Lovísa Aðalbjörg Egilsdóttir ­ viðbót Við ætlum hér í örfáum orðum að minnast ömmu okkar, Lovísu Aðalbjargar Egilsdóttur, sem lést á Sjúkrahúsi Suðurlands hinn 8. febrúar síðastliðinn eftir tiltölulega stutta en erfiða sjúkdómslegu.

Þegar leiðir skilja er gjarnan horft yfir farinn veg. Leitar þá á hugann það er hæst ber í minningunni. Þegar amma dó varð okkur hugsað til baka og þá helst til þess tíma er við áttum heima í sveitinni Villingaholtshreppnum.

Ef til vill er þessi tími svo kær og hugleikinn vegna þess að okkur finnst hún amma hafa haft svo góð áhrif á okkur systkinin á viðkvæmu mótunarstigi æskuáranna.

Gagnstætt því sem börn alast upp við nú á dögum urðum við þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að alast upp í nágrenni við afa og ömmu og fá að njóta nærveru og umhyggju þeirra allt frá fæðingu. Heimili foreldra okkar og afa og ömmu stóðu á sama bæjarhólnum í Syðri-Gróf þannig að ekki var langt á milli og samgangur því mikill.

Þær voru því ófáar ferðirnar sem við Ragnheiður systir mín fórum yfir til afa og ömmu á degi hverjum en þangað vorum við ávallt velkomin og erindið var af ýmsum toga.

Við sóttum í tilbreytingu á löngum skammdegisdögum þar sem í sveitinni var ekki rafmagn, hvað þá sjónvarp eða önnur afþreying sem þykir sjálfsögð nú á dögum. Amma las þá fyrir okkur og stytti okkur stundir á ýmsan hátt. Sérstaklega er minnisstætt er hún las fyrir okkur hina magnþrungnu sögu Bláskjá.

Til ömmu sóttum við einnig margvíslegan fróðleik og var hún óþreytandi að svara úr spurningum okkar um allt milli himins og jarðar. Þannig átti hún með þolinmæði sinni og þrautseigju stóran þátt í því að við næðum þeim stóra og að því er virtist óyfirstíganlega áfanga að verða læs áður en skólaganga hæfist, sem þá var um níu ára aldur.

Í mótlæti og þegar eitthvað bjátaði á hjá okkur þá var gott að leita huggunar hjá ömmu. Hún fann yfirleitt farsælustu leiðina út úr vandanum því réttlætisvitund hennar var einstök.

Sérstaka áherslu lagði hún á umhyggju fyrir lítilmagnanum, hvort sem um var að ræða menn eða dýr. Fyrir þessar sakir löðuðust að henni ýmsir sem gengu ekki heilir til skógar eða áttu um sárt að binda, og svo blessaðar skepnurnar og þá var sama hvort það voru heimalningarnir sem þurftu volga mjólk á pelann, nýfæddir kálfar sem þurftu aðhlynningu, hænuungarnir sem urðu heimilisvinir fyrstu vikurnar eða heimilishundurinn hann Píus sem hafði lent undir bíl og hún hjúkraði í nokkrar vikur þar til hann náði fullum bata; allir fengu alúð hennar og umhyggju óskipta.

Dugnaður og vinnusemi ömmu var mikil og þurfti hún oft að sinna útiverkunum auk inniverkanna þar sem afi vann oft úti í frá svo vikum skipti. Við vorum því oft að hjálpa ömmu við útiverkin en oft má ætla að hún hafi haft af okkur meira erfiði en hjálp þó að hún léti okkur aldrei finna annað en að vinna okkar væri jafn mikilvæg og værum við fullorðið fólk.

En það eru ekki síst þær reglur er hún innprentaði okkur í samskiptum við aðra sem við teljum að hafi orðið öllu því ungviði er hún umgekkst ómetanlegt veganesti út í lífið, en þar lagði hún mikla áherslu á að ávallt skyldum við trúa á og reyna að rækta það góða bæði í sjálfum okkur og öðrum.

Nú að leiðarlokum er okkur efst í huga þakklæti í garð hennar ömmu fyrir allt það er hún var okkur fyrr og síðar.

Guð blessi minningu hennar.

Þorvaldur og Ragnheiður.