Viskíflöskur og veiðiflugur "sendar" í keðjubréfum SALA á viskíflöskum í ÁTVR hefur tekið snarpan kipp síðustu daga, enda í gangi keðjubréf þar sem viskíflöskur eru hafðar að gjaldmiðli.

Viskíflöskur og veiðiflugur "sendar" í keðjubréfum

SALA á viskíflöskum í ÁTVR hefur tekið snarpan kipp síðustu daga, enda í gangi keðjubréf þar sem viskíflöskur eru hafðar að gjaldmiðli. Dæmi eru um að einn og sami aðili hafi skilað viskíflöskum fyrir tæplega 100 þúsund krónur og fengið andvirðið endurgreitt.

Hugmyndaflugið virðist ekki skorta hjá þeim sem setja á stofn keðjubréf og meðal þeirra bréfa sem ganga manna á milli um þessar mundir eru svokallaðar karla-og kvennakeðjur.

Er handhafa bréfsins boðið að færa efsta manni á nafnalista maka sinn og fá í skiptum nokkur hundruð annara. Bréfin eru skrifuð á léttum nótum og því ekki um eiginleg keðjubréf að ræða heldur miklu fremur gamansöm dreifibréf.

Hamingjubréf á ensku og íslensku hafa komið á mörg heimili undanfarna daga og auk þess stendur veiðiáhugamönnum kostur á að taka þátt í keðjubréfi sem gengur undir heitinu Flugnafár. Handhafa bréfsins er tjáð að hann geti fengið allt að 243 veiðiflugur ókeypis svo fremi hann slíti ekki keðjuna. Viskíkeðjan Whisky-menn er sögð hafa byrjað fyrir rúmri viku og er áhrifa þegar farið að gæta í verslunum ÁTVR að sögn starfsmanna sem rætt var við.

Tæpar 40 flöskur

Einn viðmælandi Morgunblaðsins sagðist í gær hafa tekið á móti tæplega 40 viskíflöskum og endurgreitt þær. Andvirði þeirra nam tæpum 100 þúsund krónum og kvaðst hann eiga von á að enn fleiri flöskum yrði skilað til verslana ÁTVR á næstu dögum. Starfsmaður Áfengis-og tóbaksverslunarinnar sagðist gera ráð fyrir að strax í næstu viku yrðu gerðar breytingar á vinnureglum sem fælu í sér að menn yrðu krafnir um kassakvittun ef óskað væri eftir endurgreiðslu.

Eðli keðjubréfa samkvæmt margfaldast þau mjög ört og samkvæmt útreikningum sem gerðir voru fyrir Morgunblaðið þurfa yfir ein milljón manna að taka þátt í Viskíkeðju til að aðili númer 10 á nafnalista geti fengið þær 256 viskíflöskur sem telja "fullt hús".