
Modern Chess Set
Nútímaskáksett, Modern Chess Set, bresku listakonunnar Rachel Whiteread (fædd 1963) er frá árinu 2005. Það er eitt verkanna á sýningunni Skáklist á Kjarvalsstöðum. Eins og flest verkin á sýningunni, er þetta unnið fyrir RS&A skrifstofuna í London og LuhringAugustine-galleríið í New York og er gert í upplagi; sjö eintök eru af verkinu. Óskin til listamannanna var sú að hægt væri að tefla með skáksettinu en þeir færu annars sína persónulegu leið í sköpuninni – og ekkert virðist hafa verið til sparað.Taflmenn Whiteread eru eftirlíkingar og afsteypur af dúkkuhúsgögnum úr safni listakonunnar.
Eftir Einar Fal Ingólfsson
efi@mbl.is
Rachel Whiteread var þrítug þegar hún skapaði sitt frægasta verk og sló í gegn – þótt verkið væri æði umdeilt. Hún lauk við House haustið 1993. Það var afsteypa af innviðum húss í Austur-London; steinsteypumynd af innrýminu sem birtist þegar Whiteread reif veggina utan af því. Þetta var síðasta húsið í húsaröð sem annars hafði öll verið rifin, og verkið vakti gríðarlega athygli. Þar sem höfðu verið hurðarhúnar var nú rúnnað holrými og arinninn gekk inn í steypuna, rétt eins og gluggapóstarnir.
„Undarlegur og fantatískur hlutur sem hlýtur að teljast einhver makalausasti og frumlegasti skúlptúr sem breskur listamaður hefur skapað á þessari öld,“ sagði gagnrýnandi
The Independent.
Engu að síður var House rifið af Lundúnaborg strax í janúar 1994 og frumleiki þess og frægð byggist á kvikmyndum, ljósmyndum og ótal lærðum greinum.
Síðan hefur Whiteread haldið áfram að vinna með afsteypur hluta og eftirmyndir hverdagsrýma. Meðal kunnustu verka hennar eru Untitled (One Hundred Spaces) , frá 1997, verk sem var á hinni frægu Sensation sýningu. Þar hafði hún tekið afsteypur í resín af rýminu undir 100 stólum. Áhrifamikið verk (og truflaði mann ekki að hafa þegar séð afsteypu Bruce Nauman af rými undir stól) sem virkaði afar vel á formrænan hátt og vakti áhorfendur jafnframt til umhugsunar um sitt nánasta umhverfi. Árið 2004 fyllti hún Túrbínusalinn í Tate Modern með afsteypum 14.000 pappakassa sem hún hlóð upp í mismunandi plastkassa-fjöll.
Verk Whiteread þykja iðulega fjalla um dauðann og liðinn tíma á tregafullan hátt. Það kom því ekki á óvart að henni skyldi falið að skapa minningarverk um helförina í Vínarborg, svokallað Nafnlaust safn , sem var vígt árið 2000. Rétt eins og í House eru þar innviðir húss sem stendur úti á torgi, og eru veggirnir mótaðir af bókum þar sem síðurnar snúa út.
Ég var spenntur að sjá hvernig hinir kunnu listamenn sem eiga verk á sýningunni Skáklist tækjust á við það að skapa skáksett í upplagi, sem í senn væru nothæf og bæru persónuleika listar þeirra vitni. Blessunarlega tekst þeim það flestum vel, og sumum á mjög snjallan hátt. Svo er ekkert til sparað við framleiðsluna á þessum verkum, í efnisnotkun eða handverki. Whiteread finnst mér eiga eitt af persónulegustu verkunum. Hér eru engar afsteypur af neikvæðum rýmum eða innan úr húsum, heldur notar hún heimilisþing sem taflmenn; eftirmyndir dúkkuhúsgagna sem hún mun hafa safnað um árabil. Það er persónuleg lausn og tengist vel öðrum verkum listakonunnar.
Peðin í öðrum „litnum“ eru eftirmyndir af skúringa- og ruslafötum, uppþvottabala og fægiskúffu. Kóngurinn er eldavél með fjórum hellum, drottningin eldavél með þremur hellum, biskuparnir eru standlampar, riddararnir strauborð og kantaðir hrókarnir vitaskuld eldhúsvaskar með skáp undir.
Hinumegin eru stólar peðin – frá eldhúskolli upp í hægindastóla. Fataskápar eru kóngur og drottning, biskuparnir snyrtiborð og riddarar eru ofnar. Allt eru þetta ofurnákvæmar eftirmyndir dúkkuhúsgagnanna og mönnunum leikið eftir teppa- og línoleumbútum.
Hvert skáksett Whiteread fellur niður í krossviðarkassa sem vísar í hönnuninni til sjötta áratugarins í Bandaríkjunum, þar sem hús í úthverfi var draumurinn, með álíka plasthúsgögnum og gólfefnum og skáksettið vísar í. Þetta er módernískur draumur í módernísku skáksetti. Um leið er þetta fallegt listaverk sem ber skapara sínum, sem er einn af áhugaverðari listamönnum samtímans, gott vitni.