ÞEIR sem tóku við í stjórn hins danska FIH Ervhervsbank eftir að Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson viku úr stjórn bankans voru skipaðir af skilanefnd Kaupþings.
Mennirnir sem um ræðir eru Ragnar Árnason og Guðni Níels Aðalsteinsson, en alls sitja níu manns í stjórn FIH.
Skilanefnd Kaupþings hefur undanfarna mánuði reynt að finna kaupendur að danska bankanum, en Seðlabankinn lánaði Kaupþingi 500 milljónir evra gegn veði í öllum hlutabréfum bankans í FIH. Kaupþing á um 99% hlutafjár í bankanum.
Danski bankinn skilaði hagnaði á síðasta ári upp á 208 milljónir danskra króna, samanborið við 1,3 milljarða danskra króna árið 2007. Munaði þar mest um afskriftir upp á tæpar 500 milljónir danskra króna, en einnig dróst hreinn rekstrarhagnaður umtalsvert saman á tímabilinu. bjarni@mbl.is