Þorsteinn Sævar Jensson ­ viðbót Kallið er komið, komin er nú stundin, vinaskilnaðar viðkvæm stund. Vinirnir kveðja vininn sinn látna, er sefur hér hinn síðsta blund. (V. Briem.) Í dag kveðjum við vin okkar og skólabróður. Það er sárt til þess að hugsa að hann Steini okkar sé horfinn úr þessari jarðvist fyrir fullt og allt. Þorsteini, eða Steina eins og við kölluðum hann, kynntumst við þegar við hófum nám við Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni. Þar var lagður grunnur að vináttu sem hélst allt fram á síðasta dag. Þorsteinn kom ásamt tvíburabróður sínum Guðmundi á skólann. Þeir voru mjög samrýndir alla tíð og vitum við að missir Guðmundar er mikill.

Þorsteinn var hæglátur og jarðbundinn strákur sem var trúr sínum vinum. Undir þessu alvarlega og rólega yfirbragði bjó kátur og glaðvær strákur. Margt var brallað á þessum tveimur árum við skólann og alltaf var Þorsteinn tilbúinn í slaginn. Hann var mikill áhugamaður um íþróttir og kennslu. Kennslan og þjálfun var það lífsstarf sem hann helgaði sig í einu og öllu og aldrei komum við að tómum kofunum þegar rætt var um kennslu og þjálfun.

Þorsteinn hóf kennslu við Gagnfræðaskólann í Borgarnesi strax eftir að hann útskrifaðist úr Íþróttakennaraskólanum og kenndi þar á meðan heilsan leyfði. Auk þess þjálfaði hann nokkur sumur í Borgarnesi og einnig á Þingeyri og átti hann sérstaklega góðar minningar frá þeim sumrum og ræddi hann oft um sumrin á Þingeyri.

Hann vinur okkar var með erfiðan sjúkdóm sem hann bar með kjarki og æðruleysi fram til síðustu stundar.

Stórt skarð er rofið í vinahópinn en við sem eftir lifum vitum að vel verður tekið á móti Steina í nýjum heimkynnum. Lífið heldur áfram og eftir lifir minning um góðan dreng, minning sem aldrei verður frá okkur tekin. Með þessum fátæklegu orðum biðjum við góðan Guð um að geyma vin okkar og viljum við þakka honum fyrir þær stundir sem við áttum saman.

Guðmundur, fjölskylda og vinir, ykkur vottum við okkar innilegustu samúð.

Kristján og Ólafur.