Kári Gautason
Kári Gautason
Kári Gautason skrifar um landbúnaðarmál: "Það er óþolandi, ósanngjarnt og hreinlega ósatt þegar það er látið líta út fyrir að íslenskir bændur standi í vegi fyrir framþróun þriðja heimsins eins og stundum er látið líta út fyrir."

HVAÐ stendur í vegi fyrir því að hægt sé að stunda landbúnað í heiminum þannig að bændur hafi það ágætt, fólk fái nóg af borða og ekki sé stunduð rányrkja á umhverfinu?

Þetta er að sjálfsögðu frekar erfið og stór spurning, en ef maður spyr sig ekki stórra spurninga fær maður aldrei stór svör.

Staða landbúnaðar í heiminum er ískyggileg, nægir að benda á eina staðreynd. Árið 2007 var merkilegt á marga vegu en ekki síst vegna þess að þá kom í ljós að fleira fólk var of feitt heldur en hungrað. Einn milljarður manna er of feitur, meðan 850 milljónir manna í heiminum þurfa að líða hungur. Það er augljóslega eitthvað virkilega bogið við þetta kerfi.

Í sögu mannsins hefur aldrei verið til jafn framleiðin stétt og bændur í dag. Á sama tíma eru lífsskilyrði stéttarinnar þannig að nýliðun er lítil sem engin (á Vesturlöndum). Félagsleg vandamál í Bandaríkjunum eins og t.d. eiturlyfjaneysla eru meiri í dreifbýli en í þéttbýli.

Hækkandi meðalaldur er vandamál bænda á öllum Vesturlöndum. Í Bandaríkjunum er meðalaldurinn 55 ár og í Bretlandi er meðalaldurinn 58 ár. Það segir sig sjálft að þegar staðan er svona eru framtíðarhorfur ekki glæsilegar.

Þessu kerfi hefur verið komið á laggirnar af talsmönnum nýfrjálshyggju síðustu þriggja áratuga.

Nýfrjálshyggja hefur aukið örbirgð smábænda út um allan heim, kannski er frekar hægt að tala um stríð á hendur smábændum. Hin svokallaða hagræðing sem orðið hefur af breytingum síðustu ára hafa ekki verið til annars en að milliliðir hafa makað krókinn meðan neytendur og framleiðendur tapa.

Landbúnaðarhagfræðingurinn C. Robert Taylor bar vitni fyrir þingnefnd Bandaríkjaþings árið 1999 og sagði: „Síðan 1984 hefur raunverð á matarkörfu hækkað um 2,8% á meðan hlutur bænda hefur dregist saman um 35,7%.“ Þessar risavöxnu samsteypur græða meðan aðrir svelta. Árið 2007 jókst gróði Cargill (stærsta matarfyrirtækis í heimi) um 30% á meðan matvælaverð hækkaði stöðugt og að mati Sameinuðu þjóðanna bættust 100 milljónir við hóp hungraðra í heiminum.

Í heiminum í dag eru starfrækt gríðarstór samtök smábænda sem kalla sig Via Campesina (með um 150 milljón meðlimi) og berjast fyrir breytingu á landbúnaðarstefnu heimsins. Eitt af aðalbaráttumálum þeirra er réttur þjóða og hópa til að ákveða sína eigin landbúnaðarstefnu og vera ekki þrælar markaðsins. Hugtak þetta kalla þeir „food sovereignty“ sem gæti verið snúið uppá íslensku sem „matvæla fullveldi“.

Þeir með öðrum orðum vilja stoppa ofríki auðvaldsins yfir bændum. Ofríki sem birtist í því hvernig bændum er att saman, til að berja niður verð til bænda. Þannig maka milliliðirnir krókinn sem eru á heildina litið alls ekki svo margir. Gríðarleg samþjöppun milliliða hefur leitt til þess að tíu fyrirtæki stjórna 84% af eiturefnamarkaði, Tíu fyrirtæki stjórna helmingi af sölu útsæðis í heiminum, tíu stærstu matarvinnslufyrirtæki Bandaríkjanna stjórna 24% af markaði með unna matvöru (veltan á þeim markaði er 1,25 billjarðar dollara) og svo framvegis. Flöskuhálsinn milli neytenda og bænda eru örfáir voldugir milliliðir.

Þessi samkeppni leiðir til þess að matur er framleiddur á ósjálfbæran hátt (sérstakt dæmi er Ástralía þar sem stunduð er einhver ósjálfbærasta framleiðsla sem um getur), á ómannúðlegan hátt (verksmiðjubú Vesturlanda og þrælkunarvinna þróunarlanda) og þannig að bændur hafa varla í sig og á. Í hinu svokallaða heimsmarkaðsverði sem afurðir íslenskra bænda eru bornar saman við er aldrei tekið tillit til aðstæðna þar sem varan er framleidd, aldrei er tekið tillit til umhverfislegs kostnaðar.

Íslensk stjórnvöld þurfa því að vinna í landbúnaðarstefnu sem á framtíð fyrir sér. Reyna að búa þannig um hnútana að einhver nýliðun verði í greininni og hvetja til sjálfbærrar framleiðslu. Einnig þurfa íslensku bændasamtökin að styðja við baráttu smábænda í þriðja heiminum gegn stórfyrirtækjum, því að við erum í sama liði og þeir, þeirra barátta er okkar barátta.

Það er óþolandi, ósanngjarnt og hreinlega ósatt þegar það er látið líta út fyrir að íslenskir bændur standi í vegi fyrir framþróun þriðja heimsins eins og stundum er látið líta út fyrir. Ef smábændur í þróunarlöndum fá tækifæri til að stunda landbúnað á sinn hátt án þess að vera arðrændir af milliliðum þá er unninn stór sigur í baráttunni gegn fátækt, þar sem 70% íbúa í þróunarlöndum búa í dreifbýli. Það eru þrír milljarðar manna.

Höfundur er nemi við Menntaskólann á Akureyri.