Tony Soprano Eldist vel.
Tony Soprano Eldist vel. — Getty Images
EFTIR að Tony Soprano lýkur ævidögum sínum á einni rásinni, rís hann upp á annarri, eins og Lazarus upp úr gröfinni. Ekki er langt síðan RÚV lauk við að sýna síðustu seríu The Sopranos en nú er Stöð 2 byrjuð að sýna þá fyrstu.

EFTIR að Tony Soprano lýkur ævidögum sínum á einni rásinni, rís hann upp á annarri, eins og Lazarus upp úr gröfinni. Ekki er langt síðan RÚV lauk við að sýna síðustu seríu The Sopranos en nú er Stöð 2 byrjuð að sýna þá fyrstu. Kannski er New Jersey-mafíósinn að upplifa endurvarp lífsskeiðs síns á sjálfri dánarstundinni, og áskrifendum Stöðvar 2 er boðið að fylgjast með.

Frábært framtak, því ég er á þeirri skoðun að The Sopranos séu bestu sjónvarpsþættir sem framleiddir hafa verið, fyrr og síðar.

Eins og klassískar kvikmyndir standast þeir tímans tönn. Þó svo að ég hafi séð hvern einasta þátt áður, viti nákvæmlega örlög hvers og eins, er skemmtanagildið við áhorfið ekkert minna.

Fyrsta serían gerist árið 1999 og Tony er örlítið þynnri. Þó svo að hann sé ekki foringi glæpaklíkunnar í orði er hann það vissulega í framkvæmd. Junior Soprano er ekki enn orðinn elliær og því stórhættulegur. Aðal fyrstu seríunnar er þó grátbroslegt en afar óheilbrigt samband Tonys við móður sína. Hún nuddar stöðugt salti í samviskubitssárin en hann er ófær um að sýna kærleika án þess að hann snúist upp í andhverfu sína.

Birgir Örn Steinarsson