Ekkert svindl Hugmyndin kemur frá því þegar nemendur skrifa svindlnótur á hendina.
Ekkert svindl Hugmyndin kemur frá því þegar nemendur skrifa svindlnótur á hendina.
Helga Valdís Árnadóttir hlaut verðlaun fyrir kynningarefni fyrir prentmiðla á hátíð Félags íslenskra hönnuða sem haldin var fyrir skömmu. Verðlaunin hlaut Helga Valdís fyrir auglýsingar um námsmannaþjónustu Sparisjóðsins.

Eftir Maríu Ólafsdóttur

maria@mbl.is

Það er afar ánægjulegt að fá viðurkenningu fyrir þau verk sem maður hefur unnið að. Hugmyndin að auglýsingunum fyrir Sparisjóðinn er byggð á því þegar krakkar svindla í skóla með því að skrifa á höndina á sér, nema hvað nemendur í Sparisjóðnum svindla ekki heldur eru með upplýsingar um ýmis tilboð og fríðindi á hendinni. Þannig er slagorð Sparisjóðsins fyrir námsmenn að þeir séu þeim innan handar. Fyrst var gerð sjónvarpsauglýsing þar sem nemandi í prófi lítur á höndina á sér en þá er hann í raun með skrifað tilboð í bíó þar. Upp úr þessu gerðum við síðan markpóstinn og þá var hugmyndin í raun borðleggjandi. Það er gaman að vinna fyrir Sparisjóðinn því þar er fólk opið fyrir skemmtilegum hugmyndum og eins er gaman að vinna fyrir ungt fólk þar sem það er mjög móttækilegt. Maður getur gengið pínulítið lengra í auglýsingum fyrir þann markhóp og verið meira ögrandi án þess að hneyksla mikið,“ segir Helga Valdís.

Hugmyndir í heilan hring

Helga Valdís útskrifaðist úr grafískri hönnun frá Listaháskólanum árið 2004 og hefur starfað við hana síðan og nú á auglýsingastofunni Fíton. Hún segir starfið fjörugt og skapandi og það sé alltaf mjög gaman í vinnunni. Hún segir hugmyndavinnu á bak við hvert verk oft vera mikla og hugmyndirnar fari í heilan hring áður en oft sé endað á þeirri einföldustu sem oft sé langbest því þannig séu skilaboðin einföld, skýr og skemmtileg. „Stundum vaknar maður á nóttunni með hugmyndir í kollinum en annars koma þær mikið af að vafra á netinu, spjalla við annað fólk, fara á kaffihús og fletta blöðum eða fara út í göngutúr og anda að sér hreina, íslenska loftinu,“ segir Helga Valdís.