING mjúklega hjúpuð, brot undan tímans tönn. Myndir í huganum og máðir gripir í skúr eða guð má vita hvar. Fundnir óvænt brot af broti og forðað undir hjúp úr vaxi.

SÓLVEIG EGGERTSDÓTTIR SÝNIR LÁGMYNDIR Í GALLERÍ SÓLON ÍSLANDUS Brot

MINNING mjúklega hjúpuð, brot undan tímans tönn. Myndir í huganum og máðir gripir í skúr eða guð má vita hvar. Fundnir óvænt brot af broti og forðað undir hjúp úr vaxi. Þar nær ekki tíminn lengur að vinna á þeim, fortíðin steingerð mjúklega, formin hringlaga svo minnir á eilífðina. Svona eru lágmyndir Sólveigar Eggertsdóttur, svolítið skrítnar og dularfullar, komnar úr kjallara Norska bakarísins í Fischersundi í Gallerí Sólon Íslandus við Bankastræti. Þar opnar Sólveig sýningu í dag. Hún segir hér eilítið meira af fortíðarbrotunum.

veikjan að sýningunni var fornleifafundur í skúr hér við húsið." Sólveig byrjar eins og vera ber á byrjuninni, búin að hita te, kveikja í sígarettu og stugga burt síamsketti heimilisins. "Skúrinn liggur að kjallaranum þar sem ég hef vinnustofu og þar sem Silli og Valdi geymdu á sínum tíma ávexti löngu eftir að bakaríið var liðið undir lok. Það var moldargólf í skúrnum og þar sem ég var að gramsa þar í fyrrasumar fann ég gamlar styttur, brotnar og máðar, hausa, útlimi og búka úr gifsi. Þegar grafið var í moldina komu margar fleiri í ljós og ég ímynda mér að þetta geti verið lager afsteypugerðar frá árunum milli stríða. Stytturnar líta þannig út.

Mér fannst þessar fígúrur áhugaverðar og hafði þær í vinnustofunni til að kynnast þeim. Hugmyndin um að vinna með tímann varð svo til af því hann býr í þeim - bæði tíminn sem þær urðu til á og tíminn sem síðan hefur mótað þær, hlutað í sundur og eytt. Brotin úr skúrnum vöktu líka minningar hjá mér eða bentu til einhvers sem ég veit að var og þannig runnu saman hlutlægir og huglægir molar af fortíð."

Sólveig hefur áður haldið tvær einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. Hún stundaði myndlistarnám í École des Beux Arts í Aix-en-Provence suður í Frakklandi, í Myndlistarskólanum í Reykjavík og skúlptúrdeild Myndlistaog handíðaskólans. Þaðan lauk hún lokaprófi fyrir fjórum árum. Meðan á námi hér heima stóð komst hún í kynni við vaxið. "Ég fann vaxklump hjá Sölunefnd varnarliðseigna og hann varð sá fyrsti af mörgum úr býflugnavaxi eða parafíni eins og í þessum sem ég sýni núna. Ég hafði kynnt mér dálítið myndverk Ítalans Meduardos Rossos, sem var framúrstefnulistamaður í lok síðustu aldar. Hann hellti einmitt býflugnavaxi yfir hefðbundnar gifsstyttur og hefur líklega verið fyrstur til að finna vaxinu annað hlutverk en afsteypuna.

Eftir þetta hef ég fikrað mig áfram með vaxið og unnið það með gleri, sóti og pappír. Haft með fundnum hlutum ef svo má segja, brotajárni til að mynda á síðustu sýningu, litað það, skorið í módel og steypt í form. Möguleikarnir hafa sýnt sig einn af öðrum og mér líkar þetta efni vel. Það er auðvelt í vinnslu og hefur þann kost að það verður að vinnast hratt eftir að hugmynd er fullmótuð. Ég er svolítið eins og gullgerðarmaður með potta og plötur á vinnustofunni, fortíðarleg kannski því að vax tengist einhvern veginn liðinni tíð.

Þannig myndar efnið heild með hugrenningum út frá styttunum gömlu. Festir í mynd sinni minningabrot."

Þ.Þ.

Morgunblaðið/Árni Sæberg