Þrír handteknir þegar stærstu landaverksmiðjunni til þessa var lokað í gærkvöldi Fundu 2.000 l af gambra og 800 kg af sykri STARFSEMI stærstu brugggerðar sem lögregla hér á landi hefur haft afskipti af var stöðvuð í austurbæ Reykjavíkur í gærkvöldi.

Þrír handteknir þegar stærstu landaverksmiðjunni til þessa var lokað í gærkvöldi Fundu 2.000 l af gambra og 800 kg af sykri

STARFSEMI stærstu brugggerðar sem lögregla hér á landi hefur haft afskipti af var stöðvuð í austurbæ Reykjavíkur í gærkvöldi. Þrír menn voru handteknir og á staðnum fundu lögreglumenn úr Breiðholtsstöð og frá rannsóknardeild lögreglunnar í Reykjavík um 2.000 lítra af gambra, sem nægt hefði til framleiðslu á 4­500 lítrum af eimuðum landa.

Einnig fundust á staðnum 250 lítra eimingartæki og 800 kíló af sykri, helsta hráefni landabruggara.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hefur lögreglan haft í undirbúningi aðgerðir gegn þessari verksmiðju um langt skeið, eða í tæpt ár, og hefur verið reynt að staðsetja verksmiðjuna og afla vísbendinga um starfsemina en sönnunargögn sem nægðu til að láta til skarar skríða voru ekki til staðar fyrr en í gær.

Framleiðsla var í fullum gangi á staðnum þegar lögreglan skarst í leikinn en aðgerð lögreglunnar hófst þegar bíll var stöðvaður á leið frá staðnum og voru þá handteknir menn sem taldir eru tengjast málinu. Í bílnum fundust tíu lítrar af landa sem talið er að ætlunin hafi verið að dreifa til kaupenda.

Morgunblaðið/Júlíus

Sú stærsta til þessa

EINAR Ásbjörnsson og Arnþór Bjarnason lögreglumenn að störfum á vettvangi í gær.