Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samfylking og Vinstri hreyfingin grænt framboð hafa komið sér saman um að Alþingiskosningar fari fram laugardaginn 25. apríl næstkomandi. Morgunblaðið mun daglega birta fréttir sem tengjast framboðum, prófkjörum, kosningafundum o.fl.

Samfylking og Vinstri hreyfingin grænt framboð hafa komið sér saman um að Alþingiskosningar fari fram laugardaginn 25. apríl næstkomandi. Morgunblaðið mun daglega birta fréttir sem tengjast framboðum, prófkjörum, kosningafundum o.fl.

Árni Páll sækist eftir endurkjöri

ÁRNI Páll Árnason þingmaður sækist eftir að leiða lista Samfylkingar í Suðvesturkjördæmi í komandi kosningum. Árni hefur m.a. menntun í Evrópurétti og hefur kennt við HR frá 2004. Hann hefur m.a. setið í heilbrigðisnefnd, utanríkismálanefnd og viðskiptanefnd Alþingis og er nú formaður allsherjarnefndar.

Una María býður sig fram í 2. sætið

UNA María Óskarsdóttir, formaður Freyju, félags framsóknarkvenna í Kópavogi, býður sig fram í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Una María er uppeldis- og menntunarfræðingur með BA-próf frá Háskóla Íslands og stundar nú meistaranám í lýðheilsuvísindum við sama skóla.

Friðrik gefur kost á sér í 4. sæti VG

FRIÐRIK Atlason forstöðumaður á sambýli gefur kost á sér í 4. sæti í forvali VG í Reykjavík. Friðrik hefur lengi starfað að málefnum fatlaðra. Hann situr í Borgarmálaráði VGR og í stjórn SFR – Stéttarfélags í almannaþjónustu. Hann hefur m.a. unnið að verkefnum fyrir Femínistafélag Íslands.

Ingigerður fram í Suðurkjördæmi

INGIGERÐUR Sæmundsdóttir gefur kost á sér í prófkjör sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi. Hún er verkefnastjóri Félags foreldra og foreldraráða í grunnskólum Reykjanesbæjar og nemi í HÍ. Hún er ritari Sjálfstæðisfélagsins Njarðvíkings síðan 2007.

Bryndís sækist eftir 2. sætinu

BRYNDÍS Bjarnarson býður sig fram í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Hún sat m.a. í bæjarstjórn Mosfellsbæjar 2002-2006, er með BA gráðu í hagfræði, heimspeki og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst og er nú í meistaranámi í menningarstjórnun.