20. desember 2008 | Menningarblað/Lesbók | 684 orð | 3 myndir

Brúanlega bilið á milli okkar

BÆKUR

Dave Eggers „Tókst það sem svo fáum tekst; að vekja athygli heimsins með frumsköpun sinni, A Heartbreaking Work of a Staggering Genius.“
Dave Eggers „Tókst það sem svo fáum tekst; að vekja athygli heimsins með frumsköpun sinni, A Heartbreaking Work of a Staggering Genius.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞÝDD SKÁLDSAGA | Hvað er þetta hvað? Eftir Dave Eggers í þýðingu Rúnars Helga Vignissonar, Bjartur 2008, 495 bls.
Það eru ekki margir sem verða málsmetandi höfundar á alþjóðavettvangi með einni bók. Dave Eggers tókst það sem svo fáum tekst; að vekja athygli heimsins með frumsköpun sinni, A Heartbreaking Work of a Staggering Genius. Stórvirkið What is the What?; eða Hvað er þetta Hvað? sem var að koma út í íslenskri þýðingu Rúnars Helga Vignissonar, varð síðan til að staðfesta það sem margir höfðu gert sér í hugarlund, að með Eggers væri kominn fram þungavigtarhöfundur í heimsklassa. Þátt Rúnars Helga við íslensku útgáfuna skyldi ekki vanmeta; þýðingin er afar vandað og fallegt íslenskt sköpunarverk

Hvað er þetta hvað, segir átakanlega en um leið bæði skemmtilega og fróðlega sögu drengs frá Súdan, að nafni Valentino Achak Deng. Drengurinn var einn fjölda barna sem lentu á vergangi á tímum borgarastyrjaldarinnar í Súdan, einn úr stórri fylkingu barnungra flóttamanna sem hröktust áfram á endalausum flótta undan átökum. Sá hópur er söguhetjan tilheyrði fór í gegnum Kenía og loks til Eþíópíu og mátti horfa upp á eða þola ótrúlegt harðræði á leiðinni; árásir, nauðganir, hungur og þorsta. Börnin urðu einnig vitni að því er ljón hjuggu skörð í fylkingu þeirra og rifu síðan í sig. Meira að segja þeir sem áttu að vera börnunum hliðhollir brugðust með skelfilegum hætti.

Þrautagöngu Valentino var þó ekki lokið þótt hann kæmist í flóttamannabúðir í Afríku og þaðan alla leið til fyrirheitna landsins; Bandaríkjanna. Þar átti Valentino von á friði og því sem honum fylgir – bæði menntun og mennsku. Hann var sendur til Atlanta og er fljótur að átta sig á því að draumar rætast ekki auðveldlega, því hann mætir þar ofbeldi, fordómum, niðurlægingu og mannfyrirlitningu engu síður en í Afríku. Saga hans er því ekki bara saga drengs sem lendir í hörmungum stríðsátaka. Hún er líka saga okkar á Vesturlöndum; saga siðferðisstigs mannkyns, saga sem leiðir í ljós að flest erum við samsek og flest eigum við okkar þátt í því að samfélag mannanna er ekki betra en raun ber vitni, hvort heldur sem er í stríði eða friði.

Rauði þráður bókarinnar er vilji Valentino til að deila örlögum sínum með lesandanum, leyfa höfundinum Dave Eggers að nota lífshlaup hans sem eins konar hluta fyrir heild í einstakri úttekt á „ástandi heimsins“. Því eins og Valentino segir sjálfur þá ágirnist hann augu okkar lesendanna og eyru „brúanlegt bilið á milli okkar. [...] Ég er á lífi og þú ert á lífi og því verðum við að fylla loftið með orðum okkar. Ég ætla að fylla daginn í dag, morgundaginn, sérhvern dag þangað til Guð tekur mig til sín“.

Hann er m.ö.o. ákveðinn í að láta ekki þagga niður í sér. Hann er ákveðinn í því að vera jafnrétthár öðrum í þessum heimi – þeim sem njóta forréttinda eðlilegs lífs við mannsæmandi kringumstæður.

Bókin er mikill óður til menningar Afríku og stendur fyllilega fyrir sínu sem slík. En hún býr einnig yfir miklum boðskap. Valentino sættir sig ekki við að tilheyra þöglum og lítt sýnilegum (en gríðarstórum) hluta jarðarbúa sem búa við slæman kost og sæta jafnvel hrikalegum örlögum. Hann vill vera manneskja en ekki tölfræðilegur liður um þjáningar í „framandi“ löndum. Fyrir hönd bræðra sinna og annarra undirokaðra stígur hann fram úr skugganum inn í sviðsljósið og kveður sér hljóðs: „Ég ætla að tala við þá sem vilja hlusta og þá sem vilja ekki hlusta, þá sem leita til mín og þá sem hlaupa burt. Allan tímann mun ég vita að þú ert þarna. Hvernig get ég látið sem þú sért ekki til? Það yrði álíka langsótt og að þú létir sem ég væri ekki til“.

Spurningunni sem bókin varpar fram í titlinum, “Hvað er þetta hvað?“ er ef til vill svarað með þessum gjörningi Valentino. Leitin að „hvað-inu“ sem ekki er hægt að festa hönd á, öfugt við búfénaðinn í þorpinu hans, leiðir okkur hugsanlega að sameiginlegum gildum. Að brúanlega bilinu, eða sannleikanum sem fólginn er í tilveru okkar hvoru við annars hlið á jafnréttisgrunvelli, hvar svo sem við erum stödd á jörðinni.

Niðurstaðan er sú að við getum ekki látið eins og þeir sem eru til, séu ekki til.

Fríða Björk Ingvarsdóttir

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.