Þorsteinn S. Jensson - viðbót Kæri vinur. Þessu lauk þá svona. Maður má sín oft lítils andspænis jafn máttugum óvini og krabbameinsóvættinum. Þú varst búinn að stríða talsvert lengi við hann. Aldrei heyrði ég þig kvarta, þrátt fyrir að hann léki þig grátt. Fyrir það dáðist ég oft að þér. Þú dæstir þegar verst lét eða hristir hausinn, en aldrei gafstu upp. Jafnvel þegar ég hitti þig fyrir rúmri viku á spítala sagðistu ekki hættur baráttunni. Þó vissir þú að krabbakvikindið var búið að skjóta rótum vítt og breytt og þú áttir orðið bágt með að koma hugsun þinni rétta leið til talfæranna. Uppgjöf! Ekki til að tala um! Sjálfsagt hefur gamla keppnisskapið þá nýst þér vel í baráttunni. Auðvitað vissi ég, þrátt fyrir þolgæðið sem þú sýndir, að þú varst ekki hress með að vera orðinn svona heftur. Þú sem elskaðir og lifðir fyrir íþróttir máttir illa við því að geta ekki hreyft þig. En af jafnaðargeði áttir þú nóg. Kannski of mikið? Þú hvorki flíkaðir tilfinningum þínum né hleyptir fólki svo greiðlega að þér. Hins vegar vitum við sem náðum að brjótast inn fyrir skelina hve margt gott bjó í þér.

Heyrðu Steini. Manstu okkar fyrstu kynni? Ég nýfluttur til Borgarness (1987) og við bjuggum báðir í sama stigagangi. Hve oft gengum við út á planið, allt að því samstiga, og ókum hvor sínum bíl á æfingu? Skiptin urðu a.m.k. nokkur áður en við sáum kosti þess að verða samferða! Eftir það áttum við oft samleið. Mér þótti vænt um að kynnast þér. Við vorum að vísu talsvert ólíkir. Kannski þess vegna urðum við vinir? Við sáum í fari hvor annars að lífsfylling fólks er afar misjöfn. Af þér lærði ég t.d. að það borgar sig oft að flýta sér hægt og að maður ætti oftar að vera þakklátur fyrir það sem manni hlotnast. Þú varst a.m.k. ekki heimtufrekur á lífsins gæði. Varst yfirleitt ánægður og þakklátur fyrir það sem lífið bauð þér upp á.

Þegar ég hugsa til þín koma auk þess í huga minn orð eins og heiðarleiki, sanngirni og barngæska. Það var augljóst þegar börn voru nærri að þau snertu einhvern streng í þér. Því miður entist þér ekki líf til að eignast þín eigin. Hins vegar fékkstu nokkra útrás fyrir þær tilfinningar í íþróttakennslunni. Ég veit að þar höfðuðu yngstu nemendurnir helst til þín og nutu einlægrar leiðbeiningar þinnar. Án efa á stór hluti Borgarnesbæjar, fyrrverandi nemendur og foreldrar, eftir að hugsa hlýlega til þín í dag. Þar eyddir þú nær allri þinni starfsævi. Árin við íþróttakennsluna þar urðu alls tíu.

Þegar ég minnist þín kemur Rakel líka ósjálfrátt upp í huga minn. Hún reyndist þér oft óskaplega vel þegar veikindin herjuðu á þig. Þú gast alltaf reitt þig á hennar stuðning og vinskap, jafnvel eftir að þið slituð samvistum. Ég fann fyrir þeim hlýhug sem þið báruð hvort til annars, allt þar til yfir lauk. Ég veit að hún á eftir að sakna þín sárt. Ég veit líka að þú átt eftir að senda henni styrk til að yfirvinna þann söknuð.

Eitt af því góða í lífinu eru sæluminningarnar sem við varðveitum. Ein slík með þér er mér ofarlega í huga. Það var þegar við vorum að veiða á Úlfljótsvatni sumarið 1992. Veðrið var stórkostlegt þann dag. Blankalogn og 18 stiga hiti. Við létum bátinn reka og kyrrðin var alger. Það voru aðeins fiskarnir sem bitu á hjá okkur öðru hverju sem röskuðu ró okkar en juku um leið á ánægjuna. Þessa minningu varðveiti ég ásamt svo mörgum öðrum sem ég á um þig.

Þegar ég gekk út úr sjúkrastofunni þinni síðastliðinn mánudag, við veifuðum hvor öðrum og augu okkar mættust, held ég að við höfum báðir vitað að þú áttir ekki langt eftir. Mig óraði þó ekki fyrir að þú værir þá þegar kominn á leiðarenda. En um leið og ég kveð þig í síðasta sinn, kæri vinur, vil ég segja: Takk fyrir góð og ánægjulegt kynni. Við Helga vonum að þér líði alltaf sem best, hvar sem þú dvelur.

Fjölskyldunni sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Þínir vinir, Kristinn og Helga.