17. janúar 2009 | Menningarblað/Lesbók | 1020 orð | 2 myndir

BÓKMENNTIR

Íslenska smásagan

Matthías Viðar Sæmundsson Matthías skrifaði gegn fastmótuðum hugmyndum um smásöguna í ritdómi um smásögur Kristjáns Karlssonar.
Matthías Viðar Sæmundsson Matthías skrifaði gegn fastmótuðum hugmyndum um smásöguna í ritdómi um smásögur Kristjáns Karlssonar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sífellt færri skrifa nú smásögur, sífellt færri kaupa nú smásögur, og sífellt færri fjalla nú um smásögur á frjóan og hugmyndaríkan hátt, segir greinarhöfundur sem telur að íslenska smásagan eigi sér ekki eigin fagurfræði lengur.
Eftir Magnús

Sigurðsson

mas8@hi.is

I Einhver albestu skrif í seinni tíð um eðli og eiginleika smásagnagerðar hljóta að vera ritdómur Matthíasar Viðars Sæmundssonar um sagnasafn Kristjáns Karlssonar skálds, Komið til meginlandsins frá nokkrum úteyjum.

Sögur Kristjáns komu út árið 1985, og ári síðar birtist ritdómur Matthíasar í Skírni.

Í ritdómi sínum fjallar Matthías með gagnrýnum hætti um ríkjandi viðhorf gagnvart formi smásögunnar, eða öllu heldur um hinn fastmótaða smekk manna á því hver einkenni vel heppnaðrar smásögu skuli vera. Matthíasi farast svo orð: Smásagnagerð hérlendis hefur og lengi einkennst af einhæfri kröfu um að saga eigi að vera orsakakeðja, hlutlæg eftirlíking raunverulegra atburða, rökvís og gegnsæ. Afleiðingin sú að þær smásögur sem hátt hefur borið líkjast helst ófullburða skáldsögum, margar hverjar.

En hvernig stendur á þessari „einhæfu kröfu“ – þessari, að því er virðist, óbilgjörnu afturhaldssemi á form? Er það annáluð rökvísi og gegnsæi Íslendingasagnanna og hlutlægni þeirra sem hér liggur að baki? Og þá jafnvel hinir svokölluðu Íslendingaþættir öðru fremur sem einhverja sök eiga að máli – stuttar og afmarkaðar frásagnir af mönnum á borð við Arnór jarlaskáld og Auðun vestfirska sem stundum eru sagðar forveri smásagnaformsins, rétt eins og Íslendingasögurnar eru, á tyllidögum, taldar hinar fyrstu eiginlegu skáldsögur. Er hin sterka fagurfræði fornbókmenntanna sem sagt enn ríkjandi? Eflaust hefur hin rótgróna og samhangandi bókmenntahefð Íslendinga nokkur áhrif á fastheldni í smekk þegar að íslenskri smásagnagerð kemur, rétt eins og raunin var um miðja síðustu öld þegar ljóðskáld hér á landi freistuðu þess að brjótast úr viðjum hefðarinnar en komust tilfinnanlega skemur á veg í sinni formbyltingu en höfundar annars staðar. Að þessu leyti hefur hin sterka bókmenntahefð hérlendis reynst takmarkandi og þrúgandi en ekki nauðsynleg uppspretta frjórrar nýsköpunar. Annars staðar urðu bókmenntir fyrri alda módernískum höfundum hins vegar verkfæri til nýrra landvinninga, bæði í sagnagerð og ljóðlist. Ég nefni smásagnagerð Jorge Luis Borges sem dæmi.

Skýring hinnar „einhæfu kröfu“ er þó nærtækari. Matthías Viðar segir afleiðingu hennar þá að „þær smásögur sem hátt hefur borið líkjast helst ófullburða skáldsögum“. Og þar liggur hundurinn grafinn: smásögu og skáldsögu hefur nefnilega slegið saman hér á landi. Við höfum í síauknum mæli brugðið mælikvörðum skáldsögunnar á form og innihald smásögunnar, með þeim afleiðingum að hin íslenska smásaga á sér nú enga fagurfræði.

II Ekki er þar með sagt að hugmyndir okkar um einkenni smásögunnar séu óljósar. Þvert á móti, þá eru þær afar fastmótaðar – og að sama skapi klisjukenndar, úr sér gengnar. Til dæmis: vel heppnuð smásaga sýnir í stað þess að segja svo aðeins einn tíundi stendur upp úr (ísjakakenningin), í vel heppnaðri smásögu er oftar en ekki fólgin afgerandi afhjúpun í lokin (löðrungskenningin), vel heppnuð smásaga er heildræn og afmörkuð stúdía, tekur umfjöllunarefni sitt föstum tökum og kemst að óhjákvæmilegri niðurstöðu (úrlausnarkenningin), og – öðru framar – í vel heppnaðri smásögu er fólgin skýr framvinda með flækju orsakakeðjunnar, hápunkti hennar og lausn (skáldsögukenningin). Þetta eru hinir ríkjandi mælikvarðar skáldsögunnar, sem smásagan situr nú uppi með.

Gegn þessum fastmótuðu hugmyndum skrifar Matthías í ritdómi sínum um smásögur Kristjáns Karlssonar. Það var fyrir tuttugu og tveimur árum. Síðan þá hafa ríkjandi hugmyndir um eðli og eiginleika skáldsagnagerðar flust í æ ríkari mæli á fyrirframgefnar hugmyndir og kröfur okkar um smásagnagerð, með þeim afleiðingum meðal annars að á markaði hefur skáldsagan nú bolað smásögunni burt, sem vitaskuld er frekari staðfesting þess að sérkenni smásögunnar hafa tímabundið þurrkast út.

III Ennfremur má færa að því rök að hugmyndir okkar og væntingar til skáldsagnagerðar hafi staðnað nokkuð og að framsækni íslenskrar skáldsagnagerðar sé lítil nú um stundir. Og hér mun raunar gengið svo langt að halda því fram að slíkt standi í nánu sambandi við hinn óheppilega samruna smásögu og skáldsögu. Smásagan – hin knappa framsetning skorinorðs texta – er, þrátt fyrir strangleika sinn, í eðli sínu róttækt og frjótt form, form gerjunar og nýrrar sýnar á túlkunarmöguleika skáldskaparins. Smáprósar Baudelaires, sem marka upphaf nútímaljóðlistar, standa að mörgu leyti nær eðliseiginleikum smásögunnar en „hefðbundinni“ ljóðlist. Þá ber að hafa hugfast að Joyce umbylti smásagnaforminu og framvindu hinnar dæmigerðu smásögu með bók sinni Dubliners áður en hann umbreytti vestrænni skáldsagnagerð til frambúðar með skáldsögum sínum þremur. Þá eru áhrif smásagna Borgesar á ýmsar hinna róttækari skáldsagna spænskumælandi þjóða ómæld. Ég nefni til sögunnar ótemjuna Rayuela eftir samlanda og sporgöngumann Borgesar, Julio Cortázar, sem einnig var meðal fremstu smásagnahöfunda Argentínu. Þá er engin tilviljun að William Faulkner, einn framsæknasti skáldsagnahöfundur síðustu aldar, skuli jafnframt einhver alflinkasti smásagnahöfundur enskrar tungu. Og svo mætti lengi áfram telja og tiltaka dæmi bókmenntasögunnar af því hvernig gerjun og nýbreytni í smásagnagerð hefur haldist í hendur við umbyltingar á skáldsagnasviðinu síðar meir, þótt hérlend dæmi séu færri.

Í ritdómi sínum segir Matthías Viðar raunar nokkrar undantekningar á því að höfundar gangist möglunarlaust við hinni „einhæfu kröfu“ um orsakakeðju, rökvísi og gegnsæi í smásögu. Dæmi nefnir hann ekki, önnur en smásögur Kristjáns Karlssonar sem til umfjöllunar eru. Mér þykir þó líklegt að hann hafi meðal annars smásagnagerð Ástu Sigurðardóttur í huga – sögur sem búa yfir eigin fagurfræði og þokka sem átti ekkert skylt við „ófullburða skáldsögur“ þá né nú. Smásögur Svövu Jakobsdóttur mætti einnig nefna, sem og smásagnagerð Gyrðis Elíassonar í seinni tíð. Í verkum þessara höfunda má greina sérkenni smásögunnar og áhrifamátt, alls óháð ríkjandi hugmyndum okkar um framvindu, rökvísi og gegnsæi í skáldsögu – kröfur sem illu heilli hafa í síauknum mæli færst yfir á viðteknar hugmyndir um eðli og eiginleika smásögunnar, og þar með orðið til að útmá sérkenni hennar.

Afleiðing þess að smásagan á sér ekki lengur eigin fagurfræði er þegar ljós. Hún er sú, að sífellt færri skrifa nú smásögur, sífellt færri kaupa nú smásögur, og sífellt færri fjalla nú um smásögur á frjóan og hugmyndaríkan hátt. Sem ætla má að komi að lokum niður á framsækni bókmennta okkar – og hefur jafnvel þegar gert.

Fræðimaðurinn

Matthías Viðar Sæmundsson (1954-2004)

Matthías Viðar var dósent í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Eitt af áhugasviðum hans var íslenska smásagan. Hann ritaði meðal annars ítarlegar greinar um smásögur Ástu Sigurðardóttur, Halldórs Stefánssonar, Thors Vilhjálmssonar og fleiri. Margar þessara greina birtust í greinasafni hans Myndir á sandi (1991).

Höfundur er rithöfundur og gaf út smásagnasafnið Hálmstrá í haust.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.