Barátta Stjörnumaðurinn Jóhann Már Arnarson freistar þess að sækja gegn Val Guðjóni Valssyni, Þrótara.
Barátta Stjörnumaðurinn Jóhann Már Arnarson freistar þess að sækja gegn Val Guðjóni Valssyni, Þrótara. — Morgunblaðið/Ómar
„ÞETTA var nánast óaðfinnanlegur leikur hjá okkur.

„ÞETTA var nánast óaðfinnanlegur leikur hjá okkur. Það var hvergi veikan blett að finna á okkar liði,“ sagði Sævar Már Guðmundsson, einn aðstandenda blakliðs Þróttar í karlaflokki eftir að það vann Íslands-, deildar- og bikarmeistara Stjörnunnar, 3:0, á Íslandsmótinu í blaki í gærkvöldi. Leikmenn Þróttar léku við hvern sinn fingur, eins og Sævar komst að orði og vantar nú aðeins að vinna eina hrinu til þess að hampa deildarmeistaratitlinum á þessari leiktíð. „Titillinn er nánast í höfn hjá okkur,“ sagði Sævar glaðbeittur eftir sigurinn í gær.

Þróttur tók völdin á leikvellinum strax í upphafi í gær og vann auðveldan sigur í fyrstu hrinu, 25:13. Því var síðan fylgt eftir með tíu stiga sigri í annarri hrinu, 25:15. Leikmenn Stjörnunnar veittu meiri mótspyrnu í lokahrinunni en urðu eigi að síður að játa sig sigraða, 25:19.

Næsti leikur Þróttar í deildinni verður 10. mars. Þá mætir liðið liðsmönnum Stjörnunnar á nýjan leik. Það líður því a.m.k. hálfur mánuður þar til leikmenn Þróttar Reykjavíkur geta fagnað deildarmeistaratitli.

„Síðan mætum við Stjörnunni á ný í undanúrslitum bikarkeppninnar 14. mars. Þá ætlum við okkur sigur á ný og komast þar með í úrslit bikarsins,“ sagði Sævar en síðustu leikir Þróttar í deildinni verða við KA nokkru eftir bikarkeppnina.

Að deildarkeppninni lokinni tekur við úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn þar sem vísast má reikna með að Þróttur og Stjarnan berjist hart um sigurlaunin. iben@mbl.is