Karl Ágústsson ­ Minningarorð Fæddur 12. september 1924 Dáinn 5. febrúar 1994 Þegar hamslausir stormar geisa hrekur okkur gjarnan nokkuð af leið. Þegar kolsvört þokan byrgir okkur sýn á heiði förum við oft villt vegar. Flest höfum við staðið á krossgötum og ekki vitað gjörla hvert skyldi halda. Karl Ágústsson var þeirrar gerðar að fátt glapti hann frá réttri stefnu að settu marki. Villuljós, úrtölur og andbyr voru fyrir honum þeir sjálfsögðu farartálmar sem varða veg hvers einasta ferðalangs. Þegar yfir þyrmdi og mannlegur máttur varð ógnar smár, svo flestum féllust hendur, tókst hann á við örlögin með hugarró þess manns sem aldrei efast að öll él birtir upp að lokum.

Heimspeki Karls var einföld; ef nokkur kostur er þá lifa menn til að njóta en ekki til að þjást. Hann hafði rótgróna andstyggð á voli, bölmóð og sjálfsvorkunn. Menn sem skemmtu sjálfum sér og öðrum með eilífum leiðindum og úrtölum voru honum lítt að skapi. Karl hafði einstaka hæfileika til að feykja burtu grámyglu hversdagsleikans með smitandi lífsgleði, brennandi áhuga á mönnum og málefnum, gáskafullum uppátækjum og skondnum tilsvörum. Hann þekkti ekki hversdagsleikann.

Svo sem að líkum lætur kom Karl víða við í brauðstritinu, bæði sem launþegi og atvinnuveitandi á langri og farsælli starfsævi. Það sem var honum þó hugleiknast var virk þátttaka í sveitarstjórnarmálum um árabil undir merkjum jafnaðarstefnunnar í hennar óbrenglaðasta skilningi. Átthagarnir og viðgangur mannlífsins þar og þá einkum atvinnulífið var hans hjartans mál. Af eðlislægu raunsæi, trúr sinni jafnaðarhugsjón, var honum manna ljósast að ekkert er mannlegri reisn eins auðmýkjandi og geta ekki séð sér og sínum farboða.

Um þær mundir varð aflabrestur með viðeigandi efnahagsörðugleikum svo flest orkaði tvímælis og ekkert var sjálfgefið á borðum stjórnvalda. Við slíkar aðstæður er hlutur litlu byggðanna gjarnan fyrir borð borinn. Við sjóndeildarhringinn hyllti þó undir nýja tíma með nýjum tækifærum sem síðar áttu eftir að valda byltingu í atvinnuháttum þjóðarinnar. Við þessar erfiðu aðstæður tókst Karli og félögum hans í forustuliði byggðarlagsins, með ótrúlegri þrautseigju, ósérhlífni og framsýni, að rata rétta veginn og plægja þann akur sem enn stendur í fullum blóma. Launin voru hvorki veraldarauður né virðulegar vegtyllur á hátíðarstund heldur miklu fremur hégómalaus lífsfylling þeirra manna sem kinnroðalaust geta litið yfir dagsverkið og séð að það er í alla staði harla gott.

Nú þegar við stöndum við vatnaskil og berumst hvert sína leið með straumi örlaganna, og hljótum því að skilja um stund, er okkur efst í huga einlægt þakklæti að hafa átt vináttu þína á vegferð okkar. Forsjóninni þökkum við þá mildu nærgætni að leiða þig brott með sömu reisn og þú lifðir, og lifir í minningu okkar. Vert þú blessaður, Karl Ágúst.

Ólafur Kjartansson og

Kristín Nikolaidóttir.