Héraðsdómur um kaup Fjölmiðlunar á hlutafé í Stöð 2 Íslandsbanki greiði 23 milljónir króna í bætur HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur dæmdi í gær Íslandsbanka, vegna Eignarhaldsfélags Íslandsbanka, til að greiða Fjölmiðlun sf.

Héraðsdómur um kaup Fjölmiðlunar á hlutafé í Stöð 2 Íslandsbanki greiði 23 milljónir króna í bætur

HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur dæmdi í gær Íslandsbanka, vegna Eignarhaldsfélags Íslandsbanka, til að greiða Fjölmiðlun sf. 23 milljónir króna þar sem upplýsingar sem eigendum Fjölmiðlunar voru gefnar áður en þeir keyptu af bankanum 150 milljóna króna hlutafé í Stöð 2 hafi ekki gefið nægilega og rétta mynd af stöðu fyrirtækisins.

Með dóminum var fjárkrafa Fjölmiðlunar að fullu tekin til greina en hún byggðist á útreikningum dómkvaddra matsmanna á réttu verðgildi hlutabréfanna og var fjárhæðin mismunur raunvirðis og kaupverðsins.

Í dómi Héraðsdóms segir að á þeim tíma sem kaupin voru gerð hafi Verslunarbankinn haft bein afskipti af ráðningu lykilmanna í framkvæmda- og eftirlitsstöðu fjármála Íslenska sjónvarpsfélagsins og verði því að ætla að bankinn hafi haft aðgang að þeim upplýsingum sem traust viðskipti með hlutaféð áttu að byggjast á. "Kaupendur gátu og máttu því vera í góðri trú með þær upplýsingar um eiginfjárstöðu, sem áætlun lánasviðs bankans sagði til um," segir í dóminum, og er vísað til áætlana um stöðu fyrirtækisins sem unnar voru í bankanum og lagðar fyrir kaupendur.

Skylda til að upplýsa

Síðan segir að bankanum hafi borið skylda til að upplýsa kaupendur nánar um fjárhagsstöðu Íslenska sjónvarpsfélagsins og láta í té nákvæmari upplýsingar um eiginfjárstöðu en gert var. "Eftir atvikum verður að telja það saknæma háttsemi hjá fyrirsvarsmönnum Eignarhaldsfélags Verslunarbanka Íslands hf., að hafa ekki aflað frekari upplýsinga og gefið kaupendum réttari mynd af stöðu félagsins við kaup þessi," segir í dóminum.

Sjá: "Kaupendur . . ." á bls. 16