„SÚ niðurstaða, sem er fengin í málið, er jákvæð fyrir miðla Árvakurs, Morgunblaðið og mbl.is. Óvissu um reksturinn er eytt og öflugir fjárfestar komnir að félaginu,“ segir Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Morgunblaðsins.
„Samsetning þess hóps, sem stendur að Þórsmörk ehf., er ekki ósvipuð því eignarhaldi sem Morgunblaðið hefur lengst af búið við; þar er á ferð tiltölulega breiður og fjölbreyttur hópur stöndugra fjárfesta.
Það er að mínu mati jákvætt að þessi hópur hyggst fá enn fleiri eigendur að félaginu. Dreift eignarhald er æskilegast fyrir fjölmiðlafyrirtæki eins og Árvakur. Ég geng út frá því að eins og fyrri eigendur í áranna rás muni hinn nýi eigendahópur standa þétt við bakið á ritstjórn Morgunblaðsins og tryggja sjálfstæði hennar í hvívetna,“ segir Ólafur.
Niðurstaðan fagnaðarefni
„Það er fagnaðarefni fyrir starfsmenn og áskrifendur Morgunblaðsins og mbl.is að búið sé að eyða óvissu um framtíð félagsins,“ segir Einar Sigurðsson, forstjóri Árvakurs hf. „Starfsfólk fyrirtækisins hefur í vetur barist fyrir Morgunblaðið og mbl.is og haft sigur í tvennum skilningi. Við höfum sýnt svo ekki verður um villst að þessir miðlar skiptu máli í umfjöllun um eitthvert örlagaríkasta tímabil Íslandssögunnar. Við höfum líka sýnt að þær fórnir sem starfsfólk hér hefur fært með aukinni vinnu, fækkun starfa og lækkun launa, hafa átt umtalsverðan hlut í að fyrirtækið er nú í rekstrarfæru standi við erfiðustu aðstæður sem sést hafa á fjölmiðlamarkaðnum,“ segir Einar.Hann segir að verkefnið hafi verið unnið hratt og örugglega og söluferlinu stjórnað af festu af hálfu Íslandsbanka. „Ég tel að þetta söluferli geti orðið fyrirmynd að endurskipulagningu annarra fyrirtækja af hálfu bankanna. Ég vil þakka Íslandsbanka fyrir traust samstarf í þessu máli,“ segir Einar Sigurðsson.