HELGI BJARNASON Núverandi fyrirkomulag flutningsjöfnunar olíuvara gengið sér til húðar Hagkvæmt fyrir félögin að flytja olíuna sem lengst EMBÆTTISMENN í viðskiptaráðuneytinu eru þessa dagana að leggja síðustu hönd á nýtt frumvarp um breytingar á...

HELGI BJARNASON Núverandi fyrirkomulag flutningsjöfnunar olíuvara gengið sér til húðar Hagkvæmt fyrir félögin að flytja olíuna sem lengst

EMBÆTTISMENN í viðskiptaráðuneytinu eru þessa dagana að leggja síðustu hönd á nýtt frumvarp um breytingar á flutningsjöfnunarsjóði og innkaupajöfnun olíu og bensíns. Þar er lagt til að dregið verði úr flutningsjöfnun þannig að hún takmarkist við sjóflutninga svo og landflutninga á valda birgðastaði sem ekki liggja að sjó. Ekki liggur endanlega fyrir hvort lagt verður til að afnumin verði skylda hvers olíufélags til að bjóða sama verð um allt land en embættismaður í ráðuneytinu bendir á að ráðuneytið hafi fyrir tveimur árum lagt til að það ákvæði yrði afnumið auk þess sem margir telji að það brjóti í bága við markmið nýrra samkeppnislaga. Flestir virðast sammála um að núverandi fyrirkomulag sé gengið sér til húðar enda verðlaunar það olíufélögin í sumum tilvikum fyrir óhagkvæma dreifingu. Olíufélagið Skeljungur og Olíuverslun Íslands hafa barist gegn flutningsjöfnunarkerfinu og halda því fram að það dragi úr viðleitni til hagræðingar í olíudreifingu. Benda stjórnendur Skeljungs til dæmis á að olíufélögin sækist nú eftir viðskiptum við fjarlæga staði, einkum vegna hagnaðarins af því að flytja vöruna þangað. Þá hefur Landsamband íslenskra útvegsmanna tekið eindregna afstöðu gegn flutningsjöfnuninni og ákvæðum um sama verð um allt land. Forstjóri Olíufélagsins hf. vill afnema ákvæði um sama verð um allt land en viðhalda flutningsjöfnun eftir að búið er að sníða af henni agnúa. Segir hann að annað leiði til verðmunar á olíu eftir stöðum og aðstöðumunar fólks og fyrirtækja eftir því hvar það býr og starfar.

Frumvarp Jóns Sigurðssonar viðskiptaráðherra um breytingar á flutningsjöfnunarkerfinu var lagt fyrir Alþingi í upphafi árs 1992. Kom það í kjölfar innflutningsfrelsis á bensíni og olíum og afnámi verðlagsákvæða á þessum vörum. Markmið frumvarpsins var að auka frelsi í olíuverslun. Gerði frumvarpið ráð fyrir því að hætt yrði að jafna flutningskostnað á flutningum olíuvara á landi en flutningsjöfnunarsjóður myndi áfram innheimta gjald til að endurgreiða félögunum kostnað við sjóflutninga frá innflutningshöfnum til aðaltollhafna. Í upphaflegum drögum ráðherra var gert ráð fyrir því að felld yrði niður skylda hvers olíufélags til að auglýsa sama verð á olíuvörum til sömu nota um land allt. Að kröfu þingflokks Sjálfstæðisflokksins var svipuðu ákvæði bætt inn í frumvarpið áður en það var lagt fyrir Alþingi vegna ótta ýmissa þingmanna landsbyggðarinnar við að verðhækkun olíuvara fylgdi í kjölfarið úti á landi. Ágreiningur var í flestum stjórnmálaflokkunum um frumvarpið, meðal annars sögðust stjórnarandstæðingar vera hræddir um að lagabreytingin myndi leiða til þess að olíufélögin myndu fækka útsölustöðum og minnka þjónustu við landsbyggðina. Frumvarpið tók nokkrum breytingum í meðförum Alþingis, meðal annars var bætt inn í það ákvæðum um jöfnun flutninga á stóra verslunarstaði sem ekki liggja við sjó, en það varð síðan ekki útrætt.

Eins og frumvarpið var orðið eftir breytingar þingflokka og þingnefnda hefðu áfram verið verulegar takmarkanir á samkeppni í olíuverslun, í formi ákvæða um sama verð um allt land og verulegri flutningsjöfnun.

Jón Ögmundur Þormóðsson, skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneytinu, segir að í ráðuneytinu sé verið að leggja lokahönd á drög að nýju frumvarpi. Þar sé lagt til að flutningsjöfnunin taki til flutninga á landi til nokkurra verslunarstaða, auk sjóflutninganna. Hann vill ekki upplýsa hvort gert sé ráð fyrir ákvæðum um sama verð um allt land, segir það ekki endanlega ákveðið, en bendir á að þau ákvæði hafi ekki verið í upphaflegum frumvarpsdrögum ráðuneytisins 1992 og að ýmsir telji að slík ákvæði samræmist illa markmiðum nýrra samkeppnislaga.

Mismunandi verð?

Hagsmunir olíufélaganna eru nokkuð mismunandi í þessu máli og lýsir það sér að nokkru leyti í afstöðu þeirra til málsins. Skeljungur greiðir 35 til 50 milljónir á ári í flutningsjöfnunarsjóð umfram það sem félagið fær úr honum og Olíuverslun Íslands sömuleiðis tæpar 20 til 30 milljónir kr. Hins vegar fær Olíufélagið hf. 25 til 50 milljónir úr sjóðnum á hverju ári. Stafar þessi tilfærsla milli félaganna af mismunandi staðsetningu birgðastöðva og dreifingarstaða svo og viðskiptum úti á landi. Má líta svo á að Shell og OLÍS séu að innheimta af sínum viðskiptavinum þessa milljónatugi til að greiða niður olíuvörur ESSO.

Heildartekjur flutningsjöfnunarsjóðs voru 742 milljónir árið 1992 en liðlega 600 milljónir næstu tvö ár þar á undan.

Flutningsjöfnunargjaldið nemur nú einni krónu á hvern lítra bensíns og svartolíu og 95 aurum á gasolíu, svo dæmi sé tekið. Ef flutningsjöfnunin yrði afnumin með öllu væri svigrúmið til verðlækkunar þar sem dreifingarkostnaðurinn er minnstur, það er á höfuðborgarsvæðinu þar sem innflutningshöfnin er, því vel innan við eina krónu, ef olíufélögin vildu láta mismunandi dreifingarkostnað koma að fullu fram í verðinu.

Olíufélögunum ber ekki saman um afleiðingarnar úti á landi. Árni Ólafur Lárusson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Skeljungs hf., segir að þar sem með þessum lögum sé bannað að veita afslætti séu stórnotendur að greiða niður kostnaðinn við olíudreifingu til smærri notenda. Hann telur að fyrstu áhrif afnáms flutningsjöfnunar yrðu þau að gengið yrði í að hagræða í dreifingunni því menn vildu ógjarnan þurfa að hækka verð úti á landi. Telur hann ekki að verðmunur verði mikill á eðlilegum dreifingarstöðum hvar sem er á landinu en vafalaust yrði að hækka verðið verulega á einstaka stað, þar sem flutningar væru dýrir, til dæmis á hálendisvegum og utan alfaraleiða. Geir Magnússon, forstjóri Olíufélagsins hf. (ESSO), telur hins vegar að mikill verðmunur yrði milli staða ef flutningsjöfnunin yrði afnumin með öllu. Það hefði í för með sér aðstöðumun fólks og fyrirtækja eftir því hvar það býr og starfar. Sem dæmi um áhrif þess nefnir hann að mismunandi olíuverð gæti haft áhrif á það hvaðan fiskiskipin yrðu gerð út í framtíðinni.

Olíufélögin mega ekki veita stórkaupendum afslátt samkvæmt gildandi lögum, þrátt fyrir augljósan mun á kostnaði við sölu og er það meðal annars ástæðan fyrir því að útgerðarmenn hafa nú tekið afstöðu gegn flutningsjöfnunarlögunum.

Vantar hvata til hagræðingar

Kristinn Björnsson, forstjóri Skeljungs hf., segir að fyrirtækið hafi lengi barist fyrir afnámi allrar flutningsjöfnunar á bensíni og olíuvörum og vilji að kostnaðurinn leggist alfarið á félögin. "Lögin girða fyrir allan hvata til þess að menn leggi sig fram um að dreifa vörunum á sem hagkvæmastan hátt. Það skiptir ekki nægjanlega miklu máli hvernig vörunni er dreift þar sem endurgreiðsla flutningsjöfnunarsjóðs er svo rúm," segir Kristinn.

Árni Ólafur Lárusson, framkvæmdastjóri hjá Skeljungi sem jafnframt er stjórnarmaður í flutningsjöfnunarsjóði, segir að endurgreiðsla flutningskostnaðar til olíufélaganna fari fram samkvæmt ákveðnu kostnaðarlíkani. Félögin annist sjóflutninga til birgðastöðva úti á landi með eigin olíuflutningaskipum. Þau fái allan flutningskostnaðinn endurgreiddan og geri skipin út með hagnaði. Því sé ekki nægilegur hvati til þess að skipuleggja olíubirgðastöðvarnar og flutninga til þeirra á hagkvæmasta hátt. Auk þess komi þetta í veg fyrir samkeppni í flutningunum sjálfum. Ef aftur á móti kostnaðurinn væri settur inn í olíuverðið myndi hugsunin breytast.

Kostnaður við bílflutningana er á sama hátt greiddur samkvæmt kostnaðarlíkani fyrir ákveðna stærð af bíl. Segir Árni Ólafur að upphaflega hafi þetta verið rauntölur úr bókhaldi olíufélaganna en þar sem endurskoðun sé gerð á margra ára fresti taki kostnaðarlíkanið ekki mið af tæknibreytingum sem stöðugt geri þessa flutninga hagkvæmari. Því sé hægt að skapa óeðlilegan hagnað af þessum flutningum. Þetta segir hann að hafi orðið til þess að olíufélögin hafi sóst eftir fjarlægum viðskiptum. Sem dæmi um þetta nefnir hann virkjunarstaði, útsölustaði á hálendinu eins og til dæmis Nýjadal, Hveravelli og Kerlingarfjöll, og þjónustu við verktaka utan byggðar. Af sömu ástæðum hafi svokölluð bændaviðskipti þótt fýsileg. Tilvist slíkra viðskipta byggist í of ríkum mæli á hagnaðinum af flutningunum sem flutningsjöfnunarsjóður greiði.

Sníða má agnúana af

Geir Magnússon, forstjóri Olíufélagsins, segist telja eðlilegt að viðhalda flutningsjöfnuninni. Hins vegar sé rétt að sníða af þá agnúa sem bent hafi verið að séu á kerfinu og bendir á frumvarpið sem lagt var fram 1992. Telur hann að taka megi út flutningsjöfnun í þeim tilvikum þar sem verið sé að flytja lítið magn um langan veg, til dæmis til verktaka, bænda eða annarra, og það gert að málefni kaupanda og seljanda. Hins vegar sé ekki nóg að flutningsjafna sjóleiðina því taka verði með valda verslunarstaði sem ekki liggi við sjávarsíðuna.

Þá segir Geir að gjarnan mætti fella niður þau ákvæði laganna sem skylda olíufélögin til að auglýsa sama verð um allt land. Þau þyrftu að geta metið viðskiptavini sína út frá fjárhagslegri stöðu og stærð, og veita þeim viðskiptakjör á grundvelli þess, á svipaðan hátt og bankarnir gerðu við sína viðskiptavini. Ef þau ákvæði yrðu látin halda sér án fullrar flutningsjöfnunar væri hætta á að olíufélögin myndu hætta að þjóna ákveðnum stöðum.

Einar Benediktsson, forstjóri Olíuverslunar Íslands, segir að það sé stefna fyrirtækisins að leggja beri niður flutningsjöfnun olíuvara og ákvæði um sama verð til allra. Einar segir að búið sé að taka tvö skref til að auka samkeppni í olíudreifingu, það er frelsi til innflutnings og afnám verðlagsákvæða. Lögin um flutningsjöfnun séu hins vegar samkeppnishamlandi og úr takt við tímann. Ekki sé eðlilegt að félögin séu skylduð til að láta stórkaupendur greiða það sama fyrir vöruna og smákaupendur. Þá segir hann að ef félögin verði gerð algerlega ábyrg fyrir flutningum sínum myndi það leiða til þess að þau yrðu að hagræða enn frekar í flutningum sínum og olíudreifingu.

Útvegsmenn vilja afnema lögin

Kristján Ragnarsson, formaður Landsambands íslenskra útvegsmanna, segir að samtökin séu ákveðið þeirrar skoðunar að fella eigi úr gildi lögin um flutningsjöfnun olíuvara. Telur hann að ekki geti myndast eðlileg samkeppni milli olíufélaganna meðan núverandi lög standi. "Útgerðarmenn eru stórir kaupendur olíuvara og þeir eru dreifðir um allt land. Verði flutningsjöfnun afnumin treystum við því að í viðskiptum við olíufélögin fáum við að njóta þess að vera stórkaupendur," segir Kristján. Hann segir að verðjöfnunin sé allt of dýr og það stuðli ekki að lækkun kostnaðar við dreifinguna þegar þriðji aðili er látinn greiða kostnaðinn. Eðlilegast sé að hvert olíufélag beri kostnaðinn við sína flutninga og olíudreifingu.

"Það er fráleitt að stórir kaupendur þurfi að greiða það sama fyrir olíuna og smáir kaupendur því kostnaðurinn við að afhenda olíuna er mjög mismunandi. Núna mega olíufélögin ekki keppa í verði en gera það í staðinn í lánsfjármögnun. Útgerðirnar fá 45 daga greiðslufrest en þær eiga ekki kost á staðgreiðsluafslætti ef þær vilja greiða strax. Þetta er óeðlileg samkeppni enda er lánsfjármögnun hlutverk bankanna. Við teljum að með afnámi laganna og þar með frjálsri samkeppni á þessu sviði myndi þetta þróast á annan veg," segir Kristján. Hann bendir á að kerfið sé byrjað að brotna niður því í útboðum einstakra kaupenda á olíuvörum hafi fyrirtækin fengið afslætti þrátt fyrir ákvæði laganna um sama verð til allra.

Flókið kerfi

KERFI flutningsjöfnunar er talið flókið og telja sumir að það bjóði upp á misnotkun.