Sigurður J. Sigurðs son - Minning Fæddur 1. ágúst 1911 Dáinn 4. október 1993 Nú blundar fold í blíðri ró, á brott er dagsins stríð og líður yfir land og sjó hin ljúfa næturtíð. (J. Helgason) Sigurður J. Sigurðsson var fæddur 1. ágúst 1911 að Skammbeinsstöðum í Holtahreppi í Rangárvallasýslu. Foreldrar hans voru Guðríður Þorsteinsdóttir frá Holtsmúla í Landsveit og Sigurður Jakobsson frá Neðra-Seli í sömu sveit. Þau byrjuðu búskap í Götu í Holtahreppi og þar fæddust tvær elstu dæturnar. En þá fluttu þau að Skammbeinsstöðum. Börn þeirra voru: Margrét, Ágústa, Dagmar, Elísabet, Elínborg, Lára og Sigurður. Þrjár systurnar eru á lífi, Dagmar býr í Kópavogi, Elínborg á Hellu og Lára í Reykjavík. Sigurður var ekki fæddur þegar faðir hans lést. Elsta systirin var þá átta ára. Erfitt hefur hlutverk ekkjunnar verið að standa ein uppi með sjö börn. Þá voru ekki barnabætur. En heimilinu var haldið saman og börnin ólust upp hjá móður sinni, með hennar dugnaði og góðra manna hjálp. Síðar eignaðist hún son, Guðmund Árnason. Þá var Benidikt Björnsson alinn þar upp.

Á Skammbeinsstöðum var tvíbýli og stór barnahópur einnig í hinum bænum. Mikill samgangur var á milli bæjanna, og léku börnin sér saman þegar frí var frá störfum. Sigurður ólst því upp í glöðum hópi við öll venjuleg sveitastörf. Þegar hann hafði aldur til fór hann í Unglingaskólann á Laugarvatni, en það þótti ágæt undirstöðumenntun í þá daga.

Bræðurnir Siggi og Guðmundur tóku við búi að Skammbeinsstöðum þegar móðir þeirra lést 1941. Margrét systir þeirra var hjá þeim. Guðmundur flutti til Reykjavíkur 1948.

Barnaskóli Holtahrepps var til húsa á Skammbeinsstöðum í nokkur ár, áður en hann fór í nýtt skólahús á Laugalandi. Þá voru börnin í heimavist og því oft glatt á hjalla. Magga og Siggi áttu mjög gott með að umgangast börn og unglinga. Þá voru mörg börn þar í sumardvöl.

Siggi var félagslyndur og átti gott með að koma fyrir sig orði og sló þá gjarnan á létta strengi. Hann starfaði með Ungmennafélaginu Ingólfi. Þá var hann formaður skólanefndar Laugalandsskóla um árabil. Skólinn þar var honum mikið áhugamál. Siggi var einn af stofnendum Lions klúbbsins Skyggnis og starfaði með honum meðan heilsa leyfði.

Síðustu árin á Skammbeinsstöðum var Siggi einn. Árið 1983 seldi hann jörðina bróðursyni sínum og flutti á Hellu. Var hann nokkur ár í eigin húsi, en þegar heilsunni tók að hraka, fór hann á Dvalarheimilið Lund. Þar naut hann góðrar umönnunar starfsfólksins sem ég vil þakka. Hann lést á Sjúkrahúsi Suðurlands aðfaranótt 4. okt. sl. og var lagður til hinstu hvíldar í Marteinstungukirkjugarði.

Allt er svo kyrrt, svo undurrótt

um alheims víðan hring.

Ver og í brjósti, hjarta hljótt,

og himni kvöldljóð syng.

(J. Helgason)

Hvíl þú í friði.

Guðríður Bjarnadóttir.