22. febrúar 1994 | Íþróttir | 844 orð

Ætlaði að þagga niður í neikvæðu fréttunum ­ sagði Daníel Jakobsson sem fór of

Ætlaði að þagga niður í neikvæðu fréttunum ­ sagði Daníel Jakobsson sem fór of geyst af stað í 15 km göngunni DANÍEL Jakobsson varð í 49. sæti í 15 km göngu á Ólympíuleikunum á laugardaginn.

Ætlaði að þagga niður í neikvæðu fréttunum ­ sagði Daníel Jakobsson sem fór of geyst af stað í 15 km göngunni

DANÍEL Jakobsson varð í 49. sæti í 15 km göngu á Ólympíuleikunum á laugardaginn. Hann var ræstur út númer fimmtíu og byrjaði gönguna mjög vel var kominn í 40. sæti eftir 2 kílómetra en fór of hratt af stað og missti niður taktinn. "Ég ætlaði mér kannski full mikið - vildi reyna að þagga niður í þessum neikvæðu fréttum sem ég hef verið að fá að heiman. En ég var ekki vel upplagður, stífnaði upp eftir fyrstu brekkuna og náði mér ekki á strik eftir það. Hugsaði þá bara um að klára gönguna," sagði Daníel. Rögnvaldur Ingþórsson hafnaði í 69. sæti af 74 keppendum. "Ég var frekar þungur. Nú ætla ég að fara heim til Svíþjóðar og hvíla mig í faðmi fjölskyldunnar fram að 50 kílómetra göngunni á sunnudaginn," sagði Rögnvaldur.

að var frekar þungt hljóðið í göngumönnunum, enda ekki þeirra dagur. Þeir sögðust ekki hafa verið með nægilega gott rennsli. Margir runnu framúr þeim niður brekkurnar, en til að allt gangi upp þurfa skíðin að vera góð. Þeir eru þó báðir staðráðnir í að gera betur í 50 km göngunni á sunnudaginn.

Hvernig upplifir þú að keppa á Ólympíuleikum. Er þetta eins og þú áttir von á fyrirfram?

"Það sem kemur mér mest á óvart hér á Ólympíuleikunum er hve stórt þetta er í sniðum og hvað íþróttamennirnir sjálfir skipta litlu máli. Það eru sjónvarpsstöðvarnar sem ráða ferðinni því þar eru peningarnir. Eins og þegar 30 km gangan fór fram var farið fram á að fresta göngunni vegna kulda, en það var ekki hægt því ekki mátti breyta sjónvarpsdagskránni. Við erum bara lítil peð á taflborðinu hér," sagði Daníel.

"Ertu ánægður með frammistöðuna sem af er?

"Ég er mjög ánægður með 30 og 10 kílómetra göngurnar, en ekki með 15 km gönguna á laugardaginn. Ég var því svekktur eftir að hafa gengið tvær mjög góðar göngur. Tíu kílómetra gangan er sú langbesta hjá mér á ferlinum. Sætið segir ekki allt því það er alls ekki slæmt að vera 2,4 mínútur á eftir Birni Dæhlie og sá sem var í 20. sæti var aðeins 40 sekúndum á undan mér."

Er árangurinn þá eins og þú reiknaðir sjálfur með?

"Já, það má segja það. Eftir miklar framfarir síðustu þrjú árin mátti alveg búast við að þetta ár yrði erfitt ár fyrir mig. Ekki síst vegna þess að ég flutti mig frá skólanum í Jerpen til Östersund. Í Jerpen fékk ég allt upp í hendurnar og þurfti ekki að sjá um matseld og húsverkin. Nú er ég einn og þarf alfarið að sjá um mig sjálfur og það er meira en að segja það. Ég hef þó æft mjög mikið, einu sinni til tvisvar á dag, og var kannski kominn í ofþjálfun í janúar. En ég tel mig þó í toppæfingu núna, það sýna tvær fyrstu göngurnar."

Verður þú aldrei langþreyttur af þessu mikla æfingaálagi?

"Jú, ég hef verið frekar leiður í vetur eða allt fram að sænska meistaramótinu um miðjan janúar. Mér fannst æfingarnar ekki ganga nægilega vel í október og nóvember enda á nýjum stað. Ég gerði mér kannski of miklar væntingar strax í haust, en ég er á ákveðnum tímamótum núna."

Hver eru framtíðaráformin á skíðunum, stefnir þú að því að verða á meðal fremstu göngumanna heims?

"Já, hugurinn stefnir þangað. Ég trúi því sjálur að ég geti verið betri og finnst ég vera á réttri leið - en geri mér grein fyrir því að ég á margt eftir ólært enn. Ég æfði 570 tíma á síðasta ári og á eftir að bæta æfingamagnið um 200 tíma áður en ég get farið að vera á meðal þeirra bestu. Eftir þrjú ár er heimsmeistaramótið í Þrándheimi og síðan Ólympíuleikar árið eftir í Nagano. Ég held að ég hafi möguleika á að vera á meðal tíu bestu þar. En það þarf líka stefnubreytingu og markvissa stefnumörkum hjá ÍSÍ til gera íþróttamönnum mögulegt að stunda æfingar. Þetta er allt svo laust í reipunum hjá okkur Íslendingum. Við erum of gamaldags, vinnum sem áhugamenn en erum að keppa við atvinnumenn. Hvernig er hægt að búast við toppárangri?"

"Það er mjög erfitt fyrir mig að æfa svona einn og það verður að finna lausn á því í framtíðinni. Annað hvort verður að halda úti landsliði eða koma mér inn hjá einhverju öðru landsliði. Þetta er alltaf spurning um peninga. Það er ekki skilningur fyrir afreksmönnum í íþróttum á Íslandi. Ég tel að góður íþróttamaður og kannski tónlistamaður sé besta landkynning sem til er. Ef þú spyrð Svía hvaða Íslendinga hann þekkir, þá veit hann að við eigum konu sem forseta, Björk Guðmundsdóttir söngkonu, Einar Vilhjálmsson spjótkastara og gott handboltalið. Yngra fólk hefur ekki humynd um Halldór Laxnes og ekki heldur hver Davíð Oddsson er," sagði Daníel.

Daníel Jakobsson í göngukeppninni í Lillehammer. Hann byrjaði mjög vel á laugardag, en fór of geyst af stað og missti taktinn.

Valur B.

Jónatansson

skrifar frá

Lillehammer

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.