„VIÐ erum komnir í mjög þægilega stöðu fyrir lokasprettinn í deildinni. Höfum þriggja stiga forskot og sitjum í toppsætinu. Það er einmitt sú staða sem við viljum vera í þegar deildarkeppninni lýkur og ná með í heimaleikjaréttinn,“ sagði Sigurbergur Sveinsson, stórskytta Hauka, eftir öruggan sigur liðsins á Víkingi, 31:26, í N1-deildinni í handknattleik karla á Ásvöllum í gærkvöldi.
Eftir Ívar Benediktsson
iben@mbl.is
Sigurbergur átti mjög góðan leik og skoraði 10 mörk og lagði grunninn að öruggum sigri liðsins ásamt félaga sínum Gísla Guðmundssyni markverði sem fór á kostum og varði 24 skot. Haukar þurftu ekki nema stórleik þeirra til þess að leggja neðsta lið deildarinnar, Víking, og tryggja sér þar með þriggja stiga forskot í efsta sæti deildarinnar nú þegar fimm umferðir eru eftir. Haukar sem voru með örugga forystu, mest tíu mörk, sækja Framara heim í næstu umferð, en Safamýrarpiltar voru ásamt þjálfara sínum, Viggó Sigurðssyni, meðal alltof fárra áhorfenda á Ásvöllum í gærkvöldi.
Leikurinn í gær var aldrei spennandi. Til þess skildi leiðir liðanna of snemma og því miður höfðu lánlaunir leikmenn Víkings aldrei burði til þess að gera einhverja keppni úr þessum leik. Haukar tóku rispur í leiknum og juku forskot sitt en duttu þess á milli niður í kæruleysi en aldrei svo mikið að leikmenn Víkings næðu að skapa einhverju spennu í leikinn. Staðan í hálfleik var 15:10, Haukum í vil.
„Við vissum að við máttum ekki vanmeta Haukana. Með því að spila okkar leik töldum við ljóst að við myndum vinna og sú varð og raunin,“ sagði Sigurbergur.
Aron Kristjánsson gaf öllum leikmönnum sínum tækifæri til að spreyta sig að þessu sinni að Birki Ívari Guðmundssyni markverði undanskildum. Hann sat sem fastast á bekknum allan leikinn og fylgdist með stórleik félaga síns Gísla.
Gáfust aldrei upp
„Við vorum inni í leiknum allan fyrri hálfleik en misstum Haukana aðeins of langt frá okkur á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks. Þeir náðu þá tíu marka forskoti. En mínir leikmenn eiga heiður skilinn fyrir að gefast aldrei upp í leiknum. Þeir börðust til enda þrátt fyrir erfiða stöðu,“ sagði Róbert Sighvatsson, þjálfari Víkinga í leikslok.„Okkur tókst að skora 26 mörk gegn einni sterkustu vörn deildarinnar. Með það getum við verið ánægðir. En á móti kemur að við fengum á okkur 31 mark. Það er of mikið. Munurinn liggur í markvörslunni sem var mun betri hjá Haukum en okkur að þessu sinni,“ sagði Róbert.
Í hnotskurn
» Íslandsmeistarar Hauka hafa unnið allar þrjár viðureignir sínar við Víking á leiktíðinni.» Alls munar 18 stigum á Haukum og Víkingi eftir 16 umferðir í N1-deild karla.
» Gísli Guðmundsson varði 24 skot í marki Hauka í gær en markverðir Víkinga vörður samtals 13 skot.
Haukar – Víkingur 31:26
Ásvellir, Íslandsmótið í handknattleik, úrvalsdeild karla, N1 deildin, miðvikudaginn 25. febrúar 2009.Gangur leiksins : 1:0, 1:1, 3.2, 8:4, 11:6, 12:10, 15:10 , 15:11, 20:13, 24:14, 24:17, 27:22, 29:25, 31:26 .
Mörk Hauka : Sigurbergur Sveinsson 10/2, Kári Kristján Kristjánsson 7, Arnar Jón Agnarsson 5, Elías Már Halldórsson 4, Andri Stefan 1, Freyr Brynjarsson 1, Tjörvi Þorgeirsson 1.
Varin skot : Gísli Guðmundsson 24/1 (þar af 5 til mótherja).
Utan vallar : 4 mínútur.
Mörk Víkings : Davíð Georgsson 8/3, Sveinn Þorgeirsson 7, Hreiðar Haraldsson 3, Sverrir Hermannsson 3, Þröstur Þráinsson 2, Brynjar Loftsson 1, Hjálmar Þór Arnarson 1, Óttar Pétursson 1.
Varin skot : Björn Viðar Björnsson 8/2 (þar af 5 til mótherja). Árni Gíslason 5 (þar af 3 til mótherja).
Utan vallar : 4 mínútur.
Dómarar : Gísli H. Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson, slakir, allt samræmi vantaði t.d. í dómgæslu þeirra.
Áhorfendur : 200.