Helga Þorsteinsdóttir - viðbót Helga Þorsteinsdóttir, Egilsbraut 12, Þorlákshöfn, lést

10. þ.m. og verður útför hennar gerð frá Þorlákskirkju í dag, 19. febrúar. Okkur félagana í Söngfélagi Þorlákshafnar langar að minnast hennar með nokkrum fátæklegum orðum.

Helga var ein af stofnendum söngfélagsins, en það var stofnað árið 1960. Ungt fólk í fámennu byggðarlagi tók sig til og stofnaði kór af einhug og bjartsýni. Þorlákshöfn var að byggjast upp og söngurinn var meðal annars þeirra framlag til að gera mannlífið fegurra og betra. Helga var ákaflega góður og virkur félagi og fáar voru þær æfingar og athafnir sem hana vantaði á. Hún var þeim sérstæðu eiginleikum búin að ganga að öllu með jafnaðargeði og gaf sér ævinlega tíma til að gera það sem gera þurfti. Þessi félagsskapur var henni mjög kær og hún vann fyrir hann af heilum hug. Hún hafði gott tóneyra, var fljót að læra lög og texta og hafði fellga sópranrödd. Þessa hæfileika sína léð hún Söngfélagi Þorlákshafnar um margra ára skeið. Árið 1990 var hún kjörin heiðursfélagi söngfélagsins og var hún vel að þeirri viðurkenningu komin.

En nú er komið að kveðjustund og í dag verður sungið:

Ljúfur ómur loftið klýfur,

lyftir sál um himingeim.

Þýtt á vængjum söngsins svífur

sálin glöð í friðarheim.

Lofið drottin, lofið drottin.

Amen.

(Ók. höf.)

Það á vel við að syngja um ljúfa óma yfir moldum Helgu því þannig upplifði hún sönginn sem lyfti henni áreiðanlega oft á vængjum í friðarheima. Við félagar hennar erum afar þakklátir fyrir þær góðu stundir sem við fengum að njóta með henni. Hugurinn hvarflar til liðinna daga, bjartra góðra daga og skemmtilegra æfingakvölda sem voru full af gleði og söng, og mitt í þessu öllu saman verður hún Helga okkar alltaf til staðar, því minningin lifir.

Innilegar samúðarkveðjur sendum við Guðna, börnum og fjölskyldum þeirra.

F.h. Söngfélags Þorlákshafnar,

Halla Kjartansdóttir.