Opið markaðsnám hófst nú á vorönn í Háskólanum á Bifröst. Námið er sérhæft markaðsnám og gerðu háskólinn, SÍA – Samband íslenskra auglýsingstofa og ÍMARK með sér samkomulag um slíkt nám á háskólastigi.
Eftir Maríu Ólafsdóttur
maria@mbl.is
Námið er sérsniðið að þörfum þeirra sem vilja auka við menntun, þekkingu og hæfni á sviði markaðsfræða.
Opið markaðsnám er fjarnám þar sem nemendur geta valið þau námskeið sem best henta hverju sinni. Nemendur geta stundað nám samhliða vinnu eða tekið fleiri námskeið ef námið er stundað einvörðungu. Sérsniðin námskeið í markaðs-, samskipta- og auglýsingafræðum eru 16 talsins en með því að bæta við öðrum 13 kúrsum og ritgerð ljúka nemendur BS-námi í viðskiptafræði.
Setja saman eigið nám
„Þetta er alveg nýtt nám og hefur verið skortur á slíku sérhæfðu námi hér á landi fyrir þá sem vinna að markaðsmálum. Fólk velur sér þau námskeið sem það hefur áhuga á og býr þannig í raun til sitt eigið nám og ræður hversu langan tíma það ætlar sér til þess. Nemendur geta klárað diplóma í markaðsnáminu eða fengið námið metið og klárað þá BS-gráðu í því sem þeir hafa áhuga á. Þar sem námið er með fjarnámssniði er það ekki bundið við fjölda þátttakenda og því ættu flestir að komast að,“ segir Kristín Ólafsdóttir, markaðsfræðingur skólans.
Nám með skóla vinsælt
Kristín segir meðlimi SÍA og ÍMARK hafa mikinn áhuga á náminu. Það sé gott tækifæri fyrir fólk sem hefur ef til vill leiðst inn í að vinna á sviði markaðsfræðanna og er jafnvel með hluta af gráðu á slíku sviði og getur þá aukið við menntun sína. Námskeiðin eru tímasett þannig að hægt er að taka einstaka námskeið sem yfirleitt eru um sex vikur hvert um sig. Kennarar koma alls staðar að úr þjóðfélaginu, bæði af sviði markaðsmála og frá auglýsingastofum auk erlendra kennara sem taka að sér tímabundna kennslu. Að námi loknu geta nemendur til að mynda bætt við sig viðskiptafræðinámi og hafa þá þegar sérhæft sig í markaðsfræði. „Yfir helmingur nemenda í Bifröst er í fjarnámi og mjög vinsælt að fólk bæti slíku við með vinnu,“ segir Kristín sem hefur undanfarin ár starfað að einhverju leyti við markaðsstörf.