Sýslumaður í Eyjum vill afskrá áhafnir á tveimur frystitogurum Skipstjórunum hótað sektum og réttindasviptingu Vestmannaeyjum.

Sýslumaður í Eyjum vill afskrá áhafnir á tveimur frystitogurum Skipstjórunum hótað sektum og réttindasviptingu Vestmannaeyjum.

SÝSLUMAÐURINN í Vestmannaeyjum sendi í gær skipstjórunum á Vestmannaey og Guðmundu Torfadóttur bréf þar sem hann tilkynnir þeim að þeir eigi að sjá til þess að áhafnir skipanna, sem liggja í Eyjum við frystingu loðnu, verði afskráðar nú þegar. Í bréfinu kemur fram að framfylgi þeir ekki þessu kunni það að varða sektum og ef til vill réttindasviptingu. Skipstjórarnir á skipunum ætla sér ekki að verða við þessu og telja sig í fullum rétti samkvæmt lögum með að afskrá ekki áhafnirnar.

Guðmunda Torfadóttir hefur legið í höfn í Eyjum í viku og hefur verið unnið við frystingu loðnu um borð allan tímann. Vestmannaey kom til hafnar í Eyjum á fimmtudagsmorgun og hófst frysting loðnu um borð strax. Hermann Kristjánsson, skipstjóri á Guðmundu Torfadóttur, og Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, sögðu í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að þeir teldu sig í fullum rétti með að afskrá ekki mannskapinn. Unnið væri af fullum krafti um borð allan sólarhringinn, staðnar væru vaktir og áhöfnin ynni, svæfi og borðaði um borð eins og þeir væru úti á sjó. Þeir teldu því að veiðiferð væri ekki lokið og því ekki ástæða til að afskrá. Þá bentu þeir á að ef slys henti áhafnarmeðlimi um borð væri tryggingaréttur þeirra allt annar og minni ef þeir væru afskráðir.

Vinnu um borð ekki lokið

Þeir vitnuðu í 5. og 6. grein laga um lögskráningu sjómanna þar sem fram kemur að lögskrá skuli úr skiprúmi í hvert sinn sem vinnu skipverja um borð lyki og þeir teldu vinnu um borð ekki lokið. Þá mætti ekki leysa landfestar skipsins nema áhöfnin væri skráð og þeir þyrftu oft að færa skipin á milli bryggja og svo þyrftu þeir að fara af og til útfyrir til að lensa úr affalls- og salernistönkum og hreinsa út þannig að ómögulegt væri annað en að hafa skráð á skipin.

Í bréfi sýslumannsins til skipstjóranna er vitnað til 5. og 6. greinar laga um lögskráningu sjómanna og skipstjórunum tilkynnt að eins og nú hagi til um notkun skipsins beri þeim að sjá til að skipshöfnin verði afskráð nú þegar.

Ekki náðist í Georg Kr. Lárusson, sýslumann í Eyjum, í gærkvöldi, og starfsmaður embættisins sem vinnur við skráninguna vildi ekki tjá sig um málið og vísaði á sýslumann.

Grímur