Gítarhetja Baldvin Freyr er sagður skjótari en skugginn að spila gítarsólóin.
Gítarhetja Baldvin Freyr er sagður skjótari en skugginn að spila gítarsólóin. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
BANDARÍSKA hljómsveitin Brian Jonestown Massacre, sem rekin hefur verið með síbreyttri mannaskipan af hinum litríka tónlistarmanni Anton Newcombe, hljóðritar nú nýtt efni í Sýrlandi.

BANDARÍSKA hljómsveitin Brian Jonestown Massacre, sem rekin hefur verið með síbreyttri mannaskipan af hinum litríka tónlistarmanni Anton Newcombe, hljóðritar nú nýtt efni í Sýrlandi. Newcombe hefur nokkrum sinnum komið hingað til lands eftir að hann vingaðist við liðsmenn Singapore Sling. Hann virðist hrifinn af ungu íslensku tónlistarfólki því á síðustu breiðskífu sinni leitaði hann einmitt á náðir liðsmanna Jakobínarínu og Singapore Sling til þess að leika tónlist sína. Um helgina gerði hann svo boð eftir Baldvini Frey Þorsteinssyni, ungum gítarleikara rokksveitarinnar Lightspeed Legend, en nafn sveitar hans er lýsandi þar sem hann er sagður geta leikið á gítar sinn á ljóshraða. Pilturinn var fenginn sérstaklega til þess að leika gítarsóló í einu lagi Brian Jonestown Massacre sem hann afgreiddi á augabragði.

„Aron upptökustjóri hringdi í mig og bað mig að mæta,“ segir Baldvin, sem segist ekkert hafa orðið var við þá stjörnutakta sem gerðu Anton frægan í heimildarmyndinni Dig sem gerð var um sveit hans og Dandys Warhols. „Þetta var mjög frjálst, hann rápaði inn og út úr klefanum, brosti og reyndi að lýsa því hvað ég ætti að gera. Sagði mér hvaða nótum ég ætti að halda lengur og svoleiðis. Þetta tók eina kvöldstund og ég lék nokkrar tökur yfir lagið.“

Hljómsveit Baldvins leitar nú að söngvara. Áhugasömum er bent á að hlusta á lögin ósungin á myspace.com/lightspeedlegend.

biggi@mbl.is