Lesendabréf fjármálaráðherra í Financial Times Ekki fjallað um jákvæðari hluta GATT-skýrslunnar LESENDABRÉF eftir Friðrik Sophusson fjármálaráðherra birtist í breska blaðinu Financial Times í gær.

Lesendabréf fjármálaráðherra í Financial Times Ekki fjallað um jákvæðari hluta GATT-skýrslunnar

LESENDABRÉF eftir Friðrik Sophusson fjármálaráðherra birtist í breska blaðinu Financial Times í gær. Er þar bent á að í frétt sem birtist fyrir viku í blaðinu um skýrslu GATT um íslensk efnahagsmál hafi eingöngu verið fjallað um það sem miður hafi farið í fortíðinni, en ekkert fjallað um jákvæðari hluta skýrslunnar sem fjalli um nútíðina og þann árangur sem náðst hafi. Fjármálaráðherra segir að bréfið hafi verið skrifað meðal annars vegna þess að neikvæð alþjóðleg umfjöllun um íslensk efnahagsmál geti haft áhrif á lánstraust íslenska ríkisins og íslenskra aðila á alþjóðlegum vettvangi.

Financial Times birti frétt þann 11. febrúar undir fyrirsögninni: Íslenskri viðskiptastefnu kennt um niðursveiflu. Er þar fjallað um skýrslu GATT um íslensk efnahagsmál og sagt að viðskipta- og iðnaðarmálastefna Íslands hafi stuðlað að því að fiskiauðlindum var sóað, að matvælaverð sé eitt það hæsta í heimi og að framleiðslugeiranum hafi verið mismunað.

Friðrik Sophusson sagði við Morgunblaðið, að það sé afar sjaldan rætt um Ísland á síðum erlendra stórblaða og því séu menn viðkvæmir fyrir því sem þar stendur. Hér hafi menn haft áhyggjur af því að neikvæð umfjöllun geti haft áhrif á lánstraust íslenska ríkisins og íslenskra aðila á alþjóðlegum vettvangi. Fréttin hafi ekki gefið rétta mynd af íslenskum efnahagsmálum, þar sem ekkert hefði verið sagt frá því efni GATT-skýrslunnar sem fjallaði um núverandi ástand íslenskra efnahagsmála og var mun jákvæðari. Því sagðist Friðik hafa ákveðið að skrifa þetta bréf til blaðsins.

Rétt mynd af fortíðinni

Í bréfi sínu segir Friðrik Sophusson að frétt blaðsins sé um þann hluta GATT-skýrslunnar sem fjalli um fortíðina og gefi nokkuð rétta mynd af því hvað betur hefði mátt fara. Fréttin sýni hins vegar ekki núverandi ástand íslenskra efnahagsmála.

Friðrik segir að þrátt fyrir stöðnun síðan 1988 hafi íslenskt hagkerfi tekið veigamiklum breytingum, ekki síst landbúnaður og sjávarútvegur. Losað hafi verið um bönd á fjármagnsmarkaði, skattakerfið hafi tekið gerbreytingum og dregið hafi úr opinberum útgjöldum. Þá hafi verðbólga lækkað úr tveggja stafa tölu í 1-2%, viðskiptajöfnuður sé í jafnvægi og fjárlagahalli sé mun minni en hlutfallslegt meðaltal OECD landa.

"Þessar staðreyndir eru að minnsta kosti vísbending um hvernig staða íslenskra efnahagsmála sé nú um stundir. Ég yrði fyrstur til að viðurkenna að það er enn margt ógert en á mörgum málum hefur verið tekið með árangursríkum hætti," lýkur Friðrik bréfi sínu.