13. janúar 2009 | Aðsent efni | 577 orð | 1 mynd

EES felur ekki í sér hefðbundið neitunarvald

Jóhanna Jónsdóttir skrifar um EES

Jóhanna Jónsdóttir
Jóhanna Jónsdóttir
Jóhanna Jónsdóttir skrifar um EES: "EES-samningurinn felur ekki í sér neiturnarvald miðað við hefðbundnar skilgreiningar á neitunarvaldi ríkja innan alþjóðastofnana."
OFT er talað um að EES-samningnum fylgi ekki afsal á fullveldi m.a. vegna þess að Ísland og hin EFTA-ríkin sem eru aðilar að samningnum geti beitt neitunarvaldi um að innleiða löggjöf ESB. Sú staðhæfing að EFTA-ríkin hafi neitunarvald er hins vegar ekki í samræmi við hina hefðbundnu skilgreiningu á neitunarvaldi ríkja innan alþjóðastofnana, enda er hvergi í EES-samningnum minnst á orðið „neitunarvald“ (e. veto). Þegar talað er um neitunarvald innan alþjóðastofnunar er yfirleitt átt við að aðildarríkin hafi rétt á að hafna ákvörðun án merkjanlegra afleiðinga á starfsemi stofnunarinnar eða stöðu aðildarríkjanna. Til dæmis í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hafa föstu meðlimirnir, Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland, neitunarvald gagnvart öllum efnislegum ályktunum ráðsins. Ef eitt þessara ríkja neitar að samþykkja ályktun missir það ekki sæti sitt í ráðinu og þaðan af síður fellur starfsemi öryggisráðsins niður. Þetta á einnig við um sum samstarfssvið innan ESB, t.d. utanríkismál, en þar þarf samþykki allra aðildarríkjanna til að mál nái fram að ganga. Ef samhljóða samþykki næst ekki hefur það aðeins áhrif á þá tilteknu ákvörðun en ekki samstarfið í heild og því má segja að ríkin hafi neitunarvald.

Þetta á ekki við um EES-samninginn. Það er rétt að ef EFTA-ríkin sjá sér ekki fært að taka ákveðna gerð inn í samninginn eiga þau kost á að hafna upptöku hennar í sameiginlegu EES-nefndinni þar sem sendiherrar EFTA-ríkjanna í Brussel funda með fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB. Hins vegar hefði þessi möguleiki afdrifaríkar afleiðingar í för með sér fyrir EFTA-ríkin þar sem 102. gr. EES-samningsins kveður á um að sá viðauki samningsins sem löggjöfin nær til verði felldur niður ef ekki er hægt að komast að samkomulagi um að taka löggjöf upp í samninginn. Þjóðþing EFTA-ríkjanna hafa einnig rétt á að hafna innleiðingu löggjafar ESB en þessi réttur hefur líka verið talinn mikilvægur fyrir fullveldissjónarmið. Hins vegar hefði þessi kostur sömu afleiðingar og neitun EFTA-ríkjanna að taka gerð upp í sameiginlegu EES-nefndinni, þ.e. sá viðauki samningsins sem löggjöfin nær til yrði felldur niður (103. gr. EES). Þar sem Ísland og hin EFTA-ríkin eru mjög háð aðgangi að innri markaði ESB sem EES-samningurinn veitir er kannski ekki að undra að þau hafa aldrei neitað að taka löggjöf upp í samninginn eða innleiða hana í landsrétt, þó að stundum hafi innleiðing sætt umtalsverðum töfum t.d. í sambandi við tilskipun ESB um frjálsa för fólks (Directive 2004/38/EC). Íslandi og Liechtenstein þótti hún ganga of langt í að veita réttindi til borgara utan Evrópska efnahagssvæðisins og töldu hana falla utan ramma EES-samningsins. Hart var tekist á um gerðina í sameiginlegu nefndinni og þar sem ekki náðist sátt um að taka hana upp í EES-samninginn innan settra tímamarka vísaði framkvæmdastjórnin til 102. gr. Samkomulag náðist loks um málið og gerðin var á endanum tekin upp í samninginn. Ísland hefur þó náð að knýja fram undanþágur og aðlaganir í sameiginlegu EES-nefndinni ef góð rök eru fyrir því að aðstæður á Íslandi séu ólíkar því sem gengur og gerist í Evrópu t.d. varðandi flugvernd og orkunýtingu í byggingum. En það er mikill munur á því að geta stundum fengið undanþágur og að geta alfarið hafnað upptöku gerðar án afleiðinga. Þetta verður einnig að teljast mjög ólíkt starfsemi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna þar sem neitunarvaldi hefur oft verið beitt. Grundvallarmunur er því á hefðbundnu neitunarvaldi og þeim réttindum og skyldum sem EES-samningurinn felur í sér og villandi hlýtur að teljast að tala um að EFTA-ríkin hafi neitunarvald, a.m.k. í hinum hefðbundna skilningi.

mbl.is/esb

Höfundur er doktorsnemi í Evrópufræðum við Cambridge-háskóla.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.