ÞRJÚ þúsund bananar eru borðaðir á hverjum degi í ólympíuþorpinu í Lillehammer þar sem íþróttafólkið býr. Eldhúsið er stórt enda 90 kokkar sem sjá um að elda ofaní liðið. Pottarnir eru svo stórir að heil fjölskylda gæti baðað sig í þeim samtímis. 1.400...

ÞRJÚ þúsund bananar eru borðaðir á hverjum degi í ólympíuþorpinu í Lillehammer þar sem íþróttafólkið býr. Eldhúsið er stórt enda 90 kokkar sem sjá um að elda ofaní liðið. Pottarnir eru svo stórir að heil fjölskylda gæti baðað sig í þeim samtímis. 1.400 hamborgarar eru framreiddir dag hvern fyrir þá sem ekki borða rétti dagsins. Yfirkokkurinn segir að það fari um tvö tonn af ávöxtum á degi hverjum. Hann segir að bananaátið hafi komið sér mest á óvart.

SMOKKUM var dreift til allra fjölmiðlamanna í gær. Tilgangurinn er gera fólk meira meðvitað um AIDS og fylgdi smokkunum bæklingur þar sem segir m.a.; "Það er eingöngu þú sjálfur sem getur komið í veg fyrir að smitast af HIV-veirunni."

FISKIBOLLUR er uppháldsmatur Ástu Halldórdóttur ef marka má þær upplýsingar sem hægt er að kalla fram í tölvukerfinu í fréttamannamiðstöðinni. Mjög ítarlegar upplýsingar er hægt að fá um hvern einasta keppanda á leikunum. Það er IBM sem sér um þessa þjónustu. Uppáhalds drykkur Ástu er íslenskt vatn.

ÍSLENSKT lambakjöt er í mestu uppáhaldi hjá Kristni Björnssyni og að sjálfsögðu íslenska vatnið. Kjöt af villibráð er uppáhaldsmatur Hauks Arnórssonar og Coca cola upphálds drykkurinn. Daníel Jakobsson heldur mest upp á lasagna og mjólk. Öll hafa þau það sameiginlegt að hlusta mest á Rock'n Roll tónlist. Þessar upplýsingar voru ekki fyrir hendi hjá Rögnvaldi Ingþórssyni.

ALBERTO Tomba mætti á blaðamannafund í fréttamannamiðstöðinni í gær. Eftir Ólympíuleikana í Albertville fyrir tveimur árum, nefndi hann leikana Alberto-ville vegna eigin frammistöðu. Hann var m.a. spurður að því í gær hvað hann ætlaði að nefna leikana hér ef hann næði fjórða gullinu. Hann var fljótur að svara: "Lille-Tomba".

TOMBA var einnig spurður að því hvor væri meira aðlaðandi skautadrottningin Tonya Harding eða Nancy Kerringan. Hann brosti breitt og sagði: "Þær eru ágætar saman."