Stjórnandi Valur Orri Valsson, 14 ára, stýrir leik Njarðvíkur gegn FSu í gærkvöld.
Stjórnandi Valur Orri Valsson, 14 ára, stýrir leik Njarðvíkur gegn FSu í gærkvöld. — Ljósmynd/Skúli Sigurðsson
Eftir Skúla Sigurðsson sport@mbl.is ÞAÐ heyrðust gamalkunnug hvatningarorð í „Ljónagryfjunni“ í Njarðvík í gærkvöld þegar heimamenn tóku á móti FSu í úrvalsdeildinni í körfuknattleik.

Eftir Skúla Sigurðsson

sport@mbl.is

ÞAÐ heyrðust gamalkunnug hvatningarorð í „Ljónagryfjunni“ í Njarðvík í gærkvöld þegar heimamenn tóku á móti FSu í úrvalsdeildinni í körfuknattleik.

„Frábært Valur – Laglegt Valli“, rétt eins og fyrir rúmum 20 árum. Þarna var þó ekki verið að hvetja gömlu hetjuna Val Ingimundarson, núverandi þjálfara Njarðvíkur, heldur son hans, Val Orra Valsson.

Valur Orri er líkast til langyngsti meistaraflokksmaður Njarðvíkur og jafnvel á Íslandi til að stíga sín fyrstu skref í úrvalsdeild, en pilturinn er aðeins 14 ára gamall. Hann var í byrjunarliðinu í þessum fyrsta leik sínum.

„Mér leið bara nokkuð vel í mínum fyrsta leik en auðvitað er sárt að tapa,“ sagði Valur Orri, heldur fámáll í lok leiksins, en þess má geta að pilturinn hóf tímabilið með Njarðvík á ritaraborðinu.

Valur faðir hans kveðst hafa spilað sinn fyrsta leik þegar hann var 17 ára en aðspurður hvort hann myndi eftir honum sagði hann: „Nei, ég man ekkert á móti hverjum eða hvernig fór en ég man að ég var 17 ára,“ sagði Valur Ingimundarson. Logi Gunnarsson, lykilmaður Njarðvíkinga, hrósaði Val Orra eftir hans fyrsta leik. „Mér líst vel á hann. Hann var yfirvegaður með boltann í kvöld og í raun leit út fyrir að hann hefði spilað hérna heillengi með okkur. Hann stjórnaði liðinu með sæmd,“ sagði Logi Gunnarsson. | 4