Minning Guðjón Hansson frá Bárugerði Fæddur 15. nóvember 1909 Dáinn 11. febrúar 1994 Með þessum fátæklegu orðum vil ég minnast elsku afa míns, sem verður til moldar borinn í dag, 19. febrúar. Lífshlaup yndislegs manns hefur runnið sitt skeið.

Afi var fæddur í Bárugerði í Sandgerði. Hann var elstur af fjórum börnum þeirra Hans Wíum Jónssonar og Rannveigar Pálsdóttur. Afi giftist henni ömmu, Ingveldi Einarsdóttur frá Hólkoti, 26. nóvember 1938. Árið 1939 eignuðust þau pabba, Sigurð Hilmar Guðjónsson, sem var þeirra einkabarn.

Í júní árið 1945 keypti afi jörðina Bárugerði af föður sínum og bjó þar síðan til dauðadags. Svo var það árið 1960 að þeir byggðu nýtt íbúðarhús feðgarnir í sameiningu og þannig urðum við systkinin svo lánsöm að fá að alast upp með afa og ömmu. Afi var engum öðrum líkur og vildi allt fyrir alla gera. Hann lagði mikið á sig til að gleðja okkur barnabörnin og þolinmæði hans og örlæti voru engin takmörk sett. Hann hafði mikinn áhuga á okkur og fylgdist vel með og stóð undantekningarlaust með okkur í baráttunni við hinn harða heim.

Afi hafði alveg einstakt lag á börnum, öll börn löðuðust að honum. Í þessi tæpu þrjátíu og tvö ár sem ég fékk að njóta nærveru hans voru alltaf börn í kring um hann, bæði kunnug og ókunnug.

Það rifjast upp margar minningar og af nógu er að taka. Mætti meðal annars minnast á að þegar afi var búinn að borða hádegismat þá lagði hann sig á gólfið bak við hurð. Þá var gott að hjúfra sig upp að honum. Varð þá oftast lítið úr hvíldinni hjá afa. Endaði það þá með að hann söng fyrir mig, já, þær voru ekki fáar stökurnar sem ég lærði á eldhúsgólfinu hjá honum afa. Einnig eru ótal minningar frá sauðburði, heyskap og smalamennsku. Afi var mikill bóndi í sér og átti skepnur, og kindur átti hann fram á síðustu ár, en best þótti okkur systkinunum þegar amma kallaði á okkur inn í kaffi. Þá voru þau vön að segja: "Vinnandi fólk þarf mikið að borða." Þá vorum við svo stolt og þóttumst vera orðin fullorðin.

Afi var mikill vinnuþjarkur og vildi helst aldrei stoppa, hann var mjög ánægður með okkur þegar honum fannst við vinna vel. Var hann afar hreykinn af okkur mágkonunum, Ósk Jónu og mér, eftir að við fórum að vinna við beitingu. Sjálfur hafði hann unnið við beitingu og aðra fiskvinnu til fjölda ára og vissi því allt um það starf. Það var sama hvað hann kenndi okkur eða hvað við gerðum, alltaf var viðkvæðið hjá hjá þeim ömmu og afa að betra væri að vera lengi og gera vel en að flýta sér og gera illa. Amma dó 3. júlí 1979. Þá var höggvið mikið skarð í fjölskylduhópinn, en lífið hélt áfram, barnabörnin eignuðust sín börn hvert af öðru sem nú eru orðin 12. Það voru 12 kær ljós í tilveru langafa.

Ég vil fyrir hönd okkar allra þakka mágkonu minni, Jónu Pálsdóttur, innilega fyrir hve hún var honum afa góð, en hann var tíður gestur á heimili þeirra Jónu og Sigga síðustu árin.

Elsku afi. Okkar söknuður er mikill, en við vitum að þér líður vel núna og að það hefur verið tekið vel á móti þér.

Við þökkum góðum guði fyrir að hafa fengið að eiga þig sem afa. Í huga okkar verður minning þín vel geymd.

Elsku pabbi, mamma, bræður, makar og börnin okkar. Guð sendi ykkur styrk í sorg ykkar og söknuði.

Gunnhildur Ása Sigurðardóttir.