Minning Jóhannes Guðjónsson, Stykkishólmi Fæddur 11. nóvember 1896 Dáinn 8. febrúar 1994 Með söknuði og trega kveðjum við elskulegan föður, tengdaföður og afa. Jóhannes var fæddur í Keflavík í Neshreppi í Snæfellssýslu. Hann var yngstur þriggja barna foreldra sinna Hólmfríðar Jóhannesdóttur og Guðjóns Þorgrímssonar sjómanns. Ungur að árum missti hann föður sinn og fluttist hann þá til Stykkishólms með móður sinni. Hann lifði tímana tvenna í atvinnulífi þjóðarinnar. Strax eftir fermingu fór hann vestur á Þingeyri við Dýrafjörð á skútu og var á skútum nokkur ár. Einnig fór hann á vertíðir suður í Sandgerði og reri þar á árabátum. Síðan var hann á vélbátunum Sæbirni og Olivettu frá Stykkishólmi. Lengst af sínum sjómannsferli starfaði hann sem kokkur. Hann hætti til sjós um 1942 og gerðist þá verslunarmaður hjá Kaupfélagi Stykkishólms, fyrst sem pakkhúsmaður og síðan í byggingarvöruversluninni allt til ársins 1984. Þótti hann vera mjög sporléttur og voru það fáar helgarnar sem hann átti frí heima, því alltaf var verið að kvabba á honum þar sem viðskiptavinirnir gleymdu að kaupa ýmislegt til helgarinnar. Hann naut þess að fá að starfa meðan starfskraftar leyfðu eða til 87 ára aldurs og þá í hálfu starfi síðustu árin, en þá var heyrn og sjón farin að bila.

Eftirlifandi eiginkona hans er Guðlaug Ósk Guðmundsdóttir og áttu þau fimm börn, Hólmfríði, f. 10.8. 1939, d. 29.5. 1942, Guðmund Sigurð Sturla, f. 13.7. 1945, d. 7.3. 1962 í Reykjavík, en þar var hann við nám í Kennaraháskólanum, Sigurborgu Þóru, f. 10.5. 1948, gift og búsett í Englandi, Karvel Hólm, f. 10.10. 1952 giftur og býr í Stykkishólmi, Sturlaugu Rebekku Rut, f. 30.9. 1956 gift og búsett í Nígeríu. Áður eignaðist Jóhannes dótturina Ásdísi, f. 27.9. 1916. Hún giftist Jens Sæmundssyni vélstjóra og eru þau bæði látin.

Með aldrinum hrakaði sjón Jóhannesar og var hann svo til orðinn blindur. Hann fór í augnaaðgerð 1985 sem heppnaðist vel, en seinni hluta árs 1991 fór sjóninni að hraka aftur og í byrjun ársins 1992 fluttust þau hjónin á Dvalarheimili aldraðra í Stykkishólmi. Þá treysti hann sér ekki lengur til að sinna heimilisstörfunum og matseldinni sem hann sá að mestu leyti um núna síðustu árin. Þrátt fyrir lélega sjón gafst hann ekki upp því alltaf var hann á ferðinni utan dyra ef veður leyfði.

Í rauninni finnst okkur besta lýsingin á afa, eins og við kölluðum hann alltaf, í ritgerð sem Ómar sonur Sigurborgar þá níu ára gamall skrifaði í skólanum eftir að hann var búinn að vera í heimsókn hjá afa og ömmu um sumarið: Hann afi minn er 92 ára gamall og er við góða heilsu. Hann eldar oft matinn og fer í líkamsæfingar á hverjum morgni. Hann borðar heilmikið af kartöflum með fiski. Hann er alltaf í dökkbrúnni peysu og ljósbrúnum buxum sem hann heldur uppi með axlaböndum. Hann er venjulega í brúnum skóm. Hann sér bara með einu auga og er með heyrnartæki. Hann er með brúnt hár og fáein grá. Hann gengur um húsið heilmikið, en mestallan tímann horfir hann út um gluggann. Hann horfir á náttúruna. Hann horfir líka svolítið á sjónvarpið, en hefur sérstaka ánægju af að horfa á fréttirnar. Hann fer stundum út en ekki oft. Hann les heilmikið og verður að hafa gleraugu. Hann er alltaf að bjóða mér eitthvað að borða þegar ég kem í heimsókn og meðan ég stend við þá gefur hann okkur alltaf morgunverð. Hann er mjög indæll, greiðugur og góður, ég vildi óska að ég fengi að sjá hann oftar en ég geri.

Minningin um Jóhannes Guðjónsson mun ávallt lifa í hjörtum okkar.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)

Karvel, Guðfinna og synir.