ÚTFLUTNINGSVERÐMÆTI gulldepluafurða er nú orðið um 800 milljónir króna að mati Stefáns Friðrikssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, að því er fram kemur á heimasíðu LÍÚ. Stefán telur að reikna megi með 25-26 þúsund krónum fyrir tonnið af útfluttum afurðum en fiskurinn er unninn í mjöl og lýsi.
Alls voru í gær um 31.600 tonn af gulldeplu komin á land. Tæpum helmingi aflans hefur verið landað í Eyjum, en talsverðu hefur einnig verið landað á Akranesi, í Keflavík og á Eskifirði.
Síðustu daga hafa sjö skip verið að gulldepluveiðum um 130 mílur suður af Eyjum; Huginn, Guðmundur, Kap, Hoffell, Birtingur, Ásgrímur Halldórsson og Jóna Eðvalds. Eftir leiðindabrælu lagaðist veður eftir hádegi í gær og köstuðu skipin þá á mjög góðar lóðningar. Þær upplýsingar fengust um borð í Hugin að lóðningarnar hefðu verið sterkar og jafnvel sterkari en í Grindavíkurdýpi í síðasta mánuði.