Saltslabb og svartur snjór Jóhannesi R. Snorrasyni: Þegar snjóar í Reykjavík og nágrannabæjum rjúka starfsmenn gatnagerðar til og ausa miklu magni af salti í snjóinn, sem þá verður að ógeðslegu krapaslabbi.

Saltslabb og svartur snjór Jóhannesi R. Snorrasyni: Þegar snjóar í Reykjavík og nágrannabæjum rjúka starfsmenn gatnagerðar til og ausa miklu magni af salti í snjóinn, sem

þá verður að ógeðslegu krapaslabbi. Saltið leysir upp tjöruna í malbikuðum götum, þótt mönnum gangi misjafnlega að átta sig á því. Í umferðinni spýtist þessi ófögnuður undan hjólbörðum bílanna og atar allt og alla í næsta nágrenni tjörublönduðum saltpækli. Allir bílar verða löðrandi í tjöru og rúðurnar hvítflekkóttar af salti, með tilheyrandi útsýni. Hjólbarðarnir þeyta tjöruslabbinnu til beggja handa og eftir standa rásir eða lækjafarvegir eftir endilöngum umferðargötunum. Þessar rásir eru hættulegar í hálku og vatnsveðrum. Þegar vorar koma malbikunarvélar út á göturnar til þess að laga það sem saltið hefur eyðilagt, en malbikið hefur runnið til sjávar. Allir hjólbarðar, sem ösla tjöruslabbið, verða smurðir tjöru og flughálir í snjó. Án efa hefur það orsakað fjölda umferðaróhappa. Til þess að komast leiðar sinnar í snjó neyðast menn til þess að hella svokölluðum tjörueyðingarefnum, t.d. "white sprit" eða skyldum efnum, yfir hjólbarðana. Eftir að tjaran hefur runnið niður í snjóinn verður aksturinn leikur einn, en aðeins skamma stund, sé ekið aftur í tjöruslabbið. Hreinir hjólbarðar á hreinum snjó veita gott viðnám, en tjörusmurðir hjólbarðar eru líkir vel smurðum skíðum, hættulegri en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Þúsundir lítra af þessum tjörueyðingarefnum renna vikulega til sjávar um holræsin, a.m.k. þegar viðrar líkt og í vetur. Bannað er að hella olíu og skyldum efnum í niðurföll. Tjörublandaða saltslabbið og olíuefnin, sem ausið er yfir hjólbarða og bíla hér á höfuðborgarsvæðinu, hlýtur að hafa slæm áhrif á viðkvæmt lífríki í fjörum og á grunnsævi. Það gæti verið áhugavert fyrir Össur og hans menn að kanna. Mestu umferðargöturnar eru að jafnaði vettvangur tjöruslabbsins, enda saltið ekki sparað þar. En þegar ökumenn koma í úthverfin eða út á þjóðvegina, með tjörusmurða hjólbarða, eru ökutækin illviðráðanleg. Þurfi skyndilega að minnka hraða eða stöðva endar ökuferðin oft aftaná næsta bíl eða utan vegar. Stundum enda ökuferðir með því, að heil runa af bílum eru klesstir aftan og framan, með ærnum kostnaði fyrir eigendurna, tryggingafélögin og heilbrigðiskerfið, raunar samfélagið allt. Verst er þegar slys verða á fólki, sem er alltof algengt hér. Aftanákeyrslur og árekstrar eru sennilega heimsmet hér, oft vegna gáleysis og rangs mats á aðstæðum. Mönnum hættir við að ofmeta áhrif saltaustursins og aka með sumarhraða í tjöruslabbinu, en gleyma því hve tjörusmurðir hjólbarðar eru hættulegir. Með hreina hjólbarða á hreinum snjó sitja allir við sama borð í umferðinni og verða að aka eftir aðstæðum. Öllum ætti að vera ljóst, að ekki verður hjá því komist um vetrarmánuðina, að hálkuskilyrði og snjór tefji umferð almenningsvagna jafnt sem annarra ökutækja. Að ætla sér sama ökuhraða í snjó sem á auðum brautum er óraunhæft og hættulegt.

Að öllu samanlögðu sýnist saltausturinn á hluta gatnakerfisins vera til ills eins. Hið óraunhæfa öryggi, sem sumir "trúa á" að saltið veiti vegfarendum, hefur nú þegar kostað samfélagið alltof mikið.

JÓHANNES R. SNORRASON,

Mosfellsbæ.