Helga Þorsteinsdóttir - Minning Fædd 3. nóvember 1917 Dáin 10. febrúar 1994 Ég vil minnast frænku minnar elskulegrar með fáeinum orðum. Hún var fædd í Langholti í Hraungerðishreppi, yngst

14 alsystkina, barna Helgu Einarsdóttur og Þorsteins Sigurðssonar bónda þar. Þrjú barnanna dóu ung að aldri en 11 komust upp. Móðir Helgu dó í spönsku veikinni, 1918, og var hún því aðeins rúmlega ársgömul þegar móðir hennar lést. Lát góðrar eiginkonu og umhyggjusamrar móður var fjölskyldunni allri mikið áfall en eldri systkinin gengu þeim yngri í móður stað og hvíldi ábyrgðin þá þyngst á herðum Margrétar sem var elst og stóð fyrir heimilishaldinu fyrstu árin eftir lát móður sinnar. Börnin lögðu öll sitt af mörkum þegar þau höfðu aldur til, hjálpuðu til bæði utan húss og innan og unnu baki brotnu að fordæmi föður síns sem var kjarkmikill og atorkusamur. Fjölskyldan var mjög samhent og hefur verið æ síðan þar eð systkinin vöndust því frá blautu barnsbeini að treysta hvert á annað.

Langholtsheimilið var annálað dugnaðar- og rausnarheimili. Máttarstólpar þess voru vinnusemi, gestrisni, gjafmildi og trúrækni. Eins og á flestum íslenskum heimilum hér á árum áður voru húslestrar lesnir mestan hluta ársins og á föstunni Passíusálmar og hugvekja úr Péturspostillu í samræmi við sálminn sem lesinn var. Öll voru systkinin í Langholti gott söngfólk og því mikið sungið. Einn bræðranna, Ingólfur, lék þá undir á orgel og allir tóku hresilega undir. Helga, frænka mín, sem nú er kvödd, hafði fallega sópranrödd og söng hún í kirkjukórum í fjöldamörg ár, m.a. í kirkjukór Þorlákskirkju í Þorlákshöfn.

Þegar Margrét, elsta systkinið, stofnaði sitt eigið heimili var afi svo lánsamur að fá duglega ráðskonu til sín, Sólveigu Jónsdóttur frá Stóru-Reykjum í Hraungerðishreppi. Nokkru seinna trúlofuðust þau og eignuðust síðar son, Ólaf, sem er því langyngstur þessa stóra systkinahóps og lætur ekki sitt eftir liggja í dugnaði og atorku. Þegar afi dó aðeins 63 ára að aldri hafði einn bræðranna, Hermann, tekið við búinu og voru tvær systranna, þær Helga og Ólöf, ráðskonur hjá honum þar til hann kvæntist.

Ótal margt væri hægt að rita um þetta stóra menningar- og atorku-heimili og þennan mannvænlega systkinahóp og vona ég að einhver verði til þess að gera það. Sjálf var ég smátelpa þegar ég fyrst kom í Langholt með frænkum mínum, Ólöfu og Helgu. Ég á aðeins óljósa minningu um Þorstein afa, enda bara á öðru ári þegar hann dó.

Ég tengdist Langholti alveg frá blautu barnsbeini, var þar nær hvert sumar til 14 ára aldurs. Ég elskaði sveitina og var ekki fyrr búin í skólanum á vorin en ég þeyttist austur í Langholt. Helga og Ólöf voru mér sem góðar mæður og svo bættist Guðbjörg, kona Hermanns, í hópinn seinna meir. Helga var mér afar góð. Hún var ákveðin og lét mig hlýða sér, en hún var einhvern veginn þannig að mér var ljúft að hlýða henni. Hún var réttlát, og svo var hún svo skemmtileg, hló af minnsta tilefni og söng eins og engill. Þessi afstaða mín og væntumþykja til Helgu hélst alla tíð.

Helga giftist frábærum manni, Guðna Karlssyni frá Langadal í Húnavatnssýslu. Þau áttu fjögur mannvænleg börn saman, þrjár dætur og einn son. Þau eru: Guðrún, Helga, Katrín og Þorsteinn. Eina dótturdóttur, Drífu, ólu þau hjón upp að mestu og naut hún ekki minni ástsældar en hin börnin. Það var alltaf gaman að koma á heimili þeirra Helgu og Guðna. Þau voru svo létt og kát og sameinuðust svo vel um öll verkefni, vinnusöm en höfðu samt tíma til að bregða á leik bæði innan lands og utan. Þau voru hestamenn miklir, einkanlega Guðni og áttu alltaf góða hesta. Sumarið eftir að við hjónin giftum okkur fórum við, ásamt móður minni, Ingibjörgu, í kaupavinnu að Laugardælum utan við Selfoss. Þá bjuggu Helga og Guðni í Þorleifskoti sem er í Laugardælatúni. Guðni vann á búinu en Helga var heimavinnandi. Maðurinn minn og ég bjuggum þetta sumar hjá þeim og eigum við fjarska góðar minningar frá þessu sumri í félagsskap þeirra hjóna. Þá var oft hlegið dátt og sungið af hjartans lyst.

Ég gæti sagt svo margt fleira um hana Helgu, frænku mína, en læt þetta nægja. Mig langar bara til að heiðra og blessa minningu hennar og þakka henni öll árin sem við áttum saman. Við móðir mín (systir Helgu) og maðurinn minn, Benedikt, vottum Guðna og börnunum og barnabörnunum dýpstu samúð okkar og biðjum góðan Guð að styrkja þau í sorg og söknuði. Jesús sagði: "Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi." (Jóh. 11,25.)

Margrét Hróbjartsdóttir.