Loðnukvótinn aukinn um 97 þúsund lestir Sjávarútvegsráðuneytið gaf í gær út reglugerð um aukningu loðnakvótans sem nemur 97 þúsund lestum. Með aukningunni er heildarkvóti íslenskra loðnuskipa á yfirstandandi vertíð 1.072 þúsund lestir.

Loðnukvótinn aukinn um 97 þúsund lestir Sjávarútvegsráðuneytið gaf í gær út reglugerð um aukningu loðnakvótans sem nemur 97 þúsund lestum. Með aukningunni er heildarkvóti íslenskra loðnuskipa á yfirstandandi vertíð 1.072 þúsund lestir.

Aukning þessi er þannig til komin að 30 þúsund lestir koma frá Evrópubandalaginu og 67 þúsund lestir falla til íslensku skipanna þar sem Grænlendingar fullnýttu ekki kvóta sinn.

Yfir 200 þús. tonn

Samkvæmt upplýsingum frá Félagi íslenskra fiskimjölsframleiðenda nam sólarhringsmóttaka loðnuverksmiðja rúmlega 12 þúsund tonnum við skráningu kl. 9 í gærmorgun. Þá höfðu einnig ellefu skip tilkynnt að löndun í gær og í nótt næmi rúmlega 10 þúsund tonnum af loðnu. Með þeim afla er búið að veiða yfir 200 þúsund tonn á vetravertíðinni og eru eftirstöðvar kvótans eftir aukninguna rúm 415 þúsund tonn.

Heimaey VE var á leið til löndunar í Vestmannaeyjum þegar Morgunblaðið náði sambandi við skipið í gær. Aflinn var 420 tonn af loðnu sem fékkst í einu kasti og var áætlað að um 100 tonn af aflanum yrðu fryst en afgangurinn færi í bræðslu. Þórarinn Ingi Ólafsson, fyrsti stýrimaður, segir að "kaldaskítur" hafi verið í fyrrinótt og ekkert veiðst en í gærmorgun hafi veiði glæðst að nýju. Þórarinn segir að skipið hafi fylgt fyrstu loðnugöngunni og veiddu þeir vestan við svokallað Portland í námunda við Dyrhólaey. "Loðnan á í þessum töluðum orðum um 25 mílur til Eyja, þannig að löndunin verður mun hraðari hjá okkur á næstunni," segir Þórarinn.