Bifreiðatryggingafélögin Skilmálum framrúðutryggingar breytt EIGINÁHÆTTA hefur verið tekin upp í skilmálum framrúðutrygginga hjá flestum tryggingafélaganna í stað þess að innheimta viðbótariðgjald við tjón á framrúðu.

Bifreiðatryggingafélögin Skilmálum framrúðutryggingar breytt

EIGINÁHÆTTA hefur verið tekin upp í skilmálum framrúðutrygginga hjá flestum tryggingafélaganna í stað þess að innheimta viðbótariðgjald við tjón á framrúðu. Breytingin er gerð vegna þess að fyrra fyrirkomulag þykir ósanngjarnt auk þess sem það tók ekki mið af verðmæti framrúðunnar. Breytingin tekur gildi 1. mars nk.

Gamla fyrirkomulagið var þannig að við framrúðutjón fékk hinn tryggði rúðuna bætta, nær undantekningalaust með nýrri rúðu, og greiddi nýtt iðgjald framrúðutryggingar út tímabilið en hvert tímabil er 12 mánuðir. Þannig greiddi maður sem lenti í tjóni þegar einn mánuður var liðinn af tryggingatímabili ellefu mánaða iðgjald fyrir þann tíma sem eftir var.

Að sögn Gunnars Felixsonar, forstjóra Tryggingamiðstöðvarinnar, þótti þetta fyrirkomulag ósanngjarnt og var þess vegna ákveðið að taka upp eigin áhættu í staðinn. Hjá Tryggingamiðstöðinni er hún 10% af verði rúðu og ísetningar en minnst 2.000 krónur og mest 20.000 krónur. Hjá Sjóvá/Almennum og Ábyrgð er hún 15% af verði rúðunnar. Þá tók iðgjaldið ekki nægilega mikið mið af verðmæti framrúðu, að sögn Gunnars, en margar bifreiðir eru með sérstakar framrúður, sem t.d. getur verið loftnet í, og þær geta verið margfalt dýrari en venjuleg rúða í svipuðum bíl.

Þá sagði Gunnar að oft væri hægt að gera við framrúður og væri nú hvatt til þess. Í þeim tilfellum er engin eigináhætta þess sem fyrir tjóninu verður.

Að sögn Hjálmars Sigurþórssonar í tjónadeild Tryggingamiðstöðvarinnar er mjög oft hægt að gera við sprungur í framrúðum sem eru eins og lítil stjarna, einn til tveir sentimetrar í þvermál. Þá er glæru efni sprautað í sprunguna, sem verður að vera hrein, og segir Hjálmar að rúðan sé nánast eins og heil á eftir.