Í PORTINU SÝNIR ANNA TORFADÓTTIR COLLAGE-MYNDIR UNNAR MEÐ BLANDAÐRI TÆKNI Samruni ANNIR í huganum, myndir og kenndir þjóta hraðar og hraðar svo ekki verður haldið í allar. Þær sem eftir sitja steypast saman og listakonan veit nákvæmlega hvað hún vill.

Í PORTINU SÝNIR ANNA TORFADÓTTIR COLLAGE-MYNDIR UNNAR MEÐ BLANDAÐRI TÆKNI Samruni

ANNIR í huganum, myndir og kenndir þjóta hraðar og hraðar svo ekki verður haldið í allar. Þær sem eftir sitja steypast saman og listakonan veit nákvæmlega hvað hún vill. Svo nær hún í ljósmyndir úr skipulögðum bunkum og klippir og límir og speglar og teiknar og stækkar og málar. Samt er útkoman að hennar sögn einföld: Stemmning manns og náttúru á Íslandi. Myndir í aðra mynd og fáir sterkir litir. Alltaf ákveðin hugsun. Eins og þögult hljóð.

nna Torfadóttir opnar í dag sýningu á stórum collage-myndum unnum með margs konar aðferðum í sýningarsalnum Portinu við Strandgötu í Hafnarfirði. Hún hefur mest fengist við grafík í myndlistinni, smágerða og seinlega nákvæmnisvinnu, og fær útrás í þessum nýju myndum. Á sýningunni eru ellefu af þeim þrettán sem hún hefur unnið að í vetur. Anna lauk námi við grafíkdeild Myndlista- og handíðaskólans 1987 og hefur tekið þátt í nokkrum samsýningum en þetta er þriðja einskasýning hennar. Hún hefur líka starfað talsvert í leikhúsi, við leikmynd og búninga. "Myndlistin hefur samt alltaf verið í nánd," segir hún, "dótið mitt til reiðu í kjallaranum heima. Ég held að myndlistarmaður geti þróað list sína þótt hann sé frá handverki um eitthvert skeið, vinnan fer svo mikið fram í höfðinu."

Sumir færa viðburði og viðburðaleysi daganna í sérstakar stílabækur og líma þar kannski inn til ítrekunar orðunum einhverja minnisvarða. Anna heldur dagbók með öðrum hætti; tekur mikið af ljósmyndum og geymir þær í röð og reglu. "Ég vann einu sinni á ljósmyndastofu og hef lengi haft þetta áhugamál án þess að nýta það að ráði í myndlistinni. Þar til í fyrra, þá fann fann ég leið til þess og byrjaði að byggja svona samsett verk á ljósmyndum. Sýndi raunar í Súlnabergi á Akureyri, þar sem ég bý, þannig að þetta er ekki alger óvissusýning.

Eiginlega gengur þetta þannig fyrir sig þegar hugmynd fer að mótast að ég skrifa niður allt sem hent verður reiður á. Síðan veit ég venjulega upp á hár hvaða ljósmynd hæfir hverri hugsun og þá getur hafist vinnan við samfellu margra mynda í nýja heild. Þar reyni ég að búa til ákveðna stemmningu án þess að segja allt. Þú veist ekki nákvæmlega hvað felst í myndinni og mátt horfa talsvert á hana áður en sú tilfinning færist yfir. Svona vona ég að minnsta kosti að áhrifin séu."

Anna segist þekkja ljósmyndirnar sínar vel, hún skoði þær oft, líkt og fólk sem safnar spakmælum dregur þau upp til umhugsunar. Þannig vefjist ekki fyrir henni að byrja á mynd sem síðan vindur upp á sig með alls konar aðferðum. Útkoman verði stundum önnur en hún áformaði og alltaf sé endanleg mynd komin fjarri ljósmyndunum sem lagt var upp með. "Ég byggi upp nýtt myndmál og reyni að gefa því aðra dýpt en áður. Ekki endilega framandi, með íslenskri náttúru og manneskjum, en annars konar. Ósköp einlæga hugleiðingu."

Þ.Þ.

Morgunblaðið/Kristinn